22.04.1978
Neðri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3804 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Hæstv. forseti. Það hafa orðið talsverðar umr. um þetta mál og er það fyllilega að vonum, svo stórt og þýðingarmikið mál sem hér er á ferðinni. Að mínum dómi hafa þessar umr. að mörgu leyti verið fróðlegar, en þær hafa ekki að sama skapi verðið merkilegar. Auðvitað var fróðlegt að hlusta á hv. 9. þm. Reykv. Gylfa Þ. Gíslason, segja sögu sína um það er hann reyndi að koma fram á Alþ. svipuðu máli eða næstum sama máli og hér liggur fyrir. Það var fróðlegt. En satt að segja fannst mér það ekki mjög mikið innlegg varðandi það sem ég tel vera aðalatriði þessa máls, þ. e. hina stóru spurningu, hvort hér er verið að hverfa að réttu ráði eða röngu, því að ég tel að hér sé verið að takast á við mikilvægt mál. Og á sama hátt vil ég segja að viðbrögð hæstv. viðskrh., formanns Framafl., voru líka að mínum dómi býsna fróðleg. En þau bættu ekki miklum röksemdum heldur við það sem áður var fram komið varðandi málið sjálft. Fróðlegt er líka að heyra að hv. þm. Magnús T. Ólafsson hefur frelsast jafnrækilega í þessum efnum og kom fram í máli hans. En það eru eflaust til skýringar á því með tilliti til tímans og allra aðstæðna. Ekki heyrði ég heldur mikið af rökum fyrir því, að hér væri um mál að ræða sem ætti að verða hinum almenna neytanda til góðs. Það er að vísu tekið fram, að það þurfi að hugsa um hag neytendanna, en þá átti að gera það með þeim hætti að hafa ekkert eftirlit á í þessum efnum og gefa þeim, sem hafa með þessi mál að gera, fullkomið frelsi til þess að verðleggja vöru og þjónustu. Það var allt. En þó að ég geti ekki neitað mér um það að víkja örlítið að máli hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar, og svörum hæstv. viðskrh., þá ætla ég samt að eyða aðalmáli mínum í það að ræða svolítið nánar um þetta yfirgripsmikla og alvarlega efni sem frv. fjallar um.

Það var virkilega fróðlegt að heyra hvernig hv. 9. þm. Reykv. Gylfi Gíslason, hefur hlaupið á milli manna og stofnana á sínum tíma árin 1969 og 1970 til að reyna að skáskjóta þessu frv. í gegnum þingið með einhverjum bellibrögðum. Hann vissi að hann gat ekki fengið eigin flokk til þess að styðja stjfrv., og þá tók hann að sér þetta sérkennilega ljósmóðurhlutverk, að reyna að útvega Sjálfstfl. það sem upp á vantaði fylgið til þess að hægt væri að koma frv. í gegn. Og þá varð hann fyrir þessum sáru vonbrigðum, búinn að fá loforð ýmissa framsóknarmanna, búinn að hlusta á þá og skilja hvað þeir hefðu góðan skilning á málinu, að þeir sviku hann í öllu. Og auðvitað varð hv. 9. þm. Reykv. þarna fyrir sárum vonbrigðum. Kom áberandi í ljós, að hann hefur virkilega orðið reiður við því að verða svikinn á þennan hátt af þeim framsóknarmönnum sem ætluðu þó að svíkja sinn eigin flokk, en hættu við á seinustu stundu (Gripið fram í.) Að lúta því? (Gripið fram í: Ég er framsóknarmaður.) Ég kem nú kannske að því síðar.

