21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3728 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

363. mál, framkvæmd grunnskólalaga

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál af tveim ástæðum sérstaklega. Annars vegar taldi ég mér skylt að tjá hæstv. menntmrh. þakkir fyrir þessa skýrslu og þá grein sem hann gerði fyrir henni. Ég tel að með þessari skýrslu sé uppfyllt á algerlega fullnægjandi hátt það ákvæði grunnskólalaga, sem um skýrslugerðina fjallar, og það sé mikill fengur, ekki aðeins fyrir alþm., heldur einnig alla sem starfa að fræðslumálum, hvort heldur við kennslu eða í hinum mörgu opinberu stofnunum, sérstaklega skólanefndunum, að hafa aðgang að þeirri vitneskju sem þessi skýrsla geymir. Einnig kvaddi ég mér hljóðs vegna þess að ég vildi ekki láta ómótmælt skoðunum sem fram komu hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., sem því miður er ekki staddur á þessum fundi. En í ljós kom í ræðu, sem hv. 7. landsk. þm. flutti, að fleiri óskuðu andsvara við sumum sjónarmiðum hv. 2. þm. Norðurl. v. en ég, svo að ég get af þeim ástæðum verið öllu stuttorðari um þetta efni en ég hefði kannske ella verið.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. er þrautseigur maður og er það vissulega góður eiginleiki. En þess vildi ég óska að þrautseigja hans og einnig kappsemi í málflutningi kæmi betra málefni til góða en því sem hann hefur sérstaklega tekið upp á arma sína varðandi skólamálin, en þar hefur komið í ljós að hann er nákvæmlega sömu skoðunar og í hinum löngu umr. um grunnskólafrv. á sínum tíma, að það sé mjög illa farið að gert skuli ráð fyrir 9 ára skólaskyldu, og nú komst hann svo að orði í máli sínu hér á dögunum, að hann teldi affarasælast að nema ekki aðeins úr gildi ákvæði grunnskólalaga um 9 ára skólaskyldu, heldur vildi hann taka enn lengra skref til baka og skera annað ár af skólaskyldunni og takmarka hana við 7 ár. Ég get nú naumast ætlað að hv. þm. sé alvara með þessari uppástungu, en hvað um það, hún sýnir mjög skýrt viðhorf hans til þessa máls. En úr því að hv. þm. vill takmarka svona skólaskylduna, hvers vegna vill hann þá ekki afnema hana með öllu? Mér fyndist það eitt vera rökrétt niðurstaða af afstöðu hans til þessa máls. Sömuleiðis talaði hv. þm. þannig, eða ég skildi mál hans svo, að hann teldi Alþ. skylt að álykta á ný um 9. skólaskylduárið, áður en það geti komið ti1 framkvæmda. Þar er ég ekki á sama máli og ég tel orðalag grunnskólalaganna styðja afstöðu mína. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í ákvæði til bráðabirgða:

„Að 4 árum liðnum frá gildistöku þessara laga skal menntmrh. gera Alþ. grein fyrir framkvæmd laganna og þó einkum undirbúningi að 9 ára skólaskyldu, þannig að Alþ. gefist kostur á að álykta á ný um það ákvæði.“

Ég tel alveg ljóst af þessu, að ákvæðið felur ekki í sér skyldu fyrir nokkurn aðila, hvorki ráðh. né aðra, að bera fram till. á Alþ. til nýrrar ákvörðunar á annan hvorn veg, heldur það eina, sem í þessu felst, að hverjum alþm., sem þess óskar, sé gefið tækifæri til þess að bera fram till. um fráhvarf frá 9. skólaárinu ef hann telur það rétt. En slík till. hefur engin komið fram enn þá, hvað sem í ljós kemur þann skamma tíma sem þingið á eftir að starfa.

Ég held að það sé alveg ljóst af því, sem fram kemur í þessari skýrslu, að 9. skólaskylduárið stefni óðfluga að því að verða að veruleika, m. a, s. áður en gert er ráð fyrir að það gangi í gildi samkv. lagasetningunni. Það kemur í ljós í þessari skýrslu, að einungis 5% nemenda stunda nú nám í 8 ár og þeim, sem fara á mis við 9. skólaárið, hefur fækkað stórlega þann skamma tíma sem grunnskólalögin hafa verið í gildi. Ég tek því eindregið undir þá skoðun, sem fram kemur í skýrslunni og í framsöguræðu hæstv. ráðh., að mjög er æskilegt að það fari saman, að Alþ. fjalli um löggjöf þá um framhaldsskóla, sem frá öndverðu var ljóst að hlyti að fylgja á eftir setningu grunnskólalaganna, og að staðfest verði ákvæðið um 9. skólaskylduárið. Ég tel reynsluna þessi fjögur ár, sem liðin eru frá því að lögin voru sett, eindregið sýna að bæði nemendur, forráðamenn þeirra og starfsmenn skólakerfisins hafi gengið að þessu verki þannig að engin minnsta ástæða sé til að hverfa frá þeirri ákvörðun sem tekin var um 9 ára skólaskyldu við setningu grunnskólalaganna. Og þessi niðurstaða mín byggist ekki síst á því, að þar sem 15% nemenda stunduðu skóla skemur en 9 ár áður en lögin komu til framkvæmda er þessi tala nú komin niður í aðeins 5%. Það liggur í hlutarins eðli, að af ýmsum ástæðum verður alltaf nokkur tala nemenda, sem heltist úr lestinni af óviðráðanlegum ástæðum, svo að talan getur aldrei komist upp í 100%. Hún er að mínum dómi nú komin svo nærri því sem hægt er að búast við að yrði við 9 ára skólaskyldu í fullu gildi. Þróun málsins, þróun skólastarfsins og þróun vitneskju nemenda og foreldra um þörfina á að ljúka skólanámi, sem gerir þeim fært að hefja framhaldsskólanám þá þegar eða síðar, þetta allt vinnur saman að því, að brátt verði svo komið að allir, jafnvel kannske hv. 2. þm. Norðurl. v., viðurkenni að þarna sé um sjálfsagða ráðstöfun að ræða.

Ég mun, úr því að ég hef tekið til máls, einnig víkja að örfáum atriðum öðrum varðandi þá skýrslu sem fyrir liggur.

Þá vil ég fyrst harma að ekki skuli hafa tekist betur til en raun ber vitni um framkvæmd ákvæðanna um kostnað við fræðsluskrifstofurnar úti á landsbyggðinni. Starf þeirra fram til þessa hefur tvímælalaust sýnt hversu gagnlegar þær eru og hversu mjög tilvera þeirra auðveldar skólastarfið. Ég held að það sé allra manna mál, sem sinna skólastörfum, að fræðsluskrifstofurnar hafi alveg sér í lagi auðveldað og létt störf þeirra, sem í skólunum vinna úti á landsbyggðinni. Þeim mun lakara er að ákvæðin um, hversu kostnaður af fræðsluskrifstofunum skuli greiddur, hafa ekki orðið virk enn sem komið er, vegna þess að lagasetning um hlutverk og þá væntanlega tekjustofna landshlutasamtaka hefur ekki orðið að veruleika. Af þessu stafar að fræðslustjórarnir starfa við langtum lakari skilyrði en ráð var fyrir gert og hafa þó, eins og ég sagði áður, unnið hið þarfasta starf. Þeir eru nær starfsliðslausir nema hér í Reykjavík, þar sem þessi starfsemi stendur á gömlum merg. Við svo búið má alls ekki lengur standa. Því lengra sem framkvæmd grunnskólalaga miðar, því nauðsynlegra er að fræðsluskrifstofurnar verði færar um að sinna því hlutverki að fullu sem þeim er ætlað. Ég læt því í ljós þá von, að það starf, sem nú er unnið að því að undirbúa ný ákvæði og nýja lagasetninga um tekjustofna sveitarfélaga og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sjái sem fyrst dagsins ljós, svo að sú staðreynd að landshlutasamtökin hafa ekki fengið þá löggildingu sem við var búist og að var stefnt, bitni ekki lengur á fræðsluskrifstofunum með þeim hætti sem þetta gerir og hefur gert allt síðan þær tóku til starfa.

