21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3709 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í umr. þeim sem urðu fyrir um það bil ári hér á hinu háa Alþ. um vegáætlun sem þá var afgreidd, benti ég á nauðsyn þess að endurskoða tekjuöflun Vegasjóðs. Þá lá ljóst fyrir, að Vegasjóður var þorrinn getu til þess að sinna þeim þætti hlutverks síns að sjá um nýframkvæmdir. Ég taldi þá og tel enn að nauðsynlegt hafi verið að taka málefni Vegasjóðs til algerrar endurskoðunar, m. a. í þá veru að finna sjóðnum nýja tekjustofna í stað þeirra tekjustofna sem sjóðurinn hefur nú og auðsætt er að ekki duga lengur. Sú breyting sem gerð hefur verið við endurskoðun vegáætlunarinnar nú, er aðeins sú, að bensíngjald, einn tekjustofn Vegasjóðs, hefur verið hækkað. Þessi hækkun gerir ekki annað en að koma í veg fyrir algert upplausnar- og ófremdarástand í vegamálum. Þær tekjur, sem þessi hækkun skilar, er aðeins til þess að koma á móti þeim verðhækkunum á framkvæmdum sem orðið hafa fyrir tilverknað þeirrar stefnu í efnahags- og verðlagsmálum sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir.

Fyrst þegar til álita kom að hækka bensíngjald og auka þar með tekjur Vegasjóðs, hugsuðu ýmsir þm. sér gott til glóðarinnar í þeirri von e. t. v. gætu þessar viðbótartekjur orðið til þess að opna leiðir fyrir þá til þess að auka fjárframlög til einstakra stærri verkefna í kjördæmunum, sem ekki hafði unnist tími eða tæki­ færi til að vinna áður. Við nánari athugun kom í ljós, að svo varð ekki. Til dæmis að taka um framkvæmdir, sem unnar eru á Vestfjörðum eftir endurskoðaðri vegáætlun, reyndist við gaumgæfilega athugun okkar þm. Vestfirðinga ekki vera mögulegt að taka til framkvæmda eina einustu af þeim fimm stóru framkvæmdum sem við höfum sérstakan áhuga á. Ekki eina einustu framkvæmd gátum við ráðist í, ekki einu sinni í byrjunarframkvæmd, einfaldlega vegna þess að í ljós kom að meginhlutinn af þessu viðbótarfé., sem fékkst við hækkun bensíngjaldsins, var aðeins til þess að jafna upp fyrirhugaðar verðhækkanir á árinu sem verða mundu vegna þeirrar stefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt í efnahags- og verðlagsmálum. Það er því ljóst, þrátt fyrir þá breytingu sem gerð hefur verið í vetur með hækkun á bensíngjaldi, að Vegasjóður er í alvarlegum erfiðleikum. Það hefur komið í ljós, eins og ég benti á í fyrra að mundi koma í ljós, að það var ekki nægilegt eingöngu að hækka þá tekjustofna, sem fyrir voru, og útvega Vegasjóði fé. Nú er gleggra en nokkru sinni fyrr, að það er ekki eina úrræðið að hækka bensíngjald. Það er þegar orðið svo hátt, að öllu hærra má ekki fara. Það er ekki heldur árræði að hækka aðra tekjustofna Vegasjóðs, svo sem eins og þungaskatt og gúmmígjald, því að þessar álögur valda því m. a. að bifreiðar á Íslandi eru til mikilla muna dýrari en í flestum nágrannalöndum. Nauðsynlegt er, ef Vegasjóður á að geta gegnt hlutverki sínu, að taka tekjuöflunarmál sjóðsins til algerrar endurskoðunar og fá sjóðnum nýja tekjustofna.

Eins og ég sagði í fyrra, þá munum við þm. Alþfl. taka þátt í því, ef áhugi er hjá ríkisstj. fyrir að vinna slíka endurskoðun. Sá áhugi reyndist ekki vera fyrir hendi á yfirstandandi þingi. E. t. v. verður sá áhugi fyrir hendi nú. þegar ljóst er orðið að við svo búið verður ekki staðið.

Þeir tekjustofnar, sem Vegasjóður hefur, nægja sjóðnum ekki til þess að gegna því hlutverki sem honum er lögboðið að gera. Til dæmis að taka er það orðið ljóst, að því nær engar nýjar vegaframkvæmdir verða unnar í landinu við þær aðstæður, sem Vegasjóður býr við, nema í fyrsta lagi ef gengið er á viðhaldsfé Vegasjóðs, í öðru lagi ef aflað er fjár til framkvæmdanna með erlendri lántöku eða í þriðja lagi ef aflað er fjár til framkvæmda með sérstökum lántökum innanlands.

Áður en sú endurskoðun vegáætlunar fór fram, sem nú er lokið, var t. d. ljóst að það stóðst nokkurn veginn á endum, að allt framkvæmdafé, allt fé til nýrra framkvæmda í stofnbrautum og þjóðbrautum í landinu, var sem svaraði því fé sem fékkst úr sölu happdrættisskuldabréfa fyrir Norður- og Austurveg.

Ef við lítum aðeins nokkur ár til baka til þess að gera okkur grein fyrir því, hvernig nýframkvæmdir í vegamálum hafa í raun og veru verið fjármagnaðar, þá sjáum við það t. d., að árið 1968 nam viðhaldsfé á hvern ekinn km 6.8 kr., árið 1977 var viðhaldsfé á hvern ekinn km komið niður í 3.20 kr., hafði lækkað um meira en helming. Þetta hefur verið gert vegna þess, að jafnhliða því sem nýframkvæmdir hafa verið unnar hafa menn neyðst til þess að grípa það ráð að skera meira og meira niður af viðhaldsfénu, uns svo er nú komið að ef vegaviðhaldi ætti að halda uppi með svipuðum hætti og var árið 1968, þá þyrfti að tvöfalda viðhaldsféð frá því sem það er nú, en þá stendur á endum, að þá mundi ekkert vera eftir til nýrra framkvæmda við stofnbrautir. Vegasjóður er þannig staddur, að til þess að geta kostað nýjar framkvæmdir við stofnbrautir hefur orðið að skera sem því nemur niður viðhald á vegum, þannig að Vegasjóður með óbreyttum tekjustofnum gerir ekki miklu meira en standa undir vegaviðhaldi í landinu. Ef á að ráðast í einhverjar nýjar framkvæmdir, svo maður tali nú ekki um ný stórvirki eins og Borgarfjarðarbrú, þá verður að afla fjár til allra slíkra framkvæmda, smárra og stórra, annaðhvort með lántöku erlendis, lántöku innanlands eða með því að ganga á viðhaldsfé. Eins og nú standa sakir nægja tekjustofnar Vegasjóðs ekki lengur nema fyrir viðhaldi og rekstrarkostnaði. Þeir nægja ekki lengur til þess að greiða kostnað af neinum nýjum framkvæmdum sem eitthvað um munar.

Það kemur glögglega fram í skýrslu um framkvæmd vegáætlunar, sem hæstv. ráðh. flutti hér áðan, hvílík öfugþróun hefur átt sér stað í viðhaldi vega á Íslandi á undanförnum árum. T. d. kemur þar fram að árið 1977 var alls varið 652 millj. kr. til viðhalds á malarvegum, en til viðhalds á vegum með bundnu slitlagi um 100 millj. kr. eða tæplega 1/6 af heildarviðhaldsfénu. Samt sem áður eru vegir með bundnu slitlagi ekki nema 190 km, en malarvegir 8146 km. Það er því ekki furða þó að segi í skýrslunni á einum stað að reynt hafi verið að draga úr heflun vega eins og hægt var. Það er sem sé búið að skera niður viðhald veganna á nokkrum árum, frá t. d. árinu 1967, úr 6.8 kr. á ekinn km niður í 3.2 kr. 1977. Hér er um að ræða sambærilegar tölur, tölur á föstu verðlagi. Þetta hafa menn neyðst til þess að gera vegna þess að ástandið er orðið þannig í vegamálum og málefnum Vegasjóðs, að það er engar nýjar framkvæmdir í vegamálum hægt að vinna lengur, nema með því annaðhvort að fá það fé með því að skera niður viðhald og draga eins mikið úr heflun vega og unnt er eða með því að taka þetta fé til láns, annaðhvort hjá innlendum aðilum eða erlendum.