Ég held að ég skilji þetta hugarfar hv. 9. þm. Reykv. mætavel. Ég skil líka allvel þau viðbrögð sem fram koma hjá hv. formanni Framsfl. núna. af því að mér finnst hann vera í nokkuð svipaðri stöðu nú og hv. 9. þm. Reykv. var í þessa hörmungardaga 1969–1970. Sannleikurinn er auðvitað sá, að báðir eru þarna í spreng að vinna fyrir sæti sínu hjá íhaldinu í ríkisstj. Íhaldið hafði barist fyrir því að koma þessu máli fram. Það hefur ekkert verið að fara í launkofa með það í langan tíma, að þetta hefur verið stefnumál þess. Það hefur barist fyrir þessu. Það hefur ekki haft fylgi. Þegar hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, þjónaði íhaldinu tók hann auðvitað að sér að reyna að koma málinu í gegn með öllum mögulegum ráðum, jafnvel þó að Alþfl. vildi ekki samþykkja það. En sem sagt, hann hefur eflaust fengið takmarkað lof hjá Sjálfstfl. fyrir að geta ekki unnið verkið. Nú kemur svo Framsfl., þrátt fyrir alla fyrri afstöðu til þessara mála, allt sem framsóknarmenn hafa sagt o g gert, og ætlar að þjóna íhaldinu þannig að íhaldið skilji og geti metið þá á réttan hátt. Auðvitað vita allir að það er ekki stefna Framsfl. sem hér liggur fyrir. Þetta er öfugt við það sem Framsfl. hefur haldið fram um langan tíma. En þjónustuhlutverk Framsfl. leynir sér ekki í þessu máli. Nú er verið að reyna að búa í haginn til þess að geta fengið að vera áfram í samstarfinn við íhaldið. Menn verða að leggja eitthvað inn í búið. Og þá koma sárindin hjá form. Alþfl. upp: Ætlar Framsókn virkilega að kaupa sér sæti í næstu ríkisstj. hjá íhaldinu með því að koma þessu máli í gegn, sem Alþfl. gat ekki? Þá kemur fyrst gremjan upp í Alþfl. sem annars er tilbúinn til þess, a. m. k. hv. 9. þm. Reykv., að taka að sér að fara aðra leið til þess að reyna að koma þessu máli í gegn fyrir Sjálfstfl., ef bann mætti sitja í ríkisstj. fyrir.

Viðbrögð hæstv. viðskrh. Ólafs Jóhannessonar, formanns Framsfl., við þessari ádrepu 9. þm. Reykv. voru líka alveg eftir öllum þessum málavöxtum. Satt að segja hef ég ekki séð hann úrræðalausari nokkurn tíma áður hér í ræðustól heldur en þegar hann kom upp til þess að svara því sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hafði sagt. Ég hef aldrei séð formann Framsfl. jafnúrvinda og uppgefinn við að reyna að verja sinn málstað. Hann lagði auðvitað ekki í að neita því sem hann hafði sagt um þetta mál 1969 og 1970, það lá allt saman skriflegt fyrir, hvernig hann hafði þá metið málið og dæmt það. En hæstv. viðskrh. sagði að vísu, og það var leið út af fyrir sig út úr vandanum, að nú hefði hann bara skipt um skoðun, nú væri hann búinn að fá nýja skoðun, hann væri búinn að fá reynslu af því að vera viðskrh. og hann hefði lært af þeirri reynslu. Þó komu ekki mikil rök fram fyrir því, í hverju þessi reynsla hefði birst.

Hæstv. ráðh. reyndi þó að halda því fram, að þetta frv. hans væri svolítið á annan veg en það frv. sem hann hafði hin þungu orð um 1969 og 1970, þetta væri breytt. Ég tók eftir því, að hann lagði alveg sérstaka áherslu á það, að menn yrðu að taka tillit til þess að nú væri þó við það miðað, að þetta nýja skipulag ætti ekki að taka gildi fyrr en eftir 6 mánuði, þetta væri breyting. Hver er breytingin í þessum efnum? Í fyrra frv. var nefnilega ákveðið að það skyldi ekki taka gildi fyrr en eftir 12 mánuði. Það stóð í því frv. Það átti ekki að taka gildi fyrr en eftir 12 mánuði. Nú er það eftir 6 mánuði. Sér er nú hver hreytingin. Það var eðlilegt að hæstv. ráðh. legði á þetta mikla og þunga áherslu.

