02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

36. mál, stjórnarskipunarlög

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð í tilefni af þeim frv. tveim sem hér eru á dagskrá, en ég hef ekki því miður vegna annarra starfa ekki tíma til að taka þátt í meðferð d. að þessu sinni á því frv. sem væntanlega verður rætt hér á eftir.

Mér finnst fyrir mitt leyti, ef ég skil þessi tvö frv. rétt, á þeim vera ákaflega mikill munur og munur sem ég vil leyfa mér að vekja athygli á, þar sem það frv., sem hér er til umr. nú, gerir ekki, eftir því sem ég skil það, ráð fyrir að skerða þann eignarrétt sem fyrir hendi er á landsins gögnum og gæðum, nema þá að einhverju óverulegu leyti og þá helst þann eignarrétt sem umdeilanlegur er og umdeildur.

Það segir hér að eignarrétti skuli að öðru leyti skipað með lögum. M.ö.o. er ekki í þessu frv. till. um að taka eignarnámi allar lóðir og lendur, eins og er gert í frv. þeirra hv. Alþfl: manna sem hér liggur frammi á þskj. 65. Og er ég því algjörlega á móti. Ég fagna því að Alþb. og formaður þess skuli viðurkenna að það sé röng stefna að ríkisvaldið eigi allt land. Og ég vona að hv. Alþfl. sé ekki svo róttækur og svo sósíalíseraður að hann geti ekki hugsað sér að viðurkenna þetta nú a.m.k. þegar viðurkenningin liggur fyrir frá Alþb., sem hingað til hefur þó a.m.k. víða, eins og hv. formaður þess gat um, beitt sér einmitt sérstaklega fyrir því að allt land skyldi vera ríkiseign. En ég fagna því, að nú er það komið a.m.k. í ljós í þeirra augum, að slíkt fyrirkomulag sé óheppilegt, og að því er ekki stefnt í því frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér er til umr.

Auðvitað er alltaf ágreiningur hugsanlegur og fyrir hendi raunar um eignaraðild að landsins gögnum og gæðum, og það er út af fyrir sig eðlilegt. Ég held þó, að við Íslendingar, sem landið byggjum í dag, séum ákaflega vel settir að þessu leyti eins og er. Við búum í stóru landi, fámenn þjóð. Það ætti að gefa okkur hverjum um sig aukna möguleika til þess að njóta þeirra auðæfa, sem landið hefur að bjóða og fram að færa. Og ég sé ekki annað en það sé mjög auðvelt fyrir okkur að koma málum þannig fyrir, að við getum öll notið eðlilegrar útivistar og annarra lífsins gæða sem landið hefur að bjóða. Ég minnist þess, þegar hér var verið að setja lög um náttúruvernd, að þá hélt ég um þetta dálítinn ræðustúf sem ég ætla mér ekki að endurtaka, en vísa til ef einhver nennti að hugsa aftur í tímann og skoða það sem áður hefur verið sagt. En erindi mitt hingað að þessu sinni var fyrst og fremst að vekja athygli á þeim mikla mun sem er á þessum tveimur frumvörpum, og af þessum tveimur leiðum felli ég mig miklu betur við þá sem hér er til umr. Þar með vil ég auðvitað ekki fyrir fram lýsa því yfir að lítt athuguðu máli að ég sé samþykkur öllum ákvæðum frv. Það verður að koma í ljós við nánari athugun.