Og það er mjög athyglisvert t. d., hversu mikið viðhald á vegum hefur verið skorið niður á þeim stöðum þar sem mest á ríður að viðhald sé með skikkanlegum hætti, t. d. á þeim stöðum þar sem vegir eru á kafi í snjó hálft árið og koma meira og minna skemmdir undan snjó á vorin þegar umferð hefst. Vestfirðir eru einn slíkur landshluti. Á árinu 1977 var aðeins varið 59600 rúmmetrum af möl til ofaníburðar á 147.5 km vegakafla á þessu svæði eða um 0.40 rúmmetra á hvern lengdarmetra, og er það mun lægri hlutfallstala, miklu lægri en í öðrum kjördæmum landsins. Þetta er um það bil þrisvar til fjórum sinnum lægri tala heldur en t. d. á Suðurlandi, þar sem vegir eru þó færir allt árið um kring, enda leynir sér ekki hvert þessi stefna hefur leitt. Sérhver sá maður, sem ekur um landið á sumar- eða vetrardegi, kemst fljótlega að því, að jafnvel nýlega byggðir vegir eru meira og minna skemmdir, sumir nánast ófærir, vegna þess að viðhald hefur verið vanrækt um margra ára skeið.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum — örfáum — um þær aðstæður sem við Vestfirðingar þurfum sérstaklega við að búa.

Það er ekki aðeins, að úr vegaviðhaldi hafi verið stórlega dregið á Vestfjörðum, eins og ég sagði áðan, og vegaviðhald sé nú mun minna þar en í öðrum landshlutum, heldur búa menn einnig við þær aðstæður á Vestfjörðum, að um 6 mánuði á ári og jafnvel lengur er ástandið á Vestfjörðum einna líkast því sem sá landshluti væri eyja sem ekki væri í sambandi við sjálft meginlandið. Það kemur t. d. fram í skýrslu samgrh., sem hann flutti hér áðan, að vegurinn frá Ísafjarðardjúpi til aðalakvegakerfis landsmanna var tepptur alls í 194 daga á árinu 1977 eða 53% af dögum ársins. Yfir rúmlega 6 mánaða tímabil eru þeir, sem eftir Djúpvegi aka, þ. á m. Ísfirðingar og Bolvíkingar, ekki í vegasambandi við landið. Sama máli gegnir um þá vegi sem liggja frá suðurhlutum Vestfjarða. Vegir í Austur-Barðastrandarsýslu voru tepptir í 138 daga á ári eða 38% af dögum ársins. U. þ. b. hálft árið, tæplega það á suðurhluta Vestfjarða, rúmlega það á norðurhluta Vestfjarða, eru Vestfirðingar ekki í sambandi við aðalakvegakerfi landsins og geta engrar þjónustu notið á vegum landsins. Þessu til viðbótar eru vegir á milli byggðarlaga á Vestfjörðum tepptir allt upp í 146 daga á ári eða 40% af dögum ársins. Þetta hefur að sjálfsögðu í för með sér m. a. að þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum og grundvallast á því að tveir byggðakjarnar veiti næstu byggðarlögum þjónustu, hefur ekki verið hægt að framkvæma, í fyrsta lagi vegna þess, að það er ekki hægt að veita landshlutanum í heild þá þjónustu eftir akvegakerfi landsins sem allir aðrir landshlutar búa við, og í öðru lagi vegna þess að vegir eru lokaðir frá þjónustumiðstöðvum á Vestfjörðum til þeirra staða sem þessar þjónustumiðstöðvar eiga að þjóna.

Ég sagði áðan, að Vestfirðingar byggju einna helst líkt og þeir væru ekki í tengslum við sjálft meginlandið, líkt og þeir væru á eyju. E. t. v. er það ofsagt, vegna þess að sennilegt væri, ef Vestfirðir væru eyja álíka og t. d. Vestmannaeyjar, að þá mætti ganga út frá því, að Vestfirðingar byggju við svipaðar aðstæður og Vestmanneyingar varðandi fólksflutninga, þ. e. a. s. að þeir hefðu sérstakt skip til þess að halda uppi samgöngum við landshlutann. Það gerist að sjálfsögðu ekki, eins og menn vita, þannig að að því leyti til eru Vestfirðingar jafnvel verr settir en þó að þeir byggju á eylandi.

Þetta eru aðeins örfá orð um þær sérstöku aðstæður sem eru ríkjandi á Vestfjörðum. Þar er ekki málið, eins og víða annars staðar, hvort eigi að gera þessa eða aðra ökuleiðina betri eða fjölga þeim ökuleiðum sem fyrir eru, heldur hefur spurningin fram til vorra daga verið sú á Vestfjörðum, hvort unnt sé að leggja veg þar sem enginn vegur er fyrir.