Hann sagði líka að nú væri ekki ætlunin að gefa verðlagninguna frjálsa nema að undangenginni rannsókn. Það stóð í gamla frv. Það stendur þar skýrum stöfum. Það má lesa það í því. Fara átti fram gaumgæfileg athugun á þessu alveg eins og nú. Enginn munur. Já, og svo sagði hæstv. ráðh. að tryggja ætti mönnum sanngjarnt verðlag. Það stendur líka í þessu frv., alveg nákvæmlega eins orðað í því gamla og því nýja. Það á að tryggja mönnum sanngjarnt verðlag. (Gripið fram í: Er nokkur á móti því?) Nei, það er enginn á móti því. En það er ekkert hald í gerviyfirlýsingum eins og þessum. Þær breyta engu.

Þessi dæmi, sem ég hef nefnt hér úr málflutningi hæstv. viðskrh., sýna glögglega að hann var gersamlega uppgefinn að reyna að verja málstað sinn í þessum efnum. Hann verður sem sagt að játa að nú hafi hann í þessum efnum allt aðra skoðun en hann hefur haldið fram áður og Framsfl. hefur lengst af stutt. Og auðvitað er skýringin einfaldlega þessi sem ég var að nefna. Þetta var eitt af kröfuatriðum Sjálfstfl. Hann hefur ýtt á eftir allan tímann Framsfl. er búinn, þrátt fyrir yfirlýsingar í þessa átt, að þvælast fyrir þessu allt kjörtímabilið. Hann ætlaði að koma sér hjá þessu og gera ekkert í málinu, af því að hann var hræddur við að taka upp þessa stefnu, en hann var bara á síðustu stundu rekinn til þess. Eflaust var látið skína greinilega í það, að nú væri síðasta tækifærið að vinna fyrir því að eiga kannske einhvern kost á því að komast í ríkisstj. með íhaldinu eftir kosningar og hann yrði a. m. k. að leggja þetta inn. Þetta er hin einfalda skýring sem er á því að Framsfl. lætur kengbeygja sig í þessu máli á þann hátt sem raun ber vitni um.

Það er rétt, sem hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, sagði hér, það er í rauninni alveg ömurlegt fyrir formann Framsfl. að þurfa að ganga þessa göngu sem hann gengur nú með tilliti til þess sem á undan er gengið. Það er alveg ömurlegt. En ég hef gefið mínar skýringar á því, hvernig á þessari uppgjöf stendur, því að mér dettur satt að segja ekki í hug að trúa því, að hæstv. viðskrh. eða Framsfl. hafi yfirleitt skipt um skoðun í þessu máli. Ég held að ef eitthvað annað kæmi upp á teningnum, þannig að það væri einhver annar, sem gæti gefið þeim kost á því að vera með sér í ríkisstj. upp á þveröfuga pólitík, þá gætu þeir líka tekið hann að sér alveg hiklaust. Það er ekki skoðunin sem þvælist fyrir framsóknarmönnum í þessum efnum, heldur hitt, að þeir gera ákveðinn kaupskap sem er í fullkominni andstöðu við yfirlýsta stefnu þeirra.

Það skyldi þó ekki vera, að hv. þm. Magnús T. Ólafsson væri eitthvað að reyna að klóra sig áfram á sömu braut þegar hann skiptir nú um skoðun á þennan hátt, hann haldi að það sé kannske helst einhverra atkv. von á þessum kantinum? Auðvitað kemur upp sú hugsun hjá mönnum þegar þeir hafa misst frá sér fylgi á hinum kantinum, að það kunni þá eitthvað að vera á öndverðum kanti. (Dómsmrh.: Kannske það sé bara afbrýðisemi hjá hv. þm.?) Ég veit ekki hvaða skýringar eru á þessu, en ég kem nú fram með þetta. Mér þykja þetta afskaplega líklegar skýringar á því, hvernig menn skipta um skoðun í jafnstóru og alvarlegu máli og þessu.

