22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3782 í B-deild Alþingistíðinda. (2914)

276. mál, vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga og mælir einróma með samþykkt þess.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla hér um starfsemi Sambands ísl. berklasjúklinga. Allir hv. þm. þekkja þá starfsemi og alla þá félagsmálastarfsemi sem fram hefur farið á vegum Sambands ísl. berklasjúklinga, bæði vegna byggingar og rekstrar á vinnustofum fyrir öryrkja, starfsemi á vinnuheimilinu á Reykjalundi og fleira sem þessi samtök hafa komið til leiðar í þjóðfélagi okkar.

Frv. gerir ráð fyrir að framlengja heimild Sambands ísl. berklasjúklinga til rekstrar vöruhappdrættis í 10 ár, þ. e. til ársloka 1980, en happdrætti þetta stendur að langmestu leyti undir þeirri starfsemi sem fer fram á vegum þessara samtaka. Ég vil að lokum ítreka að n. mælir einróma með því, að frv. verði samþykkt.