21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3749 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

271. mál, flugöryggismál

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Um þetta mál er ekki út af fyrir sig mikið að segja, því að þótt plaggið sé þykkt, þá er till. að sama skapi þunn, aðeins tæplega 4 línur með 6 undirliðum, textalausum að öðru leyti, plús fskj. sem þegar er fyrir löngu út komið. Efni þáltill. — það er betra að skoða vel — er um að stefnt skuli að því að skipta því litla fé, sem árlega fer til flugmálaframkvæmda í landinu, með hliðsjón af till. flugvallanefndar, þ. e. a. s. fskj. og eftirfarandi atriðum, sem höfð eru í huga þegar raðað verður verkefnum eftir forgangsröð, og þessi atriði eru : öryggisbúnaður flugvallarins, aðbúnaður farþega, fjöldi flughreyfinga, ástand flugbrauta og búnaðar, mikilvægi flugs — þar á ég við millilandaflug.

Þegar ég sá fyrst þetta plagg, — það er nú stutt síðan, — þá hélt ég að í þessu væri eitthvað merkilegt, a. m. k. eitthvað nýtt, en eins og menn heyra er það auðvitað alls ekki, — því að hvað heldur hæstv. ráðh. að flugráð hafi í huga þegar það er að skipta þessum fjárveitingum? Auðvitað þessi atriði. Þannig getur auðvitað verið allt í lagi að samþykkja þessa till., að flugráð haldi uppteknum hætti og skipti þessum peningum, sem allt of litlir eru til þessara mála, og raði verkefnum í forgangsröð með tilliti til þarfarinnar á hverjum stað og á landinu öllu.

Það, sem fékk mig í rauninni til þess að standa hér upp, var hversu mikla áherslu hæstv. ráðh. lagði á skýrslu flugvallanefndar, ekki síst þegar hæstv. ráðh. fór að tala um fjármálin og hvernig afla ætti tekna til framkvæmda í flugmálum á Íslandi, en þá sagði hann m. a., að það ætti að reyna að stefna að því, að tekna yrði aflað í vaxandi mæli í formi afnotagjalda, eins og þeir gera í útlöndum. Við Íslendingar fljúgum ákaflega mikið. Innanlands fljúgum við meira en einn sinni með alla þjóðina á ári hverju miðað við tölur síðustu ára. (StJ: Hvert?) Innanlands. Ég vona að hv. þm. Stefán Jónsson viti hvað það er. En í útlöndum vill nú svo til, að þar er fólk, sem flýgur líka talsvert mikið, þó ekki sé í sama mæli og við með tilliti til fólksfjölda. Þar er flugumferðin að sjálfsögðu í heild miklu, miklu meiri og margfalt meiri á hverjum flugvelli, þannig að þessi gjöld, afnotagjöld af flugvöllunum, geta staðið undir stærri hluta af framkvæmdakostnaði en nokkurn tíma verður hægt hér. Og manni hefur sýnst að flugrekstur í landinu hafi ekki borið sig betur en svo hér innanlands, að á þau fyrirlæki, sem standa í þessu, sé varla hægt að leggja mjög miklar byrðar í viðbót, það er staðreyndin. Tekjur af afnotagjöldum af flugvöllum renna því aldrei til þess að standa undir framkvæmdum sem ættu að vera eitthvað í takt við þann hraða sem er að finna í till. flugvallanefndar. Hún lagði til á sínum tíma að á 5 árum yrðu framkvæmdir upp á 5 milljarða miðað við verðlag á Íslandi 1976 eða 1975. Það var sem sagt 1 milljarður á ári miðað við þágildandi verðlag, sem hefur a. m. k. tvöfaldast síðan. En fjárveitingar á síðasta ári, nýjar fjárveitingar, voru 530 millj. og það er kannske fjórði til fimmti parturinn af því sem hefði þurft ef tekið er mið af till. flugvallanefndarinnar.

