19.04.1978
Efri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3636 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

151. mál, samkeppni í verðmyndun og samruni fyrirtækja

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að harma málflutning 2. þm. Norðurl. e., á sama tíma og ég verð að þakka honum fyrir þó hlý orð í garð frv. sem ég flyt hér. Þetta kann að hljóða þannig, að ég haldi kverkataki um háls hv. þm. með annarri hendinni og klappi honum með hinni, en ég er ekki að því. Mér fannst ég mega skilja á málflutningi hans, að hann hafi lesið frv. mitt þótt það nokkuð gott, en ákveðið að styðja það ekki vegna þess að ríkisstj. væri búin að leggja fram frv, um líkt efni. Ég var ekki viss um að ég skildi hann þannig, að hann hafi lesið það líka. Það getur verið. Þetta eru viss meðmæli með þessu frv., sem ég legg nú fram. Hugarfarið er mér nóg í þessu tilfelli.

En hvað varðar hv. 5. þm. Norðurl. v., þá var ekki margt í ræðu hans sem ég þarf að svara. Hann sagði þó að það væri óraunhæft, að neytandinn veitti það aðhald sem þarf til þess að verðlag geti verið frjálst á verðbólgutímum. Ég vona að ég fari rétt með. Þarna stangast á hugsjónir okkar sem treystum á dómgreind almennings, trúum á samtakamátt neytendanna sjálfra til að halda verðlagi niðri. Hans sjónarmið stangast á við lífsskoðanir þeirra sem vilja hafa allt sem frjálsast, treysta því að einstaklingarnir og þá samtakamáttur þeirra, ef þeim finnst þeir misréttir beittir, geti haft nokkur áhrif á og ráðið málum. Ég segi: þarna stangast á hugsjónir. En ég virði pólitískar skoðanir hv. 5. þm. Norðurl. v., þó að ég álíti að hann sé á villigötum hvað þetta snertir.

Hv. þm. minntist á að Sjálfstfl. hafi beitt sér fyrir þvingunarlöggjöf, löggjöf sem rýrði tekjur manna. Ég vil minna hv. þm. á, að ég greiddi atkv. gegn þeim lögum, ef hann var að vitna í þær ráðstafanir sem nýlega voru gerðar í efnahagsmálum, og áttum við nokkrum sinnum samtal um þau mál. (Gripið fram í.) Ég kom ekki fram fyrir flokkinn. Það er ekki komið að því, að ég sé efsti maður á lista Sjálfstfl. í Reykjavík. Ég ætla því að biðja hv. þm. að halda sig að því sem er í dag, en ekki því sem kann að verða á næstunni.

Hv. þm. talar um að verslunarstéttin skammti sér laun, ef álagning verður gefin frjáls. Við skulum sjá hvað vegur á móti því, að verslunarstéttin skammti sér laun. Tökum sem dæmi þá staðreynd að Alþb.- menn eru núna ráðandi í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis er eflaust mjög vel rekið fyrirtæki. Það hefur þann sess í hugum Reykvíkinga, að mér er óhætt að fullyrða það án þess að ég þekki mikið til þess. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hefur 12 útsölustaði í Reykjavík, þannig að það eitt ætti að nægja til þess að halda niðri græðgi þess vonda kaupmanns sem ætlar að skammta sér háar tekjur með því að selja neytendum á háu verði. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis ætti að vera nóg til þess að halda verðlaginu niðri í Reykjavík. En ég vil benda á að til viðbótar við þetta er samvinnufélag hér með, ég veit ekki hvað margar verslanir, ég gæti trúað að það væri með álíka margar verslanir, ef ekki fleiri, en alla vega með fleiri stórmarkaði, þ. e. Sláturfélag Suðurlands. Það er samvinnuverslun. Mætti því ætla að þær verslanir til viðbótar við KRON-verslunina gætu veitt þessum vonda kaupmanni talsverða samkeppni.

Ef við höldum áfram með þetta dæmi, hvað það er erfitt fyrir hinn vonda kaupmann að skammta sér laun sjálfur, þá er það staðreynd, að Samband ísl. samvinnufélaga er stærsta innflutnings- og heildverslun og auðvitað útflutningsverslun landsins með aðsetur í Reykjavík. Það flytur inn á eigin skipum það sem það kaupir í samvinnu við önnur samvinnufélög á Norðurlöndum og fær magnafslætti langt undir því sem nokkur kaupmaður hefur efni á að fá, vegna þess að magnið, sem kaupmennirnir kaupa þó þeir keyptu allir inn saman, er ekki nógu mikið á við magn það sem Sambandið flytur inn á eigin skipum. Það tryggir hjá eigin vátryggingafélagi, hefur eigin banka. Alla þessa milliliði og alla þá þjónustu, sem þar er falin, þurfa kaupmennirnir að reikna inn í sína verðmyndun. Þeir kaupa hver af öðrum í þjónustugreinunum. En samt sem áður og þrátt fyrir allt þetta er verðið ekkert lægra hjá samvinnufélögunum, hjá verslununum í KRON, hjá Sláturfélaginu, en hjá þessum vonda kaupmanni sem verið er að tala um að geti skammtað sér sjálfur laun. (Gripið fram í: Hann jafnar þetta með söluskattinum.) Ég skal ekki segja um það. Ég vil hvorki bera á Sambandið né kaupmenn, að þau séu að stela undan söluskatti, eins og hér er skotið inn í. Ég skal ekki segja, en það væri ágætt að fá þá staðfestingu á því, — eitthvað meira en það sem kastað er fram utan úr sal hingað upp í ræðustólinn til mín. Ef það á sér stað, að almennt sé dreginn undan söluskattur frekar hjá einum aðila en öðrum, þá væri mjög gott að fá það fram. Alþ. yrði þá að rannsaka það. (Gripið fram í.) Ég get ekki fullyrt um hvað þeir geta og hvað þeir geta ekki.

Með allri þessari samkeppni í þjónustu, sem verðmyndunin hefur frá fyrirtækjum fólksins, eins og Alþb.- menn á þingi hafa kallað bæði samvinnuhreyfinguna og ekki síst KRON, þá er mér óskiljanlegt að þeir skuli óttast að kaupmaðurinn hafi ekki nóga samkeppni í verðmyndun til þess að verðmyndunin geti verið frjáls. Þar fyrir utan er það staðreynd, að á mörgum stöðum í kringum allt land er aðeins ein verslun og eitt fyrirtæki, þar er enginn kaupmaður til að halda uppi verði, en verðið er samt sem áður það sama og í Reykjavík að viðbættum uppsöfnuðum kostnaði. Þannig verður dýrara fyrir fólkið á stöðunum að kaupa inn úti á landi en í Reykjavík. Og þetta er fyrirtæki fólksins, sem þarf ekki að borga út fyrir sinn hring milliliðum á neinu stigi verðmyndunar.

Þetta er svar mitt við þeirri fullyrðingu hv. 5. þm. Norðurl. v., að kaupmaðurinn hafi frjálsar hendur til þess að skammta sér laun með okurálagningu. Ég mótmæli slíkum fullyrðingum.