Það hefur tekist á umliðnum árum að vinna stórvirki í vegamálum á Vestfjörðum, nú síðast með gerð Djúpvegar og með gerð vega í Austur-Barðastrandarsýslu. Samt sem áður er því verki langt í frá lokið að tengja Vestfirði við aðalakvegakerfi landsins, né heldur að tengja byggðarlögin á Vestfjörðum innbyrðis, þannig að þær áætlanir, sem gerðar hafa verið af opinberri hálfu um uppbyggingu atvinnulífs í landshlutanum, gætu náð fram að ganga.

Við þm. Vestf. höfum á því kjörtímabili sem nú er senn liðið lagt aðaláherslu á fimm framkvæmdir í vegamálum:

Í fyrsta lagi, að byggðar verði vegsvalir á Óshlíð, veginn milli Ísafjarðarkaupstaðar og Bolungarvíkurkaupstaðar, til þess að koma í veg fyrir þá miklu slysahættu sem þar er bæði sumar og vetur. Hvað eftir annað hefur það gerst á þessari leið, að það má segja, að það sé næstum því yfirnáttúrlegt hvernig fólk hefur komist frá því að verða fyrir stórvægilegum slysum. Ýmis slys hafa orðið þar, dauðaslys eins og menn vita. Hér er um að ræða mikilvægt öryggisatriði. Ekki er um það að ræða endilega að bæta samgöngur — samgöngurnar eru ágætar þarna á milli — en að tryggja að fólk geti farið þarna um án þess að stofna lífi sínu í hættu. Okkur hefur ekki tekist á kjörtímabilinu, á þessum 4 árum sem nú eru senn liðin, að þoka þessu máli neitt áfram.

Í annan stað er eitt af þeim meginverkefnum, sem við leggjum áherslu á, að tengja Djúpveg aðalakvegakerfi landsins með þeim hætti að ætla megi að fólk við Djúp geti komist á aðalakvegakerfi landsins lengur en tæpa 6 mánuði á ári. Okkur hefur ekki heldur orðið að þeirri ósk okkar og von í þessi 4 ár að geta fengið fé til þess.

Þriðja stórverkefnið er innanhéraðsverkefni, þ. e. a. s. gerð varanlegs vegar yfir Breiðadalsheiði sem geti tryggt vetrarsamgöngur þar. Það er einnig kostnaðarsamt verkefni sem við höfum ekki getað á þessum 4 árum gert neitt til þess að sjá fyrir endann á.

Önnur tvö stórverkefni eru vegagerð í Dýrafirði og vegagerð í Önundarfirði. Sama má segja um þessi tvö verkefni og hin þrjú, að þrátt fyrir góðan vilja þm. kjördæmisins og þrátt fyrir skilning, sem ríkt hefur á málefnum þeirra hjá ýmsum öðrum þm., hafa mál Vegasjóðs verið slík, Vegasjóður verið svo vanræktur, að okkur hefur ekki gefist nokkur kostur á því að fá þó ekki væri nema brot af því fé sem við þyrftum að fá til þess að geta gengið að einhverjum af þessum stóru verkum. Má því segja að kjörtímabilið, sem nú er að líða, hafi verið gersamlega án nokkurra meiri háttar viðburða í samgöngumálum Vestfirðinga.

Við látum hér staðar numið um málefni Vestfjarða. Hv. þm. Karvel Pálmason gerði mjög glögga grein fyrir þeim í ræðu sinni áðan og á ég fastlega von á því, að annar hv. þm. bæti þar um betur.

