19.04.1978
Neðri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3646 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

65. mál, sjónvarpssendingar á fiskimiðin

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Það er nú unnið að því fullum fetum að koma sjónvarpi inn á heimili allra landsmanna, eftir því sem unnt reynist af tæknilegum ástæðum. Það lítur út fyrir sæmilega aðstöðu til að fjármagna þessar framkvæmdir. Það hefur ekki verið farið út á þá braut enn að byggja sjónvarpsstöðvar fyrir fiskimiðin af ástæðum sem öllum hv. dm. eru kunnar. Það hefur hins vegar verið ákveðið að reisa stöð í Arnarnesi við Ísafjarðardjúp. Hún er fyrst og fremst fyrir þær sérstöku aðstæður sem eru við djúpið, þar sem skip liggja tugum saman oft og einatt í óveðrum, en auðvitað nær hún út á miðin líka. Ég hlýt þó að vara við því að taka ákvörðun um þessa stöð sem byrjun á því að koma sjónvarpi beint frá stöðvum til allra fiskimiða við Ísland.

Ég vil jafnframt skýra frá því, að á vegum menntmrn. hefur starfað nefnd nú um nokkurra mánaða skeið sem fjallar um að koma efni sjónvarps og útvarps til sjómanna með segulbanda- og myndsegulbandatækni. Þetta hefur verið gert í nálægum löndum, t. d. hjá Norðmönnum og Dönum, sem hvorugir hafa treyst sér til þess að koma sjónvarpsefni út á miðin í gegnum beina útsendingu. Ég á von á að þessi nefnd ljúki bráðlega störfum og skili áliti sínu, og ég mun beita mér fyrir því að ræða það þá þegar í víðari hring og reyna að hrinda áleiðis framkvæmdum í þessu efni. — Ég segi já.