Hæstv. ráðh. vísaði í 9. kafla skýrslu flugvallanefndar, þar sem segir um fjármálin m. a. í kafla sem merktur er með þremur tölustöfum, 9.3.5. Nefndin leggur til, að „flugvallagjöld“ — nú fara vonandi allir að kannast við hvað við er átt — og tekjur af fríhöfn Keflavíkurflugvallar, sem nú renna í ríkissjóð, verði markaðir tekjustofnar, er renni til flugmálastjórnar, enda yrði slík ráðstöfun í samræmi við alþjóðavenjur á þessu sviði. — Það var út af þessu atriði m. a. sem ég vildi taka hér aðeins til máls.

Það er nú svo, að því miður er allt of sjaldan minnst á þessi flugmál hér nema náttúrlega við fjárlagaafgreiðsluna og eins þegar hv. þm. Vestf. þurfa að koma einhverjum góðum málum í sviðsljósið, og þeim sé þökk fyrir það, því að þá tala a. m. k. 5, og veitir ekki af að þjóðin fái að heyra minnst á að þessi mál séu líka nauðsynleg og þörf í þjóðfélaginu. En fyrst hæstv. ráðh. vísaði í þennan kafla, þá vil ég segja, að í haust lagði ég fram till. um að sú hækkun, sem lögð var til og gerð var á flugvallagjaldi, rynni til flugmála, til ákveðinna þátta í flugmálum, ekki allt flugvallagjaldið og ekki var minnst á fríhafnarpeningana, heldur aðeins hækkunina. Það var ekki verið með nema frekju, heldur aðeins tekinn hluti til þess að byrja á því að fá einhverja markaða tekjustofna í þennan málaflokk sem hefur því miður verið sveltur allt of lengi. Þessa till. felldi hæstv. flugmálaráðh. Halldór E. Sigurðsson eins og aðrir í stjórnarliðinu. En nú sýnist hæstv. ráðh. þessi leið vera orðin býsna góð og í stuttri ræðu sinni notar hann tækifærið til að vitna einmitt í þennan kafla, þar sem þetta er að mínum dómi eitt meginatriðið í fjármögnunartillögum flugvallanefndar. Ég vildi þess vegna minna á þetta, að þarna er möguleiki til þess að fá verulegar tekjur af fluginu sjálfu án þess að þurfa að leggja mjög miklar byrðar á reksturinn, þótt að sjálfsögðu sé rétt að taka þau lendingargjöld sem tekin hafa verið. Þær upphæðir eru þó ekki nægilega miklar, en mér skilst að flugvallagjaldið sé núna á ári 600 millj., allt flugvallagjaldið, þ. e. a. s. sama og fékkst samtals með þeim peningum sem komu út úr flugskýlinu, sem brann, til allra framkvæmda í flugmálum á Íslandi.

Ég er ósköp ánægður yfir því, að þessi þáltill. hefur verið lögð hér fram. Það sýnir þó að þessi mál eru ekki gleymd, þau koma aðeins til umr., og sýnir að menn vilja reyna að leita einhverra raunhæfra leiða til þess að fjármagna þessa hluti. Innihald till. er þó auðvitað ekkert annað en það sem „praktiserað“ hefur verið í mörg ár, þar sem valdalítið flugráð og allt of peningalítið hefur einmitt skipt peningunum eftir því hvar þörfin hefur verið mest og á undanförnum árum lagt langmesta áherslu á öryggið í fluginu, þá ekki aðeins öryggi á flugvellinum sjálfum, heldur á flugleiðsögutæki, þannig að flugvélarnar geti komist niður á flugvallarsvæðið og síðan tekið þar lendingu, ef hún er yfir höfuð möguleg. Þess vegna mun ég að sjálfsögðu samþykkja þessa till. sem staðfestir það í rauninni sem flugráð hefur verið að gera og það sem flugráð hefur verið að leggja til í mörg ár, þ. e. það sem flugvallanefndin hafði sett saman í eina skýrslu. Ýmsir höfðu ýmislegt við það að athuga, að þessi nefnd væri skipuð, og töldu að flugráð hefði getað gert þetta eitt út af fyrir sig. Það kann að vera nokkuð til í því, en með því voru þó alla vega sett á hlað þau atriði, sem fram þurftu að koma og finnanleg þurftu að vera í samanþjöppuðu og vel skiljanlegu formi. Ég legg sem sagt til, að að umr. lokinni verði þessi till. til þál. frá hæstv. samgrh. samþykkt.