En svo að maður víki aftur að vegáætluninni sjálfri, þá vil ég vekja athygli á því, sem ég benti á áðan í ræðu minni, að einn snar þáttur þess, að hægt hefur verið að ráðast í einhverjar nýjar vegaframkvæmdir á liðnum árum, þáttur við hliðina á atriði eins og því að skera hefur þurft niður fé til vegaviðhalds um helming, er lántaka erlendis og innanlands. Eins og sakir stóðu í árslok 1977 er greiðslubyrði ríkissjóðs af erlendum lánum vegna framkvæmda í vegamálum sem hér segir: Greiðslur vaxta og verðbóta námu á því ári, árinu 1977, 877.6 millj. kr. Afborganir af slíkum lánum voru 429.3 millj. kr. Greiðslubyrðin í heild á árinu 1977 af lánum, sem ríkissjóður hefur tekið vegna vegamála, nam 1306.9 millj. kr. En þetta fé er tæplega tvöfalt fastaframlag ríkissjóðs til vegamála á árinu 1977. Fyrir þetta fé, sem ríkissjóður þarf að verja í afborganir, vaxtagreiðslur og verðbótagreiðslur af erlendum lánum, hefði verið hægt næstum því að tvöfalda allar verklegar framkvæmdir á árinu 1977, ef það fé hefði verið laust til framkvæmda, en ekki bundið til greiðslu á afborgunum af lánum, vöxtum og verðbótum til erlendra bankastofnana. Og það kemur einnig í ljós, að afleiðingar af efnahagsstefnu ríkisstj. og stefnu hennar í gengismálum urðu þær á árinu 1977, að þá hækkuðu erlend lán vegna vegagerðar — bara af því einu — um 629 millj. kr. Gengisstefna hæstv. ríkisstj. á árinu 1977 ein út af fyrir sig jók þannig greiðslubyrðina á ríkissjóði vegna vegamála um 629 millj. kr. Á síðasta ári var að sjálfsögðu áfram haldið að taka erlend og innlend lán til vegagerðar, eins og hæstv. samgrh. drap á áðan, enda hefði ekki verið hægt að vinna nein umtalsverð verk í vegamálum ef slík lántaka hefði ekki komið til. Á því ári hækkuðu skuldir ríkissjóðs vegna lántöku til vegaframkvæmda úr 6706 millj. kr. við upphaf árs í 8506 millj. kr. við árslok, eða um 1800 millj. kr. samtals. Þar að auki bætti Vegasjóður ofan á þessa lánabyrði 369.3 millj. kr. bráðabirgðalántöku og sérstöku láni frá Seðlabankanum að upphæð 350 millj. kr. Nettóhækkun lána vegna vegagerðar á s. l. ári er því alls 2519 millj. kr. Þetta litla dæmi sýnir aðeins hversu Vegasjóður er nú háður lántökum til þess að vinna einhverjar framkvæmdir í vegamálum.

Allar þær framkvæmdir, sem unnar eru nú og unnar hafa verið á allra síðustu árum í vegamálum á Íslandi, hafa verið fjármagnaðar annaðhvort með lántöku, eins og hér hefur verið vikið að, eða með því að niðurskurður hefur verið gerður á fé til vegaviðhalds, eins og áður var lýst. Seðlabankalánið er að sjálfsögðu kapítuli alveg út af fyrir sig, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson lýsti hér áðan. Ég vil láta það koma fram til þess að sýna betur fram á þau vinnubrögð, sem munu hafa verið höfð í sambandi við töku þeirra lána, að þegar í sept. á s. l. ári munu menn hafa gert hæstv. samgrh. viðvart um að vegna verðhækkana og af öðrum orsökum, sem enginn beri meiri ábyrgð á en hæstv. ríkisstj., mundi ekki vera hægt að standa við áætlanir um ýmsa áfanga í vegagerð, sérstaklega hvað varðar veg yfir Holtavörðuheiði og Borgarfjarðarbrú. Þannig lá fyrir í septembermánuði á s. l. ári að ekki væri hægt að standa við þessi framkvæmdaáform nema með því móti að aukið fé kæmi til. Í októbermánuði tók þing til starfa og fjvn. hóf störf sín. Allt frá þeim tíma, frá því í byrjun okt. og þangað til rétt fyrir jól, sat fjvn. að störfum daglega og hélt stundum tvo eða jafnvel þrjá fundi á dag. En allan þennan tíma hafði fjvn. ekki hugmynd um þau tíðindi, sem hæstv. samgrh. höfðu verið tjáð í septembermánuði, að útvega þyrfti viðbótarfé svo að hægt væri að standa við framkvæmdaáform við Borgarfjarðarbrú og víðar. Í desembermánuði var síðan tekið lán hjá Seðlabanka Íslands að upphæð 350 millj. kr. Lán þetta er gengistryggt og með vöxtum, en eina heimildin, sem Alþ. veitti hæstv. ríkisstj. til lántöku við afgreiðslu vegáætlunar, varbráðabirgðalántaka hjá verktökum, sem var bæði óverðtryggð og án þess að vextir væru afgreiddir, þannig að hér var um lántöku að ræða hjá Seðlabanka sem engin heimild hafði verið veitt fyrir. En látum það nú vera. Víkjum betur að því síðar. Þetta lán að upphæð 350 millj. kr. var tekið í lok desembermánaðar. eftir því sem ég kemst næst, u. b. b. sem fjvn. lauk störfum og þing fór í jólaleyfi. En ekki heldur þá, þegar frá þessu máli var gengið, var talin ástæða til þess að skýra frá því, ekki á Alþ. sjálfu, ekki í fjvn., ekki einu sinni formanni fjvn, sem er þó nánasti samverkamaður hæstv. fjmrh. í sambandi við ríkisfjármálin. og ekki heldur, að því er mér er um kunnugt, í sjálfri ríkisstj. Mál þetta var aldrei rætt og tekið fyrir og formlega afgreitt af ríkisstj., eftir því sem mér er tjáð, heldur aðeins af tveimur ráðh., hæstv. fjmrh. og hæstv, samgrh. Og mér er kunnugt um að aðrir ráðh. í ríkisstj. vissu ekki frekar en við fjvn.-menn, stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar, hvað gert hafði verið fyrr en mörgum mánuðum síðar.

