22.04.1978
Neðri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég verð að gera nokkrar mjög eindregnar aths. við ræðu hæstv. viðskrh. um daginn. Eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson vakti raunar rækilega athygli á hér áðan, þá voru andmæli hans með því aumasta sem ég minnist frá síðari árum í þessum þingsölum. Málflutningur hans og frammistaða öll efnislega séð var klaufaleg, enda kannske ekki við öðru að búast. Mun ég nú víkja nokkru nánar að nokkrum atriðum í því sem hann sagði.

Hann lét svo sem ég hefði verið að finna að því, að hann hefði aðra skoðun en hann hefði haft veturinn 1969–1970. Ég sagði ekki eitt orð í þá veru. Hann lagði á það mikla áherslu, að það væri einkenni mikilla stjórnmálamanna að geta skipt um skoðun, og því er ég algerlega sammála. Ég lái honum það alls ekki, hafi hann raunverulega skipt um skoðun síðan 1969–1970. Hitt mundi ég frekar vilja segja, að ég vildi óska þess, að hann skipti um næstum allar skoðanir sem hann hafði þá, og fyrir það mundi ég meta hann verulega. En því er nú því miður ekki að heilsa. Sem sagt, ég endurtek: ég sagði ekki eitt orð í þá átt, að það væri ámælisvert að skipta um skoðun eða læra af reynslunni.

Það, sem ég deildi á, var hitt, hvernig að málinn var staðið veturinn 1969–1970 af hálfu Framsfl. Það var gert ljóst áður en málið var lagt fram og tekið skýrt fram af hálfu frsm. fjh.- og viðskn. Ed. í frumræðu hans þá, löngu áður en nokkur atkvgr. fór fram, að í Alþfl. væri ekki einhugur um þetta mál, að tveir af þrem þm. Alþfl. í Ed. væru málinu fylgjandi, en einn væri því andvígur, eins og einnig kom fram í atkvgr. Þetta þurfti engum að koma á óvart þegar til atkvgr. kom. Hæstv. viðskrh. fann mjög að því, að ég skyldi hafa rifjað upp þessa sögu, söguna um það, hvernig afstaða einstakra þm. Framsfl. breyttist frá því að nefndin, sem samdi frv., lauk störfum og þangað til að endanlegri afgreiðslu kom. Ef skilja ber ummæli hæstv. viðskrh. um þetta efni ræðunnar þannig, að afstaða þm. Framsfl. hafi frá því að nefndin, sem samdi frv., lauk störfum verið eins og hún reyndist við atkvgr. í Ed., að allir þm. Framsfl. hafi frá upphafi verið andvígir frv., þá segir hann vísvitandi ósatt. Ég segi það aftur: Ef skilja ber ummæli hans þannig, að afstaða allra þm. Framsfl. hafi frá því að nefndin sendi frv. frá sér og það varð opinbert plagg verið eins og reyndist við atkvgr., þá er um vísvitandi ósannindi að ræða. Hann vissi það og veit enn í dag nákvæmlega eins vel og ég, að ýmsir þm. Framsfl. vorn málinu fylgjandi veturinn 1969–1970, en greiddu samt atkv. gegn því af ástæðum sem ég skal engum getum að leiða hverjar voru. En þess vegna sagði ég þessa sögu, að ég tel hér hafa verið um að ræða mjög ógeðfellda pólitíska refskák og skýrt dæmi, skóladæmi um ódrengilega taflmennsku í stjórnmálum. Þess vegna sagði ég söguna.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri einsdæmi, að frv. væri flutt sem stjfrv. og hefði ekki stuðning eins ráðh. Það er fjarri því, að slíkt sé einsdæmi. Í því sambandi skal ég láta mér nægja að vitna til hans og hv. síðasta ræðumanns, sem voru samráðh. í síðustu ríkisstj. Það þarf væntanlega ekki að minna þing eða þjóð á það, þegar hæstv. núv. viðskrh. og fyrrv. forsrh. gerði samning í landhelgismálinu í Lundúnum um vissa lausn á landhelgismálinu, og það þarf ekki að minna á það, að samráðh. hans, hv. þm. Lúðvík Jósepsson, lýsti því yfir meðan forsrh. var enn í Lundúnum, að hann væri ósammála samkomulaginu, hann væri algerlega andvígur samkomulaginu, þó að mál skipuðust hins vegar þannig að hann greiddi atkv. með því þegar það kom til endanlegrar atkvgr. hér á þingi, með vissum fyrirvörum þó, ef ég man rétt. En það er ekki lengra síðan en þetta, að ráðh. í ríkisstj. reyndust vera algerlega ósammála um mál sem er margfalt mikilvægara, margfalt þýðingarmeira en það sem hér er um að ræða eða var um að ræða fyrir 7–8 árum.

