02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

36. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 37 flytjum við 4 þm. þessarar hv. d. frv. sem miðar að stjórnarskrárbreytingu, en auk mín eru flm. Stefán Jónsson, Helgi F. Seljan og Geir Gunnarsson. Frv. þetta miðar að því að bæta þremur nýjum mgr, við eignarréttarákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar, sem miðar að því, eins og kunnugt er, að eignarrétti skuli menn halda nema brýna nauðsyn beri til að eign þeirra sé tekin eignarnámi og þurfi þá lög til.

Í frv. okkar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að við þetta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar bætíst ákvæði um að eignir, sem enginn hefur sannanlega átt fram að þessu og eru þess eðlis að þær þurfa að nýtast af þjóðarheildinni, séu lýstar sameign þjóðarinnar allrar með stjórnarskrárákvæði. Þau verðmæti, sem hér er um að ræða, eru í fyrsta lagi öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan íslenskrar efnahagslögsögu, í öðru lagi almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda og svo í þriðja lagi þrjú sérgreind réttindi, þ.e.a.s. námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 m dýpi.

Í 2. mgr. er síðan kveðið á um það, að eignarrétti á íslenskum náttúruauðæfum, landi og landgrunni, skuli að öðru leyti skipað með lögum. Hér er átt við það, að löggjafinn þurfi að draga skýr mörk milli einkaeignar og sameignar þjóðarinnar, og þá sérstaklega þess getið, að fyllilega þurfi að gæta hagsmuna þéttbýlisbúa og tryggja þeim rétt til eðlilegrar umgengni og útivistar í landinu og að sjálfsögðu til lands undir húsbyggingar á sanngjörnu verði. Og orðum er komið að þessari hugsun í frv. á þessa leið:

„Tryggja ber landsmönnum öllum rétt til eðlilegrar umgengni og útivistar í landinu. Við eignarnám á landi, í þéttbýli sem dreifbýli, skal almennt ekki taka tillit til verðhækkunar, sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni, opinberum framkvæmdum eða öðrum ytri aðstæðum, heldur ber að miða mat við verðmæti hliðstæðra eigna, þar sem þess háttar ástæður hafa óveruleg áhrif til verðhækkunar.“

Þessi seinasta setning miðar að sjálfsögðu að því að koma í veg fyrir svonefnd Votmúlamál, og höfum við Alþb: menn nokkuð oft flutt till. þessa efnis hér í þinginu. Till. af þessu tagi náði reyndar fram að ganga hér í hv. Ed. fyrir nokkrum árum, en náði hins vegar ekki fram að ganga í Nd. og hefur ekki síðan átt upp á pallborðið hjá hv. meiri hl. þm.

Í 3. mgr. segir síðan, að með þeim takmörkunum, sem upp hafa verið taldar, skuli við það miða að bændur haldi eignarrétti á jörðum sínum, beitirétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum. Hér er sem sagt verið að slá því föstu, að staða bænda skuli ekki skert og þeir skuli halda þeim hlunnindum, sem hafa fylgt bújörðum liðnum öldum.

Eftir að þetta frv, kom fram í fyrsta sinn, það var á s.l. vetri, var því haldið fram að hvað bændur varðaði væri hér um að ræða stórkostlegt þjóðnýtingarfrv. En þetta er rangt. Ákvæði um réttindi til náma og um námuvinnslu geta að vísu talist breytingar frá eignarréttaraðstöðunni eins og hún sannanlega er nú, en að öðru leyti er hér fyrst og fremst reynt að festa í stjórnarskrá að það, sem verið hefur sameign þjóðarinnar um aldir, verði það áfram. Hér er því einungis verið að ákveða mörk eignarréttarins, en það er ekki verið að flytja till. um þjóðnýtingu nema þá að mjög óverulegu leyti.

