24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

170. mál, Þjóðleikhús

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er sú, að hv. 5. þm. Norðurl. v. gat um fyrirkomulag það sem Reykjavíkurborg hefði samþykkt á stjórn væntanlegs borgarleikhúss, það væri til fyrirmyndar og eftir því ætti að fara í ráðstöfun á stjórnunarþættinum í Þjóðleikhúsinu. Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að ekki eru allir borgarfulltrúar sammála um ágæti þess fyrirkomulags sem þar var samþykkt, og ætla að leyfa mér að vona að sömu mistök eigi sér ekki stað á Alþ. hvað skipan stjórnar á Þjóðleikhúsinu snertir. Ég vil upplýsa hv. þm. um að Leikfélag Reykjavíkur er nú að segja má alfarið á launaskrá Reykjavíkurborgar og leikurum þess greitt eftir launasamningum starfsmanna Reykjavíkurborgar og skipt á sama hátt í launaflokka. Borgin útvegar Leikfélaginu peninga til að standa undir þeim launum án þess þó að leikararnir séu taldir til borgarstarfsmanna.

Á sama hátt vil ég upplýsa að það er rétt, að leikarar og stjórnendur Leikfélags Reykjavíkur hafa alfarið öll ráð í sínum höndum um væntanlegt borgarleikhús. Þrátt fyrir allan kostnað — ég segi: allan kostnað, þó að Leikfélagið geti skrapað saman nokkra milljónatugi til þátttöku í kostnaði við að koma upp borgarleikhúsi, þá er það lítill dropi í hafið þegar hugsað er í þúsundum milljóna — má segja að Reykjavíkurborg hafi afskaplega lítil áhrif á stjórn borgarleikhússins þegar þar að kemur.

En ef við lítum á Leikfélag Reykjavíkur og hvað við erum að gera, hvar hafa þá mistökin verið gerð? Leikfélag Reykjavíkur er sjálfseignarstofnun sem ákveður sjálf hverjir stjórna og hverjir eiga Leikfélag Reykjavíkur hverju sinni. Síðast þegar ég vissi var búið að þrengja þann hóp og var hann rúmlega 100, ef ég man rétt, en var áður um 200. Þetta er sjálfseignarstofnun þeirra sem starfa hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Reykjavíkurborg er að afhenda mannvirki upp á þúsundir milljóna sem fyrirsjáanlegt er að verður mikill baggi á borgarbúum þegar reksturinn bætist ofan á