Að það sé einhver ný bóla, að þingflokkar séu ekki innbyrðis sammála um mál, er sama fjarstæðan. Í því sambandi skal ég aðeins minna á hans eigin flokk og vitna þar aftur til utanríkismála, miklu, miklu mikilvægari heldur en það sem hér er um að ræða. Ég minni á afstöðuna til Keflavíkursamningsins 1946, þar sem þm. Framsfl. voru á öndverðum meiði, þar sem flokkurinn var klofinn. Ég minni á afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins 1949, þar sem þingflokkur Framsfl. var klofinn. Og hverjum dettur í hug að bera mikilvægi þessa máls þá og nú saman við stærstu sporin sem stigin hafa verið í utanríkismálum þjóðarinnar síðan við fengum sjálfsforræði, sem var Keflavíkursamningurinn annars vegar og aðild að Atlantshafsbandalaginu hins vegar? Í þessum stórmálum var þingflokkur Framsfl. klofinn, svo að ekki þýðir að benda á það sem eitthvað alveg sérstakt þó þingflokkur Alþfl. hafi ekki verið á einu máli um afstöðuna til þessa máls á þinginu 1969–1970 og sé það ekki heldur í dag.

Þá gerði hv. þm. talsvert úr því, að þetta frv. væri ekki eins og frv. frá 1969–1970. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur gert skýra grein fyrir því, að frv. eru nákvæmlega eins að því er snertir verðlagsákvæði og samkeppnishömlur. Ég tók það fram, að þessi ákvæði um verðlag og samkeppnishömlur væru eins og ákvæði gamla frv. Ég lét þess getið þegar í minni ræðu, að það væri nýr kafli í frv. sem ekki hefði verið í hinu, um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd, sem ég út af fyrir sig tel til bóta, það tók ég skýrt fram. Hitt stendur auðvitað algerlega óhaggað, að öll meginatriði frv. um verðlag og samkeppnishömlur eru nákvæmlega hin sömu. Hæstv. ráðh. var meira að segja svo óheppinn eða réttara sagt seinheppinn að benda á það sem sérstakt við þetta frv., að það ætti ekki að taka gildi fyrr en eftir 6 mánuði. Hann var búinn að gleyma því, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson mundi, að hitt frv. átti ekki að taka gildi fyrr en eftir 12 mánuði. Sér er nú hver munurinn! En til að taka af öll tvímæli um þetta þarf ekki að lengja málið mjög mikið. Er best að það fari ekkert á milli mála og ég lesi örfáar setningar úr báðum frv. til þess að menn sjái svart á hvítu hvorir hafi rétt fyrir sér, ég og hv. þm. Lúðvík Jósepsson annars vegar eða hæstv. viðskrh. hins vegar, með leyfi hæstv. forseta.

Í 1. gr. er venjulega fjallað um meginmarkmið frv. hún hljóðar svona í nýja frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Lög þessi hafa það markmið að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins og sanngjarnri skiptingu þjóðartekna með því að

a. vinna gegn ósanngjörnu verði og viðskiptaháttum,

b. vinna gegn óréttmætum viðskipta- og samkeppnisháttum svo og samkeppnishömlum, sem hafa í för með sér skaðlegar afleiðingar fyrir neytendur, atvinnurekendur eða þjóðfélagið í heild.“

Hvernig skyldi 1. gr. gamla frv. hafa hljóðað? „Lög þessi hafa það markmið að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins og sanngjarnri skiptingu þjóðartekna með því að

a. stuðla að þjóðfélagslega heppilegri verðlagsþróun og vinna gegn ósanngjörnu verði, hagnaði og viðskiptaháttum,

b. vinna gegn óbilgjörnum verslunar- og samkeppnisháttum svo og samkeppnishömlum, sem hafa í för með sér skaðlegar afleiðingar fyrir neytendur, atvinnurekendur eða þjóðfélagið í heild.“

1. gr. í nýja frv. er uppprentun á 1. gr. í fyrra frv„ Hvað skyldi vera það fyrsta sem sagt er um verðákvarðanirnar í III. kafla í nýja frv.? Munurinn er sá einn, að í nýja frv. er bætt við einni setningu. Að öðru leyti er greinin uppprentun á því gamla, eins og sést á því sem ég nú leyfi mér að lesa. Hún er örstutt. Greinin byrjar svona:

„Þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag skal verðlagning vera frjáls.“ Þetta stóð ekki í gamla frv. — „Nú hefur verðlagning verið gefin frjáls og getur verðlagsstofnun þá skyldað hlutaðeigandi aðila til að tilkynna stofnuninni verðhækkanir.“

Svo heldur áfram bein uppprentun úr gamla frv.: „Reynist samkeppni takmörkuð, eins og nánar er tilgreint í IV. kafla, eða samkeppni er ekki nægileg til að tryggja sanngjarnt verðlag eða horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar, getur verðlagsráð ákveðið eftirtaldar aðgerðir til að ná því marki, sem getur í 1. gr.:

1. Hámarksverð og hámarksálagningu.

2. Gerð verðútreikninga eftir nánar ákveðnum reglum.

3. Verðstöðvun í allt að sex mánuði í senn.

4. Aðrar reglur um verðlagningu og viðskiptakjör, sem verðlagsráð telur nauðsynlegar hverju sinni.“

Hvernig var gamla greinin?

„Þegar samkeppni er takmörkuð, eins og nánar er tilgreint í IV. kafla, eða samkeppni er ekki nægilega virk til að tryggja sanngjarnt verðlag, eða horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar, getur verðgæsluráð ákveðið eftirtaldar aðgerðir til að ná því marki, er greinir í 1. gr.:

1. Hámarksverð og/eða hámarksálagningu.

2. Gerð verðútreikninga eftir nánar ákveðnum reglum.

3. Verðstöðvun á vissum sviðum, allt að sex mánuði í senn.

4. Reglur um flokkun, sundurgreiningu o. þ. h. á vörum, sem nauðsynlegar þykja vegna ákvörðunar verðs og álagningar.“

Nákvæmlega sama orðalagið meira að segja. Ekki aðeins efnið eins, heldur nákvæmlega sama orðalag.

Og þriðja greinin, sem ég vil nefna, er upphaf kaflans um samkeppnishömlur — upphaf þess kafla sem hæstv. ráðh. fór sem háðulegustum orðum um fyrir 7–8 árum í ræðu sinni á þinginu þá. Þar segir núna, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því skyni að stuðla að þeim markmiðum, sem greinir í 1. gr., hefur verðlagsstofnun eftirlit með fyrirækjum, sem eru ráðandi á markaðnum, og ákvörðunum, sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Eftirlitið tekur og til samninga og samþykkta um samkeppnishömlur: `

Í gamla frv. segir, — nákvæmlega sama orðalagið :

„Í því skyni að stuðla að þeim markmiðum, sem greinir í 1. gr., hefur verðgæsluskrifstofan eftirlit með einokunarfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum, sem eru mikilsráðandi á markaðnum, og ákvörðunum, sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Eftirlitið tekur og til samninga og samþykkta um samkeppnishömlur.“

Ég hirði ekki um að lesa meira. Ég hef lesið úr þremur mikilvægustu greinum frv. og þar með tekið af öll tvímæli um það, að hér er efnislega séð um nákvæmlega sama frv. að ræða að því er snertir verðlagseftirlit og samkeppnishömlur og það, sem hæstv. núv. viðskrh. hafði forustu um fyrir 7–8 árum að var fellt. Það er þetta sem ég leyfði mér í ræðu minni um daginn að kalla einsdæmi, að það skyldi gerast að heill flokkur, látum vera að slíkt eigi við um einn mann eða einhvern hóp af mönnum, en að heill stjórnmálaflokkur, aðalflokkur stjórnarandstöðu, skyldi á einum tíma beita sér gegn því, að tiltekið frv. næði fram að ganga, með mjög sérkennilegum hætti, þegar allir, sem vildu vita það, vissu að ýmsir þm. frv. vildu styðja frv. Samt sem áður er knúið fram að flokkurinn sem heild beitir sér gegn því og kemur því til leiðar að það fellur. En það gerist síðan 7–8 árum síðar að sami forustumaður sama flokks flytur þetta sama frv. Þetta er einsdæmi í þingsögunni. Þess vegna þótti mér og þykir enn full ástæða til þess, að þessi saga varðveitist vel í þskj.