19.04.1978
Efri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3641 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

151. mál, samkeppni í verðmyndun og samruni fyrirtækja

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Það er e. t. v. ekki ástæða til að lengja þessar umr. mikið, þar sem í þeirri rökstuddu dagskrá, sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur, er ekki tekin nein efnisleg afstaða til þessa frv. Ég held að augljóst sé að ekki geta verið í gildi tvenn lög um sama efni, um verðlag og verðmyndun og samkeppnishömlur og annað slíkt. Ef við hefðum mætt með og samþ. frv. hv. 12. þm. Reykv., þá hefðum við ekki getað samþ. einnig það frv. sem nú liggur fyrir hv. Nd. Fjh.- og viðskn. taldi nauðsynlegt að athuga þessi mál bæði saman, og þegar það frv. kemur til fjh.- og viðskn. Ed. er hægt að taka efnislega afstöðu einnig til þess sem er í frv. hv. 12. þm. Reykv.

Það er vitanlega alveg rétt, að fyrirmælin, sem felast í þessum frv., eru nokkuð mismunandi. Ég vil vegna þess, sem hefur komið fram hjá nokkrum hv. þm. Alþb., geta þess, að í því frv., sem nú liggur fyrir Nd., er alls ekki lagt til að afnema allar hömlur. Það mun koma í ljós þegar það frv. verður hér efnislega til umr.

Það hefur einnig komið hér til umr. af hverju samvinnufélögin væru ekki með lægra verðlag en raun ber vitni, og þá m. a. talað um Samband ísl. samvinnufélaga. Ég þekki það mikið til viðskipta við það í gegnum kaupfélag úti á landi, að ég veit að það er ómetanlegur stuðningur fyrir kaupfélögin að hafa viðskipti við Samband ísl. samvinnufélaga. Hins vegar þjónar það kaupfélögunum úti um allt land, og það ætti ekki að þurfa að segja mönnum, a. m. k. utan af landi, að sú þjónusta hlýtur að vera miklu dýrari en er í Reykjavík. Sambandið reynir, eftir því sem það getur, að jafna þessu út og létta undir, en þrátt fyrir það er óhjákvæmilegt að sá kostnaðarauki, sem er hjá verslun úti á landi vegna flutninga, miklu hægari vöruumsetningar og margra annarra atriða, veldur hærra vöruverði. En ég þori að fullyrða að sá munur yrði enn þá meiri ef samvinnufélögin nytu þar ekki aðstoðar Sambandsins. E. t. v. er það skýrasta dæmið um það eða sönnunin fyrir því, að víða eru kaupfélögin orðin eini aðilinn sem þó treystir sér til þess að halda uppi þessari bráðnauðsynlegu þjónustu fyrir byggðarlögin úti á landi, og án kaupfélaganna og þjónustu þeirra væri erfitt að hugsa sér að fólkið hreinlega gæti búið á þessum stöðum.