Sú viðbára er uppi höfð, að þetta lán hafi ekki verið framkvæmdalán, heldur hafi verið tekið til Áhaldahúss Vegagerðar ríkisins, sem sé, það hafi verið talið í desembermánuði bráðnauðsynlegt fyrir Áhaldahús Vegagerðar ríkisins að taka lán upp á 350 millj. til framkvæmda, byggingarframkvæmda eða kaupa á vélum. Síðar eftir jólin hafi allt í einu komið í ljós að Áhaldahúsið hafi ekkert haft við þetta fé að gera, og þá var það framlánað Vegasjóði til ákveðinna framkvæmda. Þetta er að sjálfsögðu ákaflega ámátlegt yfirklór og raunar afsökun sem er svo brosleg að það tekur því vart að mótmæla henni.

Í fyrsta lagi vil ég benda á að lán þetta að upphæð 350 millj. kr. var tekið vegna þess, að hæstv. ráðh. hafði verið tjáð í septembermánuði að þeim framkvæmdaáföngum, sem átti að vinna, væri ekki hægt að ljúka nema með aukafjárveitingu. Í annan stað liggur fyrir, m. a. í skýrslu hæstv. ráðh., hvað gert var við þetta fé. Féð var tekið til þess að kosta ákveðnar vegagerðarframkvæmdir og var þannig notað. Áhaldahús Vegagerðar ríkisins var aðeins milliliður til þess að búa til afsökun fyrir því sem gert var. Nú spyr ég í ljósi þessara staðreynda: Má þá kannske ætlast til þess, að svo geti farið, — það eru ýmsir ráðh. í ríkisstj., sem sjálfsagt gætu lært sitthvað hjá hæstv. samgrh., m. a. í þessum málum, — má þá gera ráð fyrir því, að t. d. hæstv. orkuráðh. komi einhvern tíma, þegar þing hefur farið í sumarfrí til þess að undirbúa kosningar, að máli við hæstv. fjmrh. og óski eftir því t. d. að Áhaldahús Vegagerðar ríkisins verði látið taka svo sem 1000 millj. kr. til þess að lána Orkustofnun eða einhverjum slíkum aðila. til þess að hægt verði að bora svona eins og 3–4 holur til viðbótar við Kröflu? Má búast við því, að einstakir ráðh. geti borið slík erindi upp við hæstv. fjmrh. og vitnað til þess, að það væri fordæmi fyrir slíkri afgreiðslu vegna þess að Áhaldahús Vegagerðar ríkisins hefði samkv. frumkvæði hæstv. samgrh. tekið á s. l. ári 350 millj. kr. lán til að kosta vegagerð í tveimur til þremur stöðum. aðallega við Borgarfjarðarbrú og á Holtavörðuheiði? Þessi orð mín má ekki misskilja á þann veg, að ég sé út af fyrir sig andvígur þeim framkvæmdum, sem þarna eru unnar, eða dragi í efa að nauðsynlegt og rétt hafi verið að útvega lánsfé til þess að hægt væri að standa við framkvæmdaáform. En þessi orð mín ber að skilja þannig, að þegar málum var komið eins og komið var í sept. 1977 átti samgrh. að sjálfsögðu að gera Alþ. og fjvn. viðvart. Það er fyrir neðan allar hellur þegar hann síðan tekur þá ákvörðun ásamt hæstv. fjmrh. að ráða málum í desembermánuði 1977 með þeim hætti sem þau voru ráðin, án þess að gera svo mikið sem tilraun til þess að hafa um það samráð við fjvn. sem sat á daglegum fundum hér í næsta húsi.