Sömuleiðis tel ég rétt að víkja að því, að þessi misbrestur á því, að fjármunir séu til umráða fyrir fræðsluskrifstofurnar eins og til var ætlast, á að sjálfsögðu þátt í því, að þýðingarmikið starf eins og námsráðgjöf og sálfræðiþjónusta er veitt í miklu minna mæli en ráð var fyrir gert, og sjá þó allir þörfina, sem fyrir hendi er, sem kynna sér kafla skýrslunnar um úttektina á því, hver hluti nemenda í landshlutunum þarfnast sérstakrar aðstoðar í skólunum. Sem betur fer hefur verulega á unnist, eins og fram kemur í þessari skýrslu. Aðstoð er veitt í skólunum í mun ríkari mæli en áður var, en betur má ef duga skal, og reynslan hefur einnig sýnt hversu miklu þarna er hægt að áorka hvað flesta nemendur snertir með tiltölulega takmörkuðum kostnaði og fyrirhöfn. Hér er, eins og skýrslan ber með sér, fyrst og fremst um það að ræða, að til taks séu kennarar og annað starfslið sem geti sinnt þörfum nemenda, sem í erfiðleikum eiga, einmitt á þeirri stundu sem erfiðleikarnir gera vart við sig. Þá er hægt að leysa slík mál með tiltölulega skjótum hætti og afstýra því, að vandkvæði verði að torleystum hnútum fyrir nemendur, sem í hlut eiga, og fyrir skólana, sem þeir sækja.

Sömuleiðis er það tvímælalaust, að vel verður að halda á málum ef ekki á að koma til vandræða, vegna þess að svo er að sjá sem skerðingar á fjárveitingum verði til þess að hægja á endurskoðun og endurnýjun námsefnis. Slíkt getur haft mjög alvarlegar afleiðingar, ef mikið kveður að því, því að aðeins getur skólinn gegnt því hlutverki, sem honum er ætlað með grunnskólalögunum, að námsefnið sé endurnýjað og kennsluháttum breytt í samræmi við það með þeim hraða sem gert er ráð fyrir að framkvæmd laganna í heild geri kröfur til. Dráttur á þessu verki getur því hefnt sín mjög óþægilega, bæði gert skólakerfið óskilvirkara en það ella væri og gert nemendum erfiðara um vik en væri, hefðu þeir notið námsefnis og kennslu eftir þeim kröfum og í samræmi við þau markmið sem grunnskólanum eru sett.

Ég vil að lokum víkja aðeins enn að hv. 2. þm. Norðurl. v. og röksemdum hans, þótt ég hefði, eins og áður sagði, heldur kosið að hann væri hér viðstaddur, en við því verður ekki gert. Hv. þm. sagði að það væri að sínum dómi álit margra, kannske flestra reyndra skólamanna, að lenging skólaskyldunnar í 9 ár væri varhugaverð jafnvel beinlínis skaðleg. Ég tel satt að segja að þessari röksemd hv. þm. hafi best verið svarað af því, hver til þess varð fyrstur að taka til máls í umr. að máli hans loknu, þar sem í hlut átti hv. 7. landsk. þm. Ég efast um að öllu reyndari skólamaður skipi nú þingbekk heldur en hv. 7. landsk. þm., þó ekki sé hann roskinn að árum. Þessi hv. þm. benti einmitt úr sinni reynslu á það, hversu þörfin á 9. námsárinu til þess að gera nemendurna færa um að fara rakleitt í framhaldsnám væri mikil, hversu erfitt hefði verið að fá slíku framgengt í skólahverfum eins og þar sem hann starfaði áður en grunnskólalögin kemur til sögunnar, hversu munurinn væri þarna mikill á því hvort lögin viðurkenndu þessa þörf eða ekki. Þörfina taldi hann alveg ótvíræða. Og ég verð í þessu efni að taka margfalt meira mark á orðum hv. 7. landsk. þm. en þeirra ótilgreindu skólamanna, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. vitnaði til.