Í framhaldi af þessu langar mig nú samt til þess, þó að þér hafi ekki gefist mikið tækifæri til þess, að fá umr. um efni frv. sjálfs. Ég hafði þó gefið hér fullt tilefni til þess að það yrði rætt. Ég hafði sagt að afstaða mín og flokks míns til frv. miðaðist fyrst og fremst við það að taka stefnumarkandi afstöðu til málsins. Við flytjum ekki brtt. við einstakar greinar, vegna þess að hér er um það að ræða að hverfa frá tilteknu skipulagi í verðlagsmálum og taka upp annað skipulag. Og þetta annað skipulag miðar að því, eins og nú standa sakir, að gefa verslunarálagninguna frjálsa, en eldra skipulagið, þó að það hafi ekki að öllu leyti verið gott, miðaði að því að reyna að halda verðhækkunum í skefjum, reyna að komast af með eins litlar verðhækkanir og tök væru á. Til þess var starfandi ákveðin verðlagsnefnd og ákveðin stofnun. Auðvitað vita allir, að það er hrein fjarstæða að halda því fram, að þrátt fyrir það skipulag, sem við höfum búið við, þrátt fyrir þær lagareglur, sem þar hefur verið unnið eftir, gæti samkeppni ekki notið sín eigi að síður. Hér hefur fyrst og fremst verið um hámarksverð að ræða. Þeir, sem vilja draga til sín verslunina með því að reka hana á hagkvæman hátt, geta vitanlega selt á lægra verði og hafa gert það í vissum tilfellum. Það eru mörg dæmi um að slík samkeppni hefur sagt til sín. Samkeppni getur því þrifist þrátt fyrir það kerfi sem við höfum búið við.

Sumir hafa sagt að það kerfi, sem við höfum búið við, hafi leitt til þess, að innflytjendur hafi horfið að því ráði að kaupa vöruna fremur inn á háu verði til þess að geta fengið þeim mun hærri prósentuálagningu. En því hefur verið yfir lýst af verðlagsstjóra og verðlagsyfirvöldum, að þeir aðilar, sem keyptu vöru inn á hagstæðu verði, gætu einnig fengið að leggja á hærri álagningu en hin almenna gildandi prósenta. Þessar yfirlýsingar hafa legið fyrir. Þetta hefur verið hægt og þetta hefur verið notað í mörgum tilfellum, sagði verðlagsstjóri. Auðvitað truflar það ekki almenna samkeppni, þó að við búum við eftirlitskerfi sem lokar fyrir það að verðlag fái að rjúka upp á óeðlilegan hátt. Mönnum hefur hins vegar þótt þægilegt að nota þá blekkingu að halda því fram, að samkeppni mundi blómstra ef ekkert eftirlit væri, og þá kæmi út lægri álagning og lægra vöruverð. Og það er rétt, sem hér hefur komið fram í þessum umr. hjá fleirum en mér, að til eru nokkur dæmi um stóra vöruflokka sem á hefur verið fullkomið álagningarfrelsi um lengri eða skemmri tíma, og reynslan hefur þá sýnt, að álagningin hefur þotið upp frá því sem áður var og verðið hækkað, þrátt fyrir samkeppni. Þessum staðreyndum þýðir ekki að neita, þær liggja fyrir. Það er því síður en svo að það sé einhver trygging fyrir því, að með því að hverfa frá þessu eftirliti komi einhver dýrleg samkeppni sem tryggi lækkandi vöruverð. Auðvitað hefur íslenska verslunin nú að undanförnu ekki krafist þess út í bláinn jafnalmennt og menn vita, að hún yrði að fá og ætti að fá meira í sinn hlut en hún hefur fengið. Það væri alveg furðulegt, ef hún tæki ekki eitthvað meira fyrir sitt starf og þóknun í samræmi við kröfur sínar að undanförnu ef taumurinn yrði gefinn alveg laus. Hvernig var t. d. í sambandi við síðustu gengislækkun, þegar beitt var á nýjan leik 30%-reglunni? Hin almenna verslunarálagning var skorin niður með tilliti til verðbreytinganna sem fylgdu í kjölfar gengislækkunar. Verslunin mótmælti þessu harðlega. Dettur einhverjum í hug að þegar eftirlitið hefur verið gefið laust í þessum efnum, þá taki verslunin sér ekki hærri álagningu í þessu tilviki? Ég held að það detti engum manni í hug í alvöru, að afleiðingarnar af því að afnema það eftirlit, sem er í þessum efnum núna varðandi hámarksálagningu, leiði ekki til hækkandi álagningar og hækkandi vöruverðs, a. m. k. um einhvern tiltekinn tíma. Það getur vel verið að við eðlilegar kringumstæður jafnist þetta eitthvað út, þar sem samkeppnin virkilega segi til sín, en það hefur þá gert núna, þrátt fyrir það skipulag sem við höfum búið við í þeim greinum, þar sem þetta á virkilega við. Það er t. d. mín skoðun, að hér á Reykjavíkursvæðinu hafi það verið þannig nú um tíma varðandi hið almenna verð á matvörum í búðum í Reykjavík, að hámarksregluákvæðin, sem í gildi hafa verið, hafi aðeins verið eins og til öryggis, en að meginhluta til hafi sérstaklega þrír sterkir aðilar á matvörusviði, þ. e. a. s. Hagkaup, Sláturfélag Suðurlands og KRON, verslað með þessar vörur á þeim grundvelli. Samkeppnin hefur verið þannig, að verðið hefur í allmörgum tilvikum legið undir hinu leyfða hámarki. Þetta sýnir að núverandi reglur hamla engu í þessum efnum. En þær eru hafðar til öryggis og ráða ferðinni í þýðingarmiklum greinum, þar sem þessi samkeppni getur ekki við aðstæður okkar núna sagt til sín nema að litlu leyti. Þegar verðsveiflur eru miklar og tíðar, eins og er núna hjá okkur, þá gildir þessi samkeppni ekki nema takmarkað, þá er tiltölulega auðvelt að smeygja sér fram hjá henni. Einnig er okkar litli markaður þess eðlis, að við gætum tekið út allmarga vöruflokka þannig að þar yrði ekki um fullnægjandi samkeppni að ræða.

