22.04.1978
Neðri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3799 í B-deild Alþingistíðinda. (2958)

294. mál, almannatryggingar

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. mælti fyrir frv. um almannatryggingar og er nú ekki seinna vænna að frv. komi fram, ef ætlast er til að það verði afgreitt á þeim dögum sem eftir eru þingsins. En mig langaði að vekja athygli á því í sambandi við þetta frv., að þar var minni hl. n. sem undirbjó það, með sérálit. Það kemur ekki fram í frv. og ég vildi vekja athygli á þeim atriðum, sem komu fram hjá þessum minni hl., eða nokkrum þeim atriðum.

Í fyrsta lagi er það í sambandi við 5. gr., í 2. mgr., þar sem er um í j-lið að borga beri óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúks manns. Þar gerir minni hl. nefndarinnar till. um að líka verði bætt við: eða konu í barnsnauð í sjúkrahús. Gerir minni hl. þá grein fyrir því, að þessi breyting sé nauðsynleg, þar sem orðin „sjúks manns“ hafi ætíð staðið í vegi fyrir því, að fæðandi konur nytu þessarar greiðslu, sem verður að teljast með öllu óviðunandi og bitnar harðast á fólki utan Reykjavíkur.

Í 6. gr., þar sem fjallað er um elli- og örorkulífeyrisþega í 5. lið, gerir minni hl. till. um að í staðinn fyrir 50% kostnaðar verði greidd 75% kostnaðar við allar tannviðgerðir fyrir þetta fólk og að sömuleiðis verði heimilt að hækka greiðslu fyrir langsjúkt fólk á stofnunum í 100%, en ekki í 75%, og í 100% verði með sama hætti heimilt að hækka greiðslur fyrir vangefna, sem metnir eru 75% öryrkjar og njóta fullrar tekjutryggingar, einnig vangefin börn er njóta örorkustyrks. Fyrir þessu gerir minni hl. grein svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Við teljum 44. gr. laga um almannatryggingar bera það með sér, að framtíðarmarkmið laganna sé að allir njóti ókeypis tannlæknisþjónustu. Þeir hópar, sem njóta hennar nú þegar, séu þeir hópar, sem mesta þörf hafi fyrir þátttöku sjúkratrygginga. Við teljum það því aðeins verjandi, að vanfærar konur séu nú teknar út úr lögunum, að annað beinna komi í staðinn. Við teljum okkur geta samþykkt að vanfærar konur falli brott að sinni, með þeim rökum fyrst og fremst, að nú á dögum telja sérfræðingar þeim ekki hættara við tannskemmdum en öðrum í þeirra aldurshópi. Við getum því sætt okkur við þessa breytingu, ef ellilífeyrisþegar, öryrkjar og vangefnir njóta þess fjár sem þarna sparast.

Við höfum fengið yfirlit um kostnað vegna tannlækninga á árinu 1976 og 1977 í einu sjúkrasamlagi, Sjúkrasamlagi Hafnarfjarðar, og þar kemur í ljós að kostnaðarliður vegna vanfærra kvenna er mun hærri en vegna þjónustu víð ellilífeyrisþega og öryrkja. Við teljum með öllu óeðlilegt að draga úr fjárveitingu vegna tannlæknakostnaðar í heild og gerum þess vegna áðurnefnda brtt.

Þeir, sem standa að þessu áliti minni hl., eru Bragi Guðmundsson tryggingalæknir, Guðrún Helgadóttir deildarstjóri og Steinunn Finnbogadóttir deildarstjóri. Vegna þess, sem fram kom hjá hæstv. ráðh. hér áðan, að þessar greiðslur til vanfærra kvenna mundu hafa verið misnotaðar þá vildi ég gera þá aths. og benda á að þetta hefur staðið svo stuttan tíma að af því hefur engan veginn fengist reynsla, hvort það hafi verið misnotað eða ekki, og í raun og veru er með öllu óeðlilegt að draga úr því sem þegar er komið.

Fyrst þetta frv. er nú loks komið fram, þá langar mig að geta þess varðandi annað frv., sem lagt var fram fyrr í vetur og ráðh. hefur sennilega gert grein fyrir þá, þ. e. a. s. frv. til l. um breyt. á lögum nr. 67 frá 1971. sem er 141. mál, að farið hefur verið fram á það við heilbr.- og trn. Nd., að hún fjallaði um bæði frv. saman. Þar er í rann og veru gert ráð fyrir miklu, miklu meiri breytingum en í því frv. sem liggur fyrir okkur núna, og að því er virðist mun þetta þýða það, að það tryggir fólk ekki sem áður að verulegu leyti. Þar er gert ráð fyrir að sjúkra- og slysatryggingar falli saman, og að því er virðist mun það ekki koma til með að tryggja fólk að verulegu leyti eins og slysatryggingarnar gera nú. Og ég vil gagnrýna að það skuli vera ætlast til þess að fjallað verði um jafnviðamikið mál á nokkrum dögum sem eftir eru af þinginu, því að það er alveg áreiðanlegt, að í sambandi við þetta eiga launþegasamtökin eftir að segja sín orð, ekki síst í sambandi við slys á vinnustað, sem hingað til hefur verið tryggt.

Eins vil ég benda á það í sambandi við örorkulífeyri og örorkustyrki, að samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að felldur verði niður réttur til örorkulífeyris á bilinu 50–75% örorku vegna slysa, en í stað þess verði greiddur örorkustyrkur í slíkum tilfellum. Ég vil benda á að það er mikill munur á því, hvort viðkomandi eigi lögákveðinn rétt á örorkulífeyri, án tillits til þess hvernig tekjum er háttað, eða hvort Tryggingastofnuninni er heimilt að veita örorkustyrk miðað við tekjur og aðstæður hverju sinni. Það er ljóst, að staða hins tryggða er mun lakari þegar ekki er um beinan lögvarinn rétt að ræða, heldur aðeins heimild almannatrygginga til greiðslu.

Ég vona að n. fái meiri tíma en þessa örfáu daga, sem eftir eru þings, til þess að fjalla um þessi frv. sem hér liggja bæði fyrir og hún á að fjalla um saman, að henni verði gefið ráðrúm til að leita umsagna launþegasamtakanna.