21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3728 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vildi segja það aðeins, að ef það skoðast sem frekja eða lítilmótlegur kjördæmakrytur okkar Vestfjarðaþm. að benda á ákveðin dæmi í sambandi við hlutfall okkar í gegnum árin af vegafé, þá verður að hafa það. En ég vil segja, að því miður fékk ég enga viðhlítandi skýringu á þessu atriði, hvernig á því stendur. Ekki hafa verið færð fyrir því fjárhagsleg, atvinnuleg eða félagsleg rök, að eðlilegt sé, að það kjördæmi landsins, sem býr við landfræðilega erfiðust skilyrði, skuli þurfa þetta minna fé til vegamála en önnur kjördæmi landsins.

Það er auðvitað hárrétt, sem hæstv. samgrh. segir, að við njótum öll góðs af hverri þarfri vegarframkvæmd hvar sem er á landinu: Borgarfjarðarbrú, Kiðafellsvegi, hvar sem er. Það, sem við erum að lenda á að því er Vestfirðina varðar, er ekki einungis það að komast til og frá Reykjavík eða um landið, heldur einfaldlega það, að fólk einangrist ekki hvert frá öðru og þá sérstaklega yfir vetrarmánuðina, að byggðarlög séu ekki einangruð mánuðum saman hvert frá öðru. Það segir sig sjálft, ekki hvað síst atvinnulega, hvað þetta er mikið óhagræði og mikið tjón fyrir það fólk sem á við slíkar aðstæður að búa.

Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir það sem vel hefur verið gert nú á þessari vegáætlun. Það er auðvitað svo, að við fáum aldrei fé til alls þess sem við þurfum fé til að gera. Við gerum ekki allt í einu og við erum sannarlega búin að fara okkur nógu hratt í framkvæmdum, þó við gættum ítrustu varkárni í því nú. En þetta vil ég láta koma fram, að við Vestfjarðaþm. teljum ekki að við séum að ota okkar tota öðrum fremur. Ég held jafnvel að við höfum nú goldið blessaðrar Vestfjarðaáætlunarinnar okkar, sem stóð yfir í 2 ár, óþarflega mikið. Það er vitnað stöðugt í það stóra átak, sem var mikið átak og við erum þakklát fyrir, en það má auðvitað ekki verða til þess, að við gleymumst síðar meir. Það voru 2 ár, árið 1968 og 1969, sem hlutfall Vestfirðinga af vegafé komst upp í 28.5% annað árið og hitt árið 21%. Síðan hefur það verið allt frá 5.8% upp í 11.6% hæst. Og það verður að fyrirgefa mér nú sem fyrr, að ég hef engan haldbærari eða skárri mælikvarða til að miða við en þetta prósentuhlutfall varðandi skiptingu vegafjárins í heild.