22.04.1978
Efri deild: 84. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3786 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

202. mál, embættisgengi kennara og skólastjóra

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um embættisgengi kennara var flutt í Nd. og hefur nú verið afgreitt þaðan með einni smávægilegri breytingu. Ég hef fyrir mína parta ekkert við þá breytingu að athuga og veit ekki betur en um hana sé fullt samkomulag.

Þegar ég mælti fyrir þessu frv. í Nd. gerði ég það með nokkuð ítarlegri ræðu. Hún liggur nú fyrir prentuð í Alþingistíðindum og vil ég að mestu leyti láta nægja að vísa til hennar og svo þeirra athugasemda sem þessu frv. fylgja. Ég vil aðeins geta þess, að það er langt síðan farið var að huga að því að setja lög um þetta efni. Strax 9. des. 1970 skipaði þáv. menntmrh. nefnd til þess að semja, eins og stendur í því bréfi, tillögur í frumvarpsformi um ákvæði varðandi skilyrði sem fullnægja þarf til þess að vera settur eða skipaður kennari við skyldunámsskóla og framhaldsskóla, þ. á m. menntaskóla og sérskóla.“ Þetta var sem sagt 1970. En á þessu árabili hafa orðið miklar breytingar, bæði á sviði löggjafar um grunnskóla og í sambandi við framhaldsskóla, og raunar hefur þar ýmsu verið breytt á þessu tímabili. Einnig hafa orðið breytingar á lögum um kennaramenntun. Allt þetta hefur valdið því, að menn hafa tekið sér góðan tíma til þess að vinna þetta mál og ekki flanað þar að neinu.

Ég vil enn fremur geta þess, að þegar komið var undir þinglok í fyrravor, þá lá á borði hjá okkur í rn. fullbúið frv. um þetta efni. Var þó horfið frá því að sýna frv. þá, því að við urðum vör við að um tiltekið atriði í frv. var uppi ágreiningur. Kennarasamtökin voru ekki ásátt með það. Þótti því rétt að taka þetta sérstaka atriði og þá um leið frv. í heild til nánari athugunar og hafa enn frekar samráð við kennarasamtökin en gert hafði verið fram að þeim tíma. Sumarið var svo notað í þetta, og ég tel að náðst hafi algjör samstaða um þetta frv. með menntmrn. og landssamtökum þeirra aðila sem hér eiga hlut að máli.

En sem sagt, ég vil leyfa mér að láta nægja að vísa til ræðu minnar, sem liggur fyrir prentuð, og athugasemda með frv. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmrn.