22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3774 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

291. mál, umhverfismál

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. félmrh. fyrir þetta frv. og tel mikilvægt að það skuli koma hér fram og mönnum gefist kostur á að skoða efni þess.

Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt ljóst að þetta er frv. sem mun snerta í framtíðinni meira og minna hag og velferð hvers þegns í þjóðfélaginu. Eins og hæstv. ráðh. drap á eru þetta vandamál, sem eru tiltölulega ný hér hjá okkur, og þess vegna er mikilvægt að málið sé vel undirbúið. Það hefur hann haft forgöngu um og er það mjög þakkarvert.

Ég ætla ekki að fara í einstakar greinar frv., þar sem augljóst er að það mun ekki fá framgang á yfirstandandi þingi, heldur lagt fram svo að menn kynnist efni þess og ræði það. Í grg. kemur fram, að 15 mikilvægar stofnanir í landinu hafa sent umsagnir um þetta mál og frv. er nokkuð mótað, eins og segir á bls. 6, vegna umsagna frá þessum mikilvægu stofnunum. Þetta eru ríkisstofnanir sem fjalla um mikilvæga þætti í efnahagskerfi þjóðarinnar, og má þar nefna rafmagnsveitumál, hafrannsóknamál, iðnþróunarmál, ferðamál, heilbrigðismál og náttúruverndarmál, en einnig senda umsagnir rannsóknastofnanir ýmiss konar og einnig stórverksmiðjur, svo að við sjáum af þessu hversu mikilvægt er að setja um þetta heildarlöggjöf.

Núverandi lög um þennan mikilvæga þátt, þ. e. a. s. náttúruvernd, eru aðeins ein heilleg lög, náttúruverndarlögin frá 1971. Sumir hafa haft horn í síðu þeirrar löggjafar og talið að Alþ. hafi verið nokkuð fljótt á sér að samþykkja mjög viðtæka heimild handa Náttúruverndarráði til að fjalla um ýmsar framkvæmdir í landinu. Það kann vel að vera, að það hafi verið fljótfærni hjá okkur að fallast á sumt sem hefur sýnt sig erfitt í framkvæmd í því efni. En hér eru tekin af öll tvímæli um að þessi mál falla í einn farveg í framtíðinni, undir eina yfirstjórn, sem er afar mikilvægt. Í þessu efni geta átt sér stað mjög miklir hagsmunaárekstrar, og þarf ekki að rekja dæmi um það og vissar framkvæmdir í landinu áttu beinlínis rót sína að rekja til átaka í þessum efnum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við skulum sjá löggjöf er beinir okkur í ákveðinn farveg í þessu efni. Ég tel mjög þakkar vert, að við skyldum fá þetta frv. hér á Alþ., þó að seint sé, svo að alþjóð gefist svigrúm til að athuga efni þessa mikilvæga frv.

Erindi mitt hingað í ræðustól var aðeins að vekja athygli á því, hvað þetta málefni er mikilvægt. Ég hef staðið að því ásamt fleiri Alþfl.- mönnum að telja nauðsynlegt að setja löggjöf um óbyggðir landsins og eignaraðild og meðferð á öllu landinu. Löggjöf um óbyggðir, nýtingu lands og umhverfismál ætti að vera mjög undir sömu stjórn og falla í sama farveg í framtíðinni, því að það verður öllum þegnum landsins til blessunar, að við berum þroska til þess að móta löggjöf í tæka tíð, en þó að vel athuguðu máli, eins og mér virðist hér hafa verið staðið að verki.