21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3759 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

194. mál, réttindi bænda sem eiga land að sjó

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér er reifað mál sem ég veit með vissu að þarfnast athugunar. Ég geri mér grein fyrir því, að vandamál það, sem hér um ræðir, hefur orðið brýnna með árunum og er í þann veginn að taka á sig hættulega mynd. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, eins og laxarækt er nú háttað á landi hér og laxveiðimálunum komið, að við megum undir engum kringumstæðum bregða fæti fyrir ráðstafanir yfirstjórnar veiðimála til þess að koma í veg fyrir veiðiþjófnað í sjó á laxi, þó ég sé hins vegar þeirrar skoðunar, að við verðum að haga eftirliti og allri meðferð þessara mála af mikilli nærfærni og kurteisi.

Ég hef lesið seinni árin margar fróðlegar og sumar skemmtilegar ritgerðir um það, með hvaða hætti fólk hefur frá örófi alda helgað sér þá jarðarskika þar sem auðsóttast er til matfanga, en það eru svonefndar hlunnindajarðir. Inn í þær sögur blandast náttúrlega frásagnir af því, með hvaða hætti þeir, sem urðu að sætta sig við það næstbesta eða jafnvel næstnæstbesta og jafnvel það versta, hafa orðið að beita klókindum sínum til þess að næla einnig í nokkuð af þessum gæðum. Hérlendis átti það við um reka, sel, fugl og fisk og hefur þá löngum verið aðhafst utan ramma laganna misjafnlega langt utan ramma laganna. Hv. alþm. verða að bera það í minni, ef þeir líta á þessi hlunnindamál í sögulegu samhengi, að sennilegt má telja að einmitt þessi hæfileiki til öflunar matfanga og eldiviðar án tillits til landamerkja og lagabálka hafi átt ríkan þátt í því að forða þessari vesalings þjóð frá algjörri útrýmingu á harðindaárunum, og er það raunar aðdáunarvert þegar hugleitt er að hábjargræðistímanum í veiðimálum ber einmitt upp á þann tíma. þegar björtust er nótt. En það var á þeirri tíð þegar neyðin knúði dugandi menn til að brjóta lög og reglur til þess að bjarga lífi sínu og sinna. Nú er önnur tíð, þegar enginn þarf að seilast um hurðarbak til lokunnar í þessu efni og fráleitt að telja ásælni í veiðirétt náungans nú til dags eða í eggver hans eða reka til nauðsynlegrar lífsbjargarstarfsemi á þjóðlegum grundvelli, og það sem enn þá meira er, að sjálftaka á þessu sviði getur ekki heldur fallið undir það sem kallast mætti meiri háttar auðgunarstarfsemi. Möguleikarnir til þess háttar umsvifa hafa nú verið fluttir inn fyrir veggi peningastofnana og viðskiptafyrirtækja.

Hér gefst að vísu ekki tími til þess að ræða ítarlega um þá breytingu sem orðið hefur á bjargræðisvegum þessarar þjóðar á síðustu 50 árum eða svo og þar með á viðhorfinu til eignarhalds á hlunnindum og þá fyrst og fremst veiðiréttar. En það er nauðsynlegt, þegar við fjöllum um veiðiréttarmálin, hvort heldur í ánum eða í sjónum, þar sem um laxfiska eða fiska af svokölluðum laxfiskastofni er að ræða, að geta þess, að laxagengdin í árnar okkar núna byggist að mjög verulegu leyti nú orðið á ræktunarstarfsemi. Laxinn sem gengur í árnar er afrakstur af kostnaðarsamri ræktun af hálfu veiðiréttareigenda. Seiðunum er klakið út í klakhúsum og þau eru alin upp með ærnum kostnaði, eru síðan í ánum í verulegan tíma eða yfirleitt þrefalt lengur en þau dveljast síðan í sjó, en ganga að svo búnu til sjávar og nærast þar og alast upp og stækka á þessum almenningi sem grunnslóðin er í kringum landið.

