19.04.1978
Efri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (2808)

151. mál, samkeppni í verðmyndun og samruni fyrirtækja

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að hefja umr. um þetta mál, en þar sem þær snerust út í það, að KRON og Sambandið hefðu fulla möguleika til að veita þá samkeppni í Reykjavík, að þessir aðilar ættu þess vegna að geta haldið uppi því aðhaldi, sem nauðsynlegt væri og eðlilegt, get ég ekki látið hjá líða að minna hv. flm. á þá staðreynd, að inn í þetta dæmi kemur hverjir ráða Reykjavíkurborg. Úthlutun lóða er eitt af því sem hefur úrslitaáhrif í þessu sambandi. Ég vil minna á að leitað var eftir því á vegum Sambandsins að hafa stórmarkað við Sundahöfn. Því var hafnað. Og ég held að á meðan ástandið í þessum málum er þannig, að óeðlileg afgreiðsla er á lóðum til KRON og Sambandsins undir stórverslanir á Reykjavíkursvæðinu, þá sé ekki réttlátt að tala um að samkeppni geti haldið þessu í því horfi sem æskilegt væri.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram hjá 5. þm. Norðurl. v., að á verðbólgutímum eru verðbreytingar svo örar, að það ruglar mjög almennt verðskyn manna. Ef þú ferð inn í verslun og spyrð eftir vöru er þér sagt að hún sé á þessu verði og jafnframt tjáð, ef þú gerir athugasemd við það verð, að hún sé nýkomin til verslunarinnar. Það er nú einu sinni svo, að tvö grundvallaratriði verða að vera til staðar ef samkeppnin á að halda vöruverði niðri. Annars vegar verður að vera nokkuð mikil kyrrstaða á verði í landinu, þannig að fólk læri verð á mjög mörgum vörutegundum, og svo hitt, að jöfn aðstaða sé varðandi það að fá lóðir undir verslunarhúsnæði.