Ég hef einnig bent á, að landið er ekki aðeins Reykjavík. Til viðbótar koma fjöldamargir aðrir staðir víðs vegar um landið, þar sem er aðeins ein verslun svo að segja eða tiltölulega fáar verslanir. Þar er ekki til staðar það öryggi sem felst í harðri samkeppni. En eigi að síður er ætlunin, samkv. því sem hefur komið fram, að verði t. d. allt eftirlit með hámarksálagningu á matvörum gefið frjálst vegna þess að það eigi að vera samkeppni á Reykjavíkursvæðinu, þá eigi það einnig að vera frjálst úti um allt land — ekkert eftirlit.

Það er auðvitað ekkert annað en aumlegt yfirklór í þessum efnum að tala um að samkv. þessu frv. eigi að vera eitthvert öryggi fyrir neytendur í þeirri neytendavernd sem minnst er á í þessu frv. Þeir menn gera sig blátt áfram hlægilega sem reyna að tefla því fram, að það sé eitthvert öryggi fyrir hinn almenna neytanda að finna í þessu frv. Slíku er vitanlega ekki til að dreifa.

Ég hafði lagt á það nokkra áherslu í máli mínu að benda á hversu fráleitt það væri í sjálfu sér fyrir stjórnvöld að ætla að hverfa frá verðlagsákvörðunum og verðlagseftirliti við aðstæður eins og þær sem við búum við nú, á sama tíma og stjórnvöld telja að þau geti ekki einu sinni þolað frjálsa launasamninga. Hvaða samkvæmni er í því að halda því fram, að ástandið í verðlagsþróunarmálum og verðlagsmálum sé þannig, að ekki megi einu sinni þola það, að í gildi skuli vera frjálsir launasamningar, en það sé hins vegar möguleiki á því að gefa alla verslunarálagningu frjálsa? Það sjá auðvitað allir, að hér er um andstæður að ræða. Sannleikurinn er sá, að ef hér hefði átt að gilda það sem sambærilegt mætti kalla, þá hefði í rauninni átt að segja: Það er best að samningar um laun séu alveg frjálsir og seljendur vinnuafls séu þá alveg frjálsir að því, eins og þeir sem setja vörur og þjónustu, að ákveða þóknunina fyrir störf sín. — En ríkisstj. hefur talið að ástandið í verðlags- og verðþróunarmálum okkar væri þannig, að þarna þyrfti að grípa inn í. Ég sé ekki heldur hvaða rök eiga að vera fyrir því að gefa alla verslunarálagningu frjálsa, en neita t. d. bændum landsins um að ákveða einhliða verð á búvöru sinni. Hvers vegna ekki það? Af hverju eiga þeir að vera háðir einhverjum sérstökum dómi og þeim bannað að selja vöruna yfir tilteknu hámarki? Af hverju mega þeir þá ekki ákveða sitt sjálfir? Hví þá ekki að hafa í þessum efnum fullkomið frelsi án þess að stjórnvöld séu að grípa þarna inn í? Hví að vera með þetta barnapíusjónarmið sem hv. þm. Magnús Torfi talaði hér um? Hví er yfirleitt verið að líta eftir nokkru? Hví er verið með alla þessa stjórn að ofan? Hví ekki að gefa þetta allt saman laust?