Ýmsir þeir sem talað hafa um vegamál hér á undan mér, hafa gagnrýnt framkvæmdirnar við Borgarfjörð og Borgarfjarðarbrú. Ég er ekki sammála þeirri niðurstöðu þeirra, að þessi brú hafi ekki att að vera byggð. Ég tel rétt og nauðsynlegt fyrir Íslendinga að ráðast í stórverkefni í vegamálum, og mér er ljóst að Borgarfjarðarbrúin er vissulega eitt þeirra nauðsynjaverka sem þurfti að leysa. Auðvitað má lengi um það deila hvort átt hafi að taka það stórverkefni frekar en eitthvað annað. En ef þeim deilum er haldið lengi áfram, þá er hætt við að lítið verði úr verki. En ég vil aðeins benda á eitt í því sambandi, að þegar slík stórverkefni eru tekin til framkvæmda, sérstaklega við aðstæður eins og ríkt hafa undanfarin ár, þegar tekjur Vegasjóðs hafa ekki nægt til þess að standa undir almennum vegaframkvæmdum í landinu, þá á að sjálfsögðu aldrei að ráðast í framkvæmd eins og framkvæmdina við gerð Borgarfjarðarbrúar nema jafnframt sé gerð og samþykkt á Alþ. áætlun um framkvæmdahraða, áætlun um fjármögnun og greiðslur. Þannig á að sjálfsögðu að standa að framkvæmd eins og þessari, en ekki að hefja slíkt stórverk án þess að menn geri sér frá upphafi fulla grein fyrir því, í hvað er verið að ráðast, hvernig á að greiða kostnaðinn af því og hvenær.

Í sambandi við þau orð, sem hér hafa verið látin falla um gerð brúar yfir Ölfusárósa, vil ég taka það fram, að sem stendur og á þessu þingi hefur engin ákvörðun verið tekin um hvenær það verk verði hafið. Að sjálfsögðu hafa ýmsir þm. áhuga á því, að það verk verði næsta stórverkefni sem ráðist verði í vegamálum. Ég er ekki einn þeirra. Ég tel að önnur verk gætu komið fyrr og þyrftu að koma fyrr. En ég legg áherslu á að engin ákvörðun hefur enn verið tekin og verður ekki tekin á þessu þingi, að því er mér er kunnugt um, um að hefja brúarbyggingu yfir Ölfusárósa. Þetta hefur komið fram m. a. í fjvn., og ég vil undirstrika að þetta er skoðun fjvn.-manna. En ég vil aðeins láta koma fram, að hvert svo sem næsta stórverkefni í vegamálum verður, hvort sem það verður brú yfir Ölfusárósa eða eitthvað allt annað, þá finnst mér fráleitt að ákvörðun um slíka framkvæmd verði tekin öðruvísi en lögð verði fyrir Alþ. áætlun um framkvæmdir og framkvæmdahraða við slíkt stórverkefni. um fjármögnun. um greiðslu, um hvenær greiðslur skuli inntar af hendi og hver beri kostnaðinn, hvort heldur það er Vegasjóður af almennu framkvæmdafé sínu eða hvort sértekna þarf að afla til, eins og mér sýnist eðlilegt og nauðsynlegt að gera.

Að lokum aðeins þetta herra forseti: Ég tel að reynslan hafi leitt í ljós, bæði nú í vetur og allra síðustu ár, að Vegasjóður geti alls ekki lengur staðið undir skyldum sínum miðað við óbreytta tekjustofna. Ég tel nauðsynlegt að taka málefni Vegasjóðs til algerrar endurskoðunar, m. a. í því skyni að færa Vegasjóði nýja tekjustofna. Við þm. Alþfl. erum nú eins og í fyrra reiðubúnir til þess að taka þátt í slíkri endurskoðun, og ég vænti þess fastlega, að hæstv. samgrh. og raunar ríkisstj. öll vilji eiga hlut að því, að sú endurskoðun geti farið fram. Að svo mæltu vil ég þakka samstarfsmönnum mínum í fjvn. fyrir gott samstarf og þó sérstaklega formanni nefndarinnar.