Með flutningi þessa frv, viljum við Alþb: menn hér í d. reyna að hnýta betur böndin milli verkalýðsstéttarinnar og bændastéttarinnar og koma í veg fyrir að þessir aðilar hefji óþarfa togstreitu sín í milli um eignarráð á landi og þar með marka almenna stefnu sem bæði þéttbýlisbúar og sveitafólk eiga að geta sætt sig við. Alþfl.-menn hafa löngum í blaði sínu veist að okkur Alþb: mönnum vegna þessarar afstöðu okkar og sagt að við værum að vernda og styðja landeigendaaðalinn. Á hinn bóginn hafa ýmsir í hópi framsóknar- og sjálfstæðismanna reynt að gera afstöðu okkar sem tortryggilegasta og þar með neitað að fallast á að réttur landeigandans ætti að vera takmörkum bundinn á nokkurn hátt. Samkv. kenningum þessara manna á landeigandinn eignarrétt að jörðinni undir fótum sér allt inn að miðpunkti jarðar. Hvers konar auðæfi sem finnast lengst inni jörðinni og engir landeigendur hafa fram að þessu nytjað, eiga að teljast eign þess manns sem gengur um yfirborðið sem landeigandi þess. Stefna okkar Alþb.manna er annars vegar sú, að eignarrétti landeigandans verði sett ákveðin takmörk, ákveðin skynsamleg takmörk. Hins vegar teljum við ekki rétt að skerða yfirráð bænda yfir jörðum sínum að svo miklu leyti sem þær eru notaðar til búskaparnytja, enda teljum við að engir séu betur til þess fallnir en íslenskir bændur að varðveita íslenskt land í höndum Íslendinga sjálfra og afkomenda þeirra og nytja það á skynsamlegan hátt. Við bendum á að ýmis dæmi eru um það úr sögu síðustu áratuga, að hægri sinnað ríkisvald hefur reynst tilbúið að fórna landsréttindum á altari erlendra hagsmunaaðila, þannig að í því er engin örugg trygging fólgin þó að ríkisvaldið gerist umráðamaður allra bújarða í landinu. Það er hyggilegra að 5 þúsund bændur í landinu eigi ræktað land og grasnyt á fjöllum en að örfáir forustumenn ríkisvaldsins geti ráðskast með þann rétt. Einmitt í þessu tilvíki er dreifingu valdsins á hendur margra aðila, í þessu tilviki þúsunda aðila, gæfulegri en samsöfnun valdsins á fárra hendur.

Alþb. fylgir ekki einstrengingslegum fræðikenningum, hvorki í þessu efni né öðrum. Það gerir sér einmitt grein fyrir því, að þjóðfélagsþróun á Íslandi verður að þróast í samræmi við íslenskar aðstæður, Hæpinn ávinningur er að því að safna öllum völdum í eina miðstöð ríkisvaldsins, eins og gert hefur verið í ýmsum sósíalískum löndum. Þvert á móti verður að kappkosta að dreifa valdinu og efla lýðræði í landinu, og í þessu tilviki verður það áreiðanlega best gert með því að viðhalda dreifðum eignarrétti á bújörðum.

Ég er sannfærður um að bændur munu skoða og hugleiða till. okkar Alþb: manna á hleypidómalausan hátt og hyggja að því, hvort þær eru ekki einmitt hinn rétti grundvöllur sem bændur sjálfir eiga að byggja rétt sinn á. Ósanngjarnar kröfur um eignarréttarheimildir landeigenda, sem hvorki eiga sér stoð í íslenskum réttarvenjum né í lögum að áliti fróðustu manna og samrýmast enn síður siðferðisvitund og heilbrigðri skynsemi nútímamanna, eru að sjálfsögðu einkum til þess fallnar að grafa undan bændum og veikja þann stuðning sem bændur geta vænst að fá frá venjulegu launafólki og öðru eignalitlu fólki í þéttbýli.

Við skulum taka sem dæmi orkuver, sem reist er á afrétti, og athuga, hver réttur bóndans raunverulega er og á að vera. Bændur eiga rétt til skaðabóta, ef orkuver er reist sem veldur náttúruspjöllum, og þeir geta að sjálfsögðu beitt fyrir sig þeirri lagagrein, að vötn skuli falla eins og þau forðum hafa fallið. En það, sem hér er reynt að slá föstu, er að þeir geta ekki selt sjálfa orkuna í hinu rennandi vatni, því að þeir eiga hana ekki.

Annað hliðstætt dæmi er virkjun háhitasvæðis. Eina skerðingin, sem fólgin er í þessu frv., er sú að möguleikar manna til að selja það, sem þeir raunverulega hafa aldrei átt, eru ljóslega teknir af fyrir fullt og allt.

Þriðja dæmið er um þann mann sem á land í grennd við vaxandi þéttbýlisstað og selur landið á tíföldu venjulegu gangverði slíkra landa. Hann er bersýnilega einnig að selja eitthvað sem bann sjálfur hefur aldrei eignast. Það er annarra verk sem valda því.að jörð hans hefur hækkað svo mjög í verði.

Í þessum þremur dæmum gildir það nákvæmlega sama. Það á að koma í veg fyrir að menn græði á þörfum annarra og hljóti óréttmætan hagnað án þess að hafa sjálfir látið nokkra vinnu af mörkum eða aukið eignina þeim verðmætum sem réttilega hækka hana í verði. Það er einmitt þetta sem kallað er og kallað hefur verið brask.