Ég held að það sé enginn vafi á því, að við aðstæður eins og þær sem við búum við núna í verðlagsmálum okkar, þar sem hér er yfirleitt ríkjandi dýrtíð á hverju ári sem nemur í kringum 40%, þá sé algert lágmark að við höfum í gildi allstrangt verðlagseftirlit og reyndum með skynsamlegum reglum að setja hömlur á það, að þeir, sem hafa með vörur og þjónustu að gera, geti tekið óeðlilegan hlut sér til handa. Það er verulega mikil hætta á því, að ef slíkt yrði gert, þá yrði það til þess að verðlag hækkaði hér enn þá meir, það yki enn þá meira á vandann. En vissulega geta menn sagt í málum eins og þessum: Ég trúi á þetta og það er sjálfsagt að prófa sig þannig áfram. — Ég held líka að það sé enginn vafi á því, að þannig hefur verið ástatt hjá okkur í sambandi við framleiðslu á margvíslegum vörum, m. a. á innlendum iðnvarningi, að það hefur verið eðlilegt að þarna væri haft nokkurt eftirlit með hvernig verðlagningu yrði hagað. Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt við það sem er í ýmsum löndum í kringum okkur, sem menn eru að vitna til, þar sem eru ótalmargir framleiðendur í sömu greininni og einhver samkeppni getur verið þar til staðar sem er ekki til staðar hjá okkur. Og auðvitað sjá menn líka, að þegar búið er að taka stefnumarkandi ákvörðun um það að taka upp álagningarfrelsi, þá verða menn að fara út í flestar greinar. Þeim má ekki haldast það uppi að ætla að halda uppi einhverju verðákvörðunarkerfi í örfáum verslunargreinum, en sleppa öðrum frjálsum. Þetta gengur yfir allt, jafnvel þó að menn séu að afsaka sig í byrjun og segja að það eigi að hafa með þessu eftirlit.