Hv. flm. þáltill., Ragnar Arnalds, gagnrýndi hér réttilega nokkur ákvæði í gildandi löggjöf og segir um framkvæmd þessara lagaákvæða, með leyfi forseta: „Á seinustu árum hefur eftirlit með veiði í sjó verið aukið. Eðlilegt eftirlit er sjálfsagt að allra dómi, en ýmsar heimildir eftirlitsmanna og aðfarir þeirra með stoð í lögum sæta ámæli, svo að illindi hafa af blotist.“ Illindi í sambandi við veiðiréttarmál eiga sér langa sögu á landi hér og víðar. Ég var fræddur um það fyrir 3 árum, sem ég vissi ekki áður, að Brjánsbardagi sá, sem frá segir í Njálu, var háður út af laxanetalögnum í Dyflinnará, og ef mig minnir rétt, þá féllu um 20 þús. manns í þeim bardaga á sínum tíma. Hér á landi hafa veiðiréttarmálin lengi verið hitamál og þá einkanlega í Húnavatnssýslum, sem hv. flm. vitnaði nú til að orðið hefðu kveikjan í þetta þingmál. Eftir því sem fróðir menn hafa sagt mér, þá var fyrsta morð á Íslandi framið út af veiðiþrætu — það var í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og deilt um Hofshyl — og sá, sem myrtur var, var sá sem til var settur að miðla málum í þeirri deilu, miðla málum með sama hætti og hv. flm. þessarar þáltill. ætlast til að hæstv. landbrh. geri nú. Síðan hafa staðið þrotlausar deilur á milli Húnvetninga innbyrðis um veiðiréttarmál og ýmsum veitt betur eins og gengur, þó þetta sé náttúrlega ekki einkamál Húnvetninga, síður en svo.

Hvarvetna hefur veiðiréttur til þess tilhneigingu að valda ágreiningi, þótt ekki hafi skorist svo mjög í odda yfirleitt sem norður í Húnavatnssýslum. Nú skal enginn herma það upp á mig, að ég segi þetta Húnvetningum til hnjóðs. Fólkið er stórbrotið í gáfum sínum og hver hefur til síns ágætis nakkvat, eins og frægur Húnvetningur sagði fyrir á að giska 1000 árum og orðið hefur síðan að orðtaki. En hvað sem því líður, þá er það nú ætlun mín að seint verði veiðilöggjöf komin í það horf, að Húnvetningar verði með öllu ásáttir um réttmæti hennar. Ég er ekki einu sinni viss um að Húnvetninga fýsi sérstaklega að verða ánægðir, og raunar hrýs mér hugur við þeirri tilhugsun, með tilliti til vina minna t. d. á Ströndum og í Skagafirði, ef slíkt yrði samlyndi þeirra Húnvetninganna.

Ég hygg að veiðilöggjöfinni þurfi ekki að breyta verulega í því skyni að afnema verstu annmarkana. Það, sem ábótavant er, kann að leynast í framkvæmd hennar og kunna þá náttúrlega ýmsir að segja sem svo, að það sé minni vandi að semja skynsamlega löggjöf en að sjá um framkvæmd hennar. Ég viðurkenni það fúslega, að í þeim tilvitnunum, sem hv. þm. Ragnar Arnalds las hér áðan úr löggjöfinni, gætir nokkurs ofstopa, en vil aðeins geta mér þess til, að ástæðan fyrir því, að sótt var á um það að fá þess háttar ákvæði um rétt eftirlitsmanna inn í löggjöfina, hafi verið af svipuðum rótum runnin og hin ströngu ákvæði, hin, ströngu viðurlög sem forðum giltu við sauðaþjófnaði á landi hér, þegar það varðaði líf manns að taka lamb á fjalli þótt svo hann væri að verða hungurmorða. Ástæðan var sú, hversu auðvelt var að fremja þess háttar afbrot hversu auðvelt var að stela lambi á fjalli, og það er raunar auðvelt að ná laxi úr sjó.

