22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3780 í B-deild Alþingistíðinda. (2910)

241. mál, manneldisráð

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Frv. til laga um manneldisráð hefur verið í heilbr.- og trn. í nokkra daga til umfjöllunar. N. leggur einróma til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt. sem flutt er till. um á sérstöku þskj. Breyt , sem heilbr.- og trn. leggur til að gerð verði, er við 3. gr. frv. 3. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í manneldisráði eiga sæti fimm menn, sem ráðh. skipar til fjögurra ára í senn, og fimm til vara.

Til setu í ráðinu skal skipa menn með sérþekkingu á manneldismálum.“

Sú breyting, sem við leggjum til, er á þann veg. að 3. gr. orðist svo:

„Í manneldisráði eiga sæti fimm menn er ráðh. skipar til fjögurra ára í senn. Skal skipa einn ráðsmanna samkv. tilnefningu læknadeildar Háskóla Íslands, annan samkv. tilnefningu verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, en hina þrjá án tilnefningar. Skipa skal fimm varamenn með sama hætti.

Til setu í ráðinu skal skipa menn með sérþekkingu í manneldismálum.

Ráðh. skipar einn ráðsmanna formann manneldisráðs.“

Eins og fram kom, er hæstv. heilbrrh. talaði fyrir máli þessu, þá hefur manneldisráð verið til um allangan tíma. Núgildandi lög um manneldisráð voru samþ. árið 1945, en um lengri tíma hefur ráðið verið lítt starfhæft. Það var í raun og veru fyrst nú á allra síðustu árum sem því var aflað nokkurs fjármagns til þess að það gæti starfað. Nú er svo komið, að fram fara á vegum ráðsins allmiklar rannsóknir, sem í raun og veru væri eðlilegt og æskilegt að gætu farið fram undir sömu stjórn. Við höfum þá trú eftir viðtal við ráðuneytisstjóra og þá menn sem um þessi mál fjalla í Stjórnarráðinu, að breyting á þessum lögum verði ekki látin koma niður á þeirri starfsemi sem nú fer fram.

Það sem gerir nauðsynlegt nú, að breyting verði gerð á starfsemi manneldisráðs, er m. a. það, að á síðustu árum og áratugum hefur orðið mikil breyting á þekkingu manna á fæðurannsóknum og lifnaðarháttum manna yfirleitt og fleiri starfsaðilar en læknar fjalla nú um þessi mál. Áður voru í ráðinu og eru reyndar núna fimm læknar og hefur verið svo frá upphafi, en hins vegar var svo ákveðið, er frv. þetta kom í n., að í manneldisráði skyldu eiga sæti fimm menn, sem ráðh. skipaði til fjögurra ára. Það var tekið fram, að þeir skyldu hafa sérþekkingu í manneldismálum, en í raun og veru var engin trygging fyrir því, að þarna væri nokkur læknir. Hins vegar er þetta svo samtengt að varla er hægt að hugsa sér manneldisráð án þess að þar komi læknar við til umfjöllunar. Þess vegna var þessi breyting gerð til þess að tryggja það, að ráðið yrði skipað í framtíðinni eins og við teljum æskilegast.

Það er ekki vafi á því, að nú þegar við höfum ráðið bót á hinum hættulegustu sjúkdómum heilsufari okkar, þá er manneldi einn af hinum þýðingarmestu þáttum í heilbrigði okkar á komandi tímum og þess vegna er þetta frv. mjög merkilegt fyrir alla okkar heilbrigðisstarfsemi. Ég vona að samþykkt þessa frv. megi leiða til umbóta í þessum málum.