21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3752 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

271. mál, flugöryggismál

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Þó það væri nú ekki til annars en valda ekki hv. síðasta ræðumanni vonbrigðum, þá ætla ég að segja hér örfá orð. Ég skal vera stuttorð.

Í fyrsta lagi finnst mér tillgr. einkennileg að því leyti, hvernig forgangsröðinni er háttað. Það eru 6 stafliðir, a, b. e, d, e, f. Undir a) kemur öryggisbúnaður flugvallarins, b) aðbúnaður flugfarþega, c) fjöldi flughreyfinga og magn flutninga, d) ástand núverandi flugbrauta og/eða búnaður, e) mikilvægi flugs fyrir viðkomandi byggðarlag og f) þarfir millilandaflugs. Ef ég hefði átt því láni að fagna að fá að leggja orð í belg um þessa forgangsröð, þá hefði mér ekki þótt orka tvímælis, að í fyrsta lið hefði að sjálfsögðu átt að koma, eins og nú er, öryggisbúnaður flugvallarins. Það hlýtur að vera aðalatriði þar sem flugvöllurinn er. Næstsíðasta liðinn hefði ég viljað færa næstan, þ. e. a. s. mikilvægi flugs fyrir viðkomandi byggðarlag. Mér sýnist þetta liggja í augum uppi. Ég vil vitna til, um leið og ég bendi á þetta, greinar á bls. 41, þ. e. tölul. 7.5.7. Ég vil leyfa mér — með leyfi forseta — að lesa upp þá grein:

„Sum byggðarlög eru sérstaklega háð flugsamgöngum, einkum að vetrarlagi þegar fjallvegir lokast. Má í þessu sambandi nefna t. d. Patreksfjörð, Suðureyri, Ísafjörð, Þórshöfn og Vopnafjörð. Á sumum þessara flugvalla eru aðflugsaðstæður þröngar og rými fyrir flugvöllinn takmarkað. Þrátt fyrir þessa annmarka verður að leggja sérstaka áherslu á að íbúar þessara og svipaðra byggðarlaga njóti reglubundinna og öruggra flugsamgangna, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.“

Þarna er lagt til, og auðvitað liggur það beint við, að sérstaklega verði að leggja áherslu á að bæta flugsamgöngur þar sem þær eru ófullkomnastar og þar sem þeirra er helst þörf. Þess vegna tel ég þessa ábendingu mína og þessa grein í beinu samhengi við aths. um forgangsröðunina í sjálfri tillgr. eðlilega. Ég vil enn, til þess að ofbjóða nú og ganga fram af hv. þm., benda á að á Vestfjörðum er enginn næturlýstur flugvöllur og í till. um forgangsröð á næturlýsingu er sá einasti flugvöllur sem vegna landfræðilegra ástæðna kemur til greina á Vestfjörðum, Patreksfjörður. Hann er settur þriðji síðasti í röðinni. Þessa röðun og þessa niðurstöðu á ég bágt með að skilja. Ég hef enda í samtali við flugmálastjóra fengið upplýst að þessi röðun kemur honum algerlega á óvart. Hann segir að hún muni ekki runnin undan rótum flugráðs eða flugmálastjórnar. Því hygg ég að mér sé óhætt að gera ráð fyrir því, að þetta verði endurskoðað.

Ég skal ekki láta fleiri orð falla um þetta, en ég vil enn einu sinni hér á hv. Alþ. benda á það, sem við raunar vitum öll, að flugmál eru samgöngumál og það eru til tvær samgn. í hv. Alþ., í Ed. og Nd. Þessar n. eru svo til verkefnalausar og væri í rauninni við hæfi að leggja þær niður eins og búið er að rýja þær öllum verkefnum, nema okkur er af náð gefið leyfi til að úthluta styrkjum til flóabáta og vetrarflutninga. Ég vek athygli á, að það er að sjálfsögðu mikilvægt verkefni, en verkefni samgn. eiga eðli sínu samkv. að vera margfalt meiri. Ég spyr: Þurfum við að hlaða meiru á fjvn. sem þegar er ásetnasta n. þingsins og er að mínu viti ofhlaðin verkefnum? Og ég spyr enn: Væri ekki eðlilegt, að sami háttur væri hafður á um flugmál eins og um styrkina til flóabáta og vetrarsamgangna, að samgn. d. væri steypt saman í samvn. samgm. og hún, samvn. samgm., fengi þessi mál til umfjöllunar í stað fjvn.? Ég vildi gjarnan heyra hæstv. ráðh. tjá sig um þetta og um það, hvort í rauninni er tímabært að leggja samgn. Alþ. niður.