Við skulum skoða nánar þetta margnotaða orð, brask, því að merking þess hefur óneitanlega stundum aflagast við of mikla notkun. Ég tel að það sé ekki brask þegar kaupmaður kaupir vöru og selur hana aftur með hóflegri álagningu. En hitt er brask, ef menn fá hagnað af viðskiptum án þess að hafa nokkuð, til þess unnið sjálfir, hvorki með hugviti sínu né vinnu, að það réttlæti þann hagnað sem í hlut þeirra fellur. Það er sem sagt brask ef maður kaupir jörð, sem hann veit, að á eftir að hækka gífurlega í verði að fáum árum liðnum, og selur hana aftur með miklum hagnaði. Hagnaður hans er sem sagt ekki laun fyrir að skipuleggja viðskipti, eins og hagnaður kaupmannsins er undir flestum kringumstæðum. Hagnaðurinn er einfaldlega árangur af braski.

Ég tel að slíkri hagnaðarvon hljóti bændur almennt að afneita. Þeir eiga samstöðu með verkalýð bæjanna: launamönnum, iðnaðarmönnum og sjómönnum. Þar breytir engu hvort um er að ræða trillukarl eða þann sem hlýtur aflahlut frá útgerð sem hann á ekkert í. Bændur eiga samstöðu með launafólki og einyrkjum, en ekki með stórkapítalistum og fjármálajöfrum. Og auðvitað eiga þeir ekki að greiða skatt til samtaka atvinnurekenda, en það er önnur saga. En þess vegna er á þetta minnt hér, að besta tryggingin að áliti okkar flm, fyrir því, að bændur varðveiti réttindi sín, er einmitt sú, að þeir lími sig ekki upp að auðvaldsöflum þjóðfélagsins og geri við þau bandalag og láti þau hvetja sig til óraunhæfrar kröfugerðar, heldur miklu frekar hitt, að þeir leiti eftir samstöðu við verkalýðshreyfinguna og launþegasamtökin.

Ég ætla svo að fara að lokum nokkrum orðum um þau réttindi sem frv. okkar fjallar um. Forseti Íslands, Kristján Eldjárn, talaði eitt sinn í embættisræðu um lífbeltin tvö: annars vegar lífbeltið umhverfis landið, hins vegar græna láglendisbeltið, sem liggur með ströndum fram. Þetta var góð samlíking, en ég vildi mega hagnýta mér þessa hugsun með því að tala um sameignarsvæðin tvö. Þar er annars vegar um að ræða hið fyrra lífbelti sem forsetinn nefndi, lífbelti sjávarins sem liggur umhverfis landið, hins vegar afréttina, almenninga og önnur óbyggð lönd utan heimalanda. Á milli þessara tveggja sameignarsvæða liggur hins vegar séreignarsvæðið, séreignabeltið, grænt láglendisbelti ræktaðs lands með ströndum fram.

Till. okkar fjallar alveg sérstaklega um þessi tvö sameignarsvæði. Í fyrsta lagi svæðið umverfis landið. Þó að það sé ekki sérstaklega brýnt mál í dag er enginn vafi á því, að verðmæti í sjó og á sjávarbotni gætu orðið bitbein einstakra manna síðar meir ef séreignarstefnan yrði frekar ofan á íslenskri löggjöf og ekki yrði tekinn allur vafi af með ótvíræðu stjórnarskrárákvæði.

Hitt sameignarbeltið, afréttir og almenningar og óbyggð lönd, er hins vegar þegar orðið mikið bitbein manna, en þó er á það minnt í grg. þessa frv., að það hefur verið almennt álit íslenskra lögfræðinga að einstakir menn ættu ekki beinan eignarrétt á landi í óbyggðum. Ég hirði ekki um að rekja þau lagalegu rök sem fram hafa verið borin þessari fullyrðingu til stuðnings, enda gerði ég það allítarlega í framsöguræðu minni fyrir einu ári fyrir þessu máli, en bendi á dóm Hæstaréttar frá árinu 1955 sem fjallaði um eignarhald á landi á Landmannaafrétti, en stutt frásögn af þessum hæstaréttardómi er í grg. Einnig má benda á dóm Hæstaréttar frá árinu 1969, bls. 510, sem fjallar um deilur Skagfirðinga og Eyfirðinga um eignarrétt á Nýjabæjarafrétti. Og í þriðja lagi má benda á þau sjónarmið sem fram komu hjá höfundum frv. til námulaga, sem samþ. var á Alþ. árið 1973, en í grg. þess frv., sem samið var af þrem mjög lagafróðum mönnum, sagði einmitt að almenningar, afréttir og öræfi séu ekki í einkaeign, nema sannað sé að tiltekið land, sem nú er afréttur, hafi áður verið í einkaeign. Eins og menn vita er hins vegar öndverðum skoðunum haldið fram ótt og títt af hægrisinnuðum öflum í landinu og reynt að telja fólki trú um að staðreyndir málsins séu á annan veg. Ég tel því fulla þörf á því að Alþ. taki af skarið um þetta efni í eitt skipti fyrir öll. Að öðru leyti fjölyrði ég ekki um þetta feiknarlega mikilvæga mál, sem á sér margar hliðar, vegna þess að ég fjallaði mjög ítarlega um það fyrir einu ári.

Í frv, er getið um þrenn sérgreind réttindi sem eru óháð því hvort þau liggja á séreignarsvæðinu eða sameignarsvæðunum tveimur, en þessi réttindi eru í fyrsta lagi námur í jörðu, í öðru lagi orkan í rennandi vatni og í þriðja lagi jarðhitinn í jörðu niðri. Um þessi réttindi og gildandi lagaviðhorf í þeim efnum er fjallað einnig í grg. og er óþarft að fara mörgum orðum um það hér frekar.

Um námur í jörðu hefur sú stefna verið í gildi, að landeigandinn telst eigandi námunnar. Við flm, teljum eðlilegast að þessu verði breytt á þann veg að þjóðin í heild tileinki sér þessi verðmæti. Kannske má segja að frv. víki hvað mest efnislega frá gildandi rétti hvað þetta atriði snertir.

Um eignarrétt í orku í rennandi vatni hefur verið rökrætt á Íslandi í áratugi, liðlega hálfa öld, og sú saga var einnig rifjuð upp í framsöguræðu hér á Alþ. þegar ég mælti fyrir þessu frv. fyrir einu ári og skal það ekki endurtekið. En margur ágætur og fróður maður hefur fært að því rök að orka rennandi vatns ætti að teljast almenningseign, enda þótt úr þessu hafi aldrei verið skorið með lagasetningu á Alþ. Við flm. teljum að tími sé til kominn að þessu verði nú slegið föstu með ákvæði í stjórnarskrá.

Um eignarrétt á jarðhita djúpt í jörðu hefur svo mjög verið rætt hér á Alþ. við umr. um háhitasvæðin að alveg ástæðulaust er að fara að endurtaka þau sjónartnið sem þar hafa verið flutt fram þeirri skoðun til stuðnings að hiti djúpt í jörðu eigi að teljast almenningseign. Rétt er þó að benda á að frv. okkar fjórmenninga gengur heldur lengra en frv. sem margoft hefur verið flutt í Nd. Alþ. um háhitasvæðin svonefndu. Ég geri ráð fyrir að háhitasvæðin teljist ótvírætt ríkiseign, vegna þess að við viljum að allur hiti í jörðu undir 100 m dýpi, hvort sem hann er af háhitasvæði eða lághitasvæði, verði talinn almenningseign. Það teljum við eðlilegustu stefnuna og allt annað í fullkomnu ósamræmi við heilbrigða skynsemi, enda þótt við höfum að sjálfsögðu verið því innilega samþykkir að frv. um háhitasvæðin næði fram að ganga, þar sem þar var um eins konar málamiðlunartilraun að ræða sem gekk ekki alveg jafnlangt og okkar frv. gerir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta frv. Ég vil þó segja það að lokum, að það er einkenni okkar þjóðlífs að við búum hér lítil þjóð í stóru andi, og afleiðing þess er sú, að eignarréttarákvæði eru hér óskýrari en víða annars staðar. Land á Íslandi er sennilega ódýrara en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu, en hversu lengi það verður skal ósagt látið. En meðan svo stendur á, meðan ríkjandi aðstæður haldast er einmitt mjög gott tækifæri, ómissandi tækifæri til þess að kveða skýrt á um það í stjórnarskrá hvað sé raunveruleg eign einstaklinga og hvað sé og hafi alla tíð verið sameign þjóðarinnar.

Við höfum verið furðu sinnulausir, við Íslendingar, að ákvarða fasta og skýra stefnu í eignarréttarmálum. En þróunin bendir til þess, að þetta afskiptaleysi okkar geti boðið hættunni heim. Hættan er einfaldlega fólgin í því, að einstaklingar fari nú að sölsa undir sig eignir sem enginn einstaklingur hefur fram að þessu átt. Við verðum því að tryggja hagsmuni þjóðarheildarinnar, og það er einmitt þess vegna sem þetta frv. er flutt.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv, vísað til hv. allshn.