Ég tók eftir því, að hæstv. viðskrh. fannst vera óeðlilega að því vikið af mér og fleirum, að breytt væri samkv. þessu frv. um skipulag verðlagsnefndar, þar sem hafði verið tekið áður verulegt tillit til aðila vinnumarkaðarins, þ. e. a. s. launþegasamtakanna annars vegar og atvinnurekendasamtaka hins vegar. Hæstv. viðskrh. komst að orði eitthvað á þá leið, að hann héldi að ekki þyrfti síður að taka tillit til hagsmuna neytenda en launþega. Þetta fannst mér afskaplega einkennilegur samanburður hjá honum, rétt eins og neytendurnir væru allt annar hópur en launþegarnir í landinu. Ætli leiki mikill vafi á því, að yfirgnæfandi meiri hluti neytendanna í landinu sé einmitt þessir sömu launþegar, sem hefur hingað til þótt sjálfsagt að taka talsvert mikið tillit til varðandi þessi mál? Auðvitað er það svo, að neytendur eru allir landsmenn. En það er reyndar enginn vafi á því, að eins og þetta kerfi er allt uppbyggt í sambandi við kaupmátt launa og verðlagsþróun, þá eru það einmitt þeir, þessir svonefndu aðilar vinnumarkaðarins, sem eiga mestra hagsmuna að gæta í því að reynt sé að hamla gegn öllum óeðlilegum verðhækkunum, neytendurnir eða launþegarnir sem neytendur, af því að þeir vita mætavel að fari þetta verðlag upp, þó að launin þeirra eigi að fylgja á eftir, þá verða af því alvarlegar efnahagslegar afleiðingar. Atvinnurekendurnir vita líka hvaða gildi þetta hefur. Því er fullkomlega eðlilegt að taka allmikið tillit til þessara aðila þegar unnið er á því sviði að hafa uppi eftirlit og verðlagshömlur. Ef menn eru á þeirri skoðun að hverfa frá þessu, þá geta þeir tekið upp kerfi sem byggist á því að Hæstiréttur tilnefni svo og svo marga menn, vegna þess að það er alltaf þægilegt að halda því fram að menn, sem Hæstiréttur tilnefnir, séu hlutlausir og sanngjarnir og hafnir yfir öll átök í þjóðfélaginu, þótt þeir séu það auðvitað aldrei. Þeir hafa sínar föstu skoðanir, slíkir fulltrúar, það sést alls staðar í gegn í kerfinu. Og ég er ansi hræddur um að dómur einhverra slíkra aðila í þessu tilviki þyki ekki mjög merkilegur einmitt fyrir fulltrúa vinnumarkaðarins og þá sérstaklega fyrir fulltrúa launastéttanna.

Mín afstaða til þessa máls er sú, að ég tel, eins og ég hef sagt hér áður, að aðalefni frv. sé það sama og var efni gamla frv. frá 1969–1970, aðalefni þessa frv. sé að finna í III. kafla frv., um verðlagsákvarðanir. Þar er verið að móta nýja stefnu. Þó að menn hafi verið að hræra saman við þetta frv. nokkrum mjög ómerkilegum greinum varðandi neytendavernd og eftirlit í sambandi við samkeppnishömlur, þá segir það ekki nokkurn skapaðan hlut miðað við okkar aðstæður. Þetta breytir engu um megininntak málsins. Mér sýnist hins vegar að þetta frv., sú stefnuákvörðun, sem felst í þessu frv., sé á ýmsan hátt í samræmi við þá stefnu sem hefur verið að koma betur og betur í ljós hjá núv. hæstv. ríkisstj. Stefnumörkunin miðar að því að segja: Það skulu gilda allt aðrar reglur gagnvart kaupsýslumönnum og þeim aðilum, sem hafa hagsmuna að gæta í sambandi t. d. við verslunarálagningu, þar skulu gilda allt önnur lögmál en eiga að gilda gagnvart launamönnum almennt í landinu. Þar þurfa að gilda allt önnur lögmál. Það á að taka á þeirra málum með öðrum hætti. — En ég er hræddur um, að afleiðingarnar af þeirri stefnu verði ekki heillavænlegar fyrir okkur. Þær munu hreinlega leiða til þess, að hin mikla verðbólga okkar verði enn þá óviðráðanlegri en hún hefur verið og átökin á vinnumarkaði, sem munu sækja í kjölfarið, verði tíðari og alvarlegri en þau hafa verið. Og það er vegna þessa, sem ég er á móti þessu frv.

Ég hef leyft mér að koma með skýringar mínar á því, hvernig stendur á þeim mikla áhuga, sem var og enn þá eimir eftir af hjá hv. 9. þm. Reykv., og hvernig stendur á þessum nýja áhuga þeirra framsóknarmanna, hvaða ástæður liggi til þess arna. Þeir geta átt sínar skýringar. Við höfum heyrt skýringar frá formanni flokksins, en þær voru að mínum dómi ekki upp á marga fiska. Þær voru ekkert annað en að játa það, að þetta frv., sem Ólafur Jóhannesson flytur nú, er gamla frv. hans Gylfa Þ. Gíslasonar og viðreisnarstjórnarinnar. Það er enginn munur á þeim, nema ómerkilegur á yfirborðinu varðandi nokkrar smágreinar.