Nú vil ég alls ekki fortaka það, að sjávarbændurnir, sem hv. þm. Ragnar Arnalds ræddi um áðan, eigi þrátt fyrir allt dálítinn rétt til þessara laxfiska, þó að aldir séu upp sem seiði í ánum með ærnum kostnaði. Þeir eru eignaraðilar að hinum stóra afrétti, sem þessi seiði ganga á, þar sem þau éta allt að því tvöfalda þyngd sína á dag, jafnvel þrefalda og hundraðfalda þyngd sína með þessum hætti á sameiginlegri afrétt okkar allra á 1–2 árum. Þetta finnst mér ekki fráleitt. Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi sannarlega að endurskoða veiðilöggjöfina og vil, af því að það er minnst á Húnvetninga sérstaklega, minna á till. sem Björn Pálsson fyrrv. alþm. á Löngumýri gerði grein fyrir, að því er ég hygg þó ekki úr ræðustól á Alþ., hugmyndum sem hann gerði grein fyrir á þá lund, að allir íbúar hvers vatnasvæðis ættu að hafa nokkra eignaraðild að laxveiðiánum og öllu því svæði sem vatn rennur af til þessara áa, og kemur þá einnig til álita hlutur þeirra manna sem land eiga að sjó. Um hitt verður ekki deilt, að auk hins forna réttar, sem helgaðist af eignarhaldi á landi, þá bætist nú við sá réttur sem veiðibændur hafa fengið með þeim hætti að leggja fé í laxarækt og gera þessi mál að ræktunaratriði.

Ég játa að ég ber einnig umhyggju fyrir mönnunum sem land eiga að sjó, þar sem fylgt hefur réttur til þess að veiða silung í net, og óþolandi þætti mér, ef ég byggi á slíkri jörð við sjó, að eiga það á hættu að menn ráðnir til eftirlitsstarfa við laxveiðiá kæmu og færu að snuðra í bátnum mínum og skafa upp úr honum hreistur til að senda suður til Reykjavíkur og láta kanna það, af hvers konar fiski þetta hreistur væri. Það getur verið að það sé vegna þess að og var alinn upp við það ungur að eiga bát, að ég hef sams konar tilfinningu gagnvart bát eins og heimili mínu að vissu leyti. Ekki vildi ég láta þá heldur hafa heimild til þess að vera að skyggna netið mitt, þar sem það lægi í sjó, að huga að því, hvaða fiskar væru í það gengnir. Enn þá síður vildi ég láta þá hafa heimild til þess að draga þetta net á land. Ég hygg að ekki verði hjá því komist, ef menn leggja silunganet í sjó þar sem lax á göngu um, að stöku lax slæðist í silunganet, ef þetta er sæmilega sterkt net. Lögum samkv. á eigandi netsins, sá sem rétt hefur til þess að veiða silung í sjó, að losa þennan lax úr neti sínu, ef hann kemur að laxinum með lífi, og sleppa honum, en henda ella.

Við skulum ekki fara í neinar grafgötur um það, að lax, sem gengur í silunganet, flækir þannig um sig netið að það mun ekki fanga silung það sinni að neinu gagni, og má raunar segja að sá lax gjaldi fyrir veiðispjöll með lífi sínu og holdi, og mér finnst ekkert óeðlilegt að eigandi silungsnetsins fái að borða laxinn. En þetta er ekki aðalvandamálið í þessu sambandi, heldur hitt, að í blóra við þennan rétt sjávarbænda til að leggja silunganet í sjó er stundum stórkostleg laxveiði í sjó, þar sem lögð eru ýsunet fyrir laxatorfurnar. Það er á almannavitorði, að lax, sem er fangaður með þeim hætti og eins með ádrætti í sjó, hefur verið til sölu í verslunum hér á landi og fluttur út svo tonnum skiptir. Þetta er vandamálið.

