21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3753 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

271. mál, flugöryggismál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir margt af því sem hv. 5. þm. Suðurl. sagði, enda höfum við verið sammála um öll meginatriði af því, sem hér liggur fyrir, á fundum flugráðs. Þó að þessi skýrsla sé ekki annað en staðfesting á því sem flugráð hefur fjallað um og gert að till. sínum ár eftir ár til fjvn., þá vil ég fagna því, að þessi skýrsla er fram komin, og tel að nefnd sú, sem hæstv, samgrh. skipaði 23. jan. 1976, hafi unnið mjög gott starf og þarft. Ég minnist þess ekki, að í flugráð hafi verið ósammála um nokkurn skapaðan hlut í þessari skýrslu. Allt, sem hún segir að þurfi að gera — kannske í annarri röð en fram kemur í skýrslunni — telur flugráð nauðsynlegt að gert verði sem allra fyrst. Nefndin er skipuð í jan. 1976, eins og ég gat um, en flugráð, eins og kemur fram á bls. 17, gerði till. sínar 14. jan. 1975 um skipan íslenskra flugvalla í flokka. Í aths. við þáltill. þessa segir, með leyfi hæstv. forseta, ef ég gríp niður í 3. mgr.:

„Ljóst er að ekki er unnt að mæta till. flugvallanefndar um fjármagn og framkvæmdahraða, en þar sem í skýrslu hennar eru á glöggan hátt dregnar saman upplýsingar um núverandi ástand íslenskra flugvalla og gerðar till. um sem skipulegastar úrbætur í þeim efnum, þá hefur verið talið rétt að leita með till. þessari eftir vilja Alþ. um alhliðastefnumörkun þess í uppbyggingu flugvalla og annars þess búnaðar sem nauðsynlegur er til sem öruggastra flugsamgangna hér á landi.

Þetta er einmitt það sem flugráð hefur verið að benda á í langan tíma. Þm. muna eflaust eftir sjónvarpsviðtali, sem rætt var á Alþ., við flugmálastjóra, þar sem hann talaði um að loka þyrfti mörgum flugvöllum hér á landi vegna skorts á nauðsynlegustu öryggistækjum, svo að við förum nú ekki út í dýran búnað, einmitt því sem tekið er fram hér í skýrslunni. Það eru girðingar í kringum velli, slökkvitæki, lágmarkslengd brautanna og síðan ljósaútbúnaður, miðunarstöðvar o. s. frv. Ég held því að það sé mjög þarft að Alþ. lýsi yfir vilja sínum og marki stefnu sem flugráð getur þá unnið eftir, því að ég vil taka það fram, að þó að fjárveiting hafi orðið okkur flugráðsmönnum mikil vonbrigði á hverju ári, þá hefur hún sjaldan verið eins lág og eins mikil vonbrigði fyrir okkur og í ár. Það er þó hvorki hæstv. ráðh. að kenna né samgrn., því að samgrn. stóð eins og það gat að því, að við fengjum þá upphæð sem við fórum fram á, sem var 900 millj. kr., en niðurstöðutalan var, eins og kom fram hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, 600 millj., sem nægir ekki fyrir nauðsynlegasta öryggisbúnaði hvað þá meira. En ég fagna því, að þessi skýrsla skuli koma fram, og vona að þm. styðji það sem þar er beðið um. Það er beðið um stefnumörkun í flugmálum, uppbyggingu flugvalla og flugmála á landinu öllu.

Það er ekki bara, að flugvallanefnd hafi gert till. um svo til sömu atriði og flugráð hafði gert nokkuð oft áður, heldur eru niðurstöðutölur, kostnaðartölur frá flugvallanefnd og hjá flugráði þær sömu í öllum aðalatriðum. Ég vil síðan taka undir það með hv. 5. þm. Suðurl., sem hann sagði um kafla 9.3.5 á bls. 57, að nefndin leggur til að flugvallagjald og tekjur af fríhöfn Keflavíkurflugvallar, sem nú renna í ríkissjóð, verði markaður tekjustofn sem renni til flugmálastjórnar til uppbyggingar á flugmálum í landinu. Ég hef heyrt því fleygt fram, áður en þessi flugvallaskattur var settur á, sem er þvingun fyrir flugfarþega, að ríkissjóður hefði meira upp úr flugmálum en hann léti til þeirra renna. Ef það er rétt og flugvallaskatturinn bætist þá ofan á tekjur ríkissjóðs af flugmálum, þá er ríkissjóður farinn að gera flugmálin að tekjulind, tekur ekki þátt í uppbyggingu flugmála á landinu. Þetta er verðugt verkefni að athuga og væri gott að fá það fram, hvort ég fer hér með rétt mál eða ekki. Hæstv. samgrh. hlýtur að hafa upplýsingar á takteinum hvað þetta snertir.