Ég vil ekki setja út á eftirlit með því, að veiðilögin séu haldin. En ég mótmæli því aftur á móti sterklega, að gengið sé fram með ofstopa í þessu eftirliti, eins og mér virðist verið hafa. Það er á vitorði alþýðu manna, að lax hefur verið veiddur í stórum stíl í sjó í miklu stórfenglegri veiðigildrur en silunganet, og ástæðan fyrir því, að það er sótt nokkuð fast að herða þetta eftirlit, sé sú, að önnur leið sé raunar ekki til þess fær.

Ég held að við þurfum að finna til þess leiðir að stemma stigu við ólöglegri laxveiði í sjó sem framin er að yfirlögðu ráði og heitið getur veiðiþjófnaður. Til þess kunna að vera ýmsar leiðir, m. a. man ég eftir því fyrir einum 10 árum að fram kom uppástunga, sem mér þá þótti nokkuð góð og trúi enn að gæti verið góð, á þá lund, að allur lax, sem seldur væri í verslunum hérna, yrði merktur, þ. e. a. s. að sett yrðu merki frá Veiðimálastofnuninni í kinn fisks, á þessum laxi, og ekki mætti versla með annan lax heldur en þannig væri skráður til sölu, ef fá mætti nokkurt aðhald með þeim hætti að löggilda lax til sölu. En ég er sem sagt viss um að með því að skerða möguleika Veiðimálastofnunarinnar til þess að hafa eftirlit með veiðimálum mundum við ekki auka sátt þeirra Húnvetninga. Ég er næstum því viss um að með þeim hætti mundum við fremur en hitt nálgast það ástand sem ríkti við Vatnsdalsá á dögum Ingimundar gamla.

En enginn má túlka orð mín á nokkurn hátt á þá lund, að ég vilji gera hlut Húnvetninga í þessu viðkvæma máli lítinn eða skoplegan. Sagan ber sannarlega vott um dýrð þeirra, og enn í dag eru þeir slíkir að mannkostum og atgjörvi, svo sem þjóð veit, að innbyrðis erjur þeirra eða deilur út af veiðiskap, fjárkláða eða hryssum verka aðeins eins og undirstrikun á stórkostlegri skaphöfn, enda mála sannast að þar eru náttúrlega vígaferli aflögð fyrir þó nokkru, að því er best verður vitað.

Enda þótt ég telji mjög tímabært að vekja mál sem þetta, umr, um það hér á þingi, þ. e. a. s. um rétt strandbænda til netaveiða í sjó, — rétt sem ég vil svo sannarlega virða, og enda þótt hv. frsm. legði áherslu á þann vilja sinn að gæta réttar þeirra aðila, sem rækta upp árnar, laxveiðina í ánum, þá fannst mér eigi að síður með einhverjum hætti að ekki kæmi alveg nógu skýrt fram hjá honum og ekki, þrátt fyrir varnagla í þáltill. og gr., nógu næm tilfinning fyrir rétti þeirra manna, sem rækta nú laxinn í ánum, sem er með dálítið svipuðum hætti og sauðfjárbændur koma upp landbúnaði sínum með sauðfé sem þeir reka svo upp á afréttinn og eiga þá rétt á að fá af fjalli, og þá ekki heldur kannske nógu næm tilfinning eða kannske engin tilfinning fyrir rétti þeirra manna og þörfum sem skemmta sér svo við að veiða þennan lax á stöng þegar hann er kominn upp í árnar. Því miður er það svo, að nokkuð vantar á það, að löggjafarsamkundan, stjórnendur landsins, geri sér grein fyrir því, að hér er um að ræða þörf fólks til að stunda þetta útivistaryndi sem er að veiða fisk á stöng að sumrinu til.

Hér kunna að valda að nokkru leyti gamlir fordómar frá þeim tímum, þegar ekki var alþýðuíþrótt eða alþýðuskemmtun að veiða á stöng, eða einhverjar leifar frá þeim árum, þegar það voru eingöngu breskir „lordar“ sem stunduðu þessa veiði hér á landi og fólkið fékk aldrei neina sérstaka tilfinningu fyrir, sem því er tæpast láandi, og þetta mun hafa verið svo í fleiri löndum. Það segja mér þeir menn, sem fróðastir eru um ævi Knut Hamsuns, að þegar hann var ungur piltur norður á Hálogalandi og hét ennþá Knut Petersen, þá hafi hann unnið fyrir sér eitt sumar með því að vera leiðsögumaður og aðstoðarmaður með breskum stórhöfðingja, sem þar stundaði laxveiðar, og framkoma hans við þennan unga viðkvæma norska pilt var með þeim hætti, að í brjósti hans kviknaði upp óslökkvandi hatur í garð Breta, sem gekk svo langt að áður en lauk gerðist hann nasisti á stríðsárunum og stuðningsmaður Hitlers, jafnvel gegn allri þjóð sinni, bara til þess að geta klekkt á Bretum. Svo langt leiddi andúð á stangarveiðimanni, Knut Hamsun. Hið sama gilti hér á landi. Mér er kunnugt um mörg dæmi þess fram til skamms tíma, að höfðingjarnir, sem laxveiðina stunduðu á stöng og skáru sig úr frá alþýðunni að því leyti, urðu ekki beinlínis vinsælir af alþýðu manna í sveitunum, ekki allir a. m. k., og enn þá síður af aðstoðarmönnum sínum. Dæmi veit ég ofan úr Þverá í Borgarfirði. — það mun hafa skeð fyrir nær aldarfjórðungi — um það, að tveim piltum, sem voru hestastrákar fyrir tvo höfðingja úr Reykjavík, mislíkaði drembilát framkoma annars þeirra og tóku upp á því að fóðra hross hans sérstaklega á rúgbrauði. Þegar hesturinn gaf frá sér þau hljóðmerki, sem til var ætlast með þessum hætti, þá hrópuðu piltarnir „salut“. Og svona lengi mega menn ekki erfa ónotalega framkomu drembilátra höfðingja við laxveiði, að þeir taki sig síðan til og flytji sérstök þingmál inn á Alþ. til þess að klekkja enn þá meira á þeim.

Ég er alveg viss um að við gerum rétt í því að styðja veiðimálastjóra og starfsmenn hans með ráðum og dáð í viðleitni hans til þess að tryggja árangur af ræktunarstarfi í íslenskum laxveiðiánum. Við megum á engan hátt bregða fæti fyrir þá viðleitni, því hér er um að ræða þjóðnytjastarf sem á eftir að koma öllum landsmönnum til góða. En undir það get ég tekið með hv. flm., að það nær ekki nokkurri átt að veita eftirlitsmönnum með laxveiðiánum einhvers konar yfirskilvitlegan rétt til þess að ganga um lönd og lendur annarra manna og skyggnast í híbýli þeirra og fara þar fram með eins konar dólgshætti. Við þurfum þó að gera okkur grein fyrir því, hvernig á þessu stendur, að sumir eftirlitsmannanna hafa e. t. v. leyft sér að framfylgja lagabókstafnum þannig að við ruddaskap jaðrar.

Ég hygg að við eigum að taka það til athugunar, með hvaða öðrum hætti við getum auðveldað eftirlitið með framkvæmd veiðilaganna og komið í veg fyrir þjófnað á þessu sviði án þess að svipta bændur, sem land eiga að sjó, þeim hlunnindum að veiða silung í netstubb í sjónum og krakkana þeirra þeirri ólýsanlegu gleði og þeim hollu uppeldisáhrifum sem því fylgja að fá að vera aðilar að þess háttar veiði.

Ég er því fylgjandi að því verði beint til hæstv. ráðh., að hann láti endurskoða þessi ákvæði. En vil þá endilega biðja hann að stuðla að því, að hugleiddar verði þá aðrar leiðir sem að gagni mættu verða til þess að tryggja þá menn sem leggja vinnu og fé í það að rækta upp árnar, að tryggja þá gegn áföllum af því tagi sem þeir verða nú fyrir af völdum manna sem stunda raunverulega ólöglegar veiðar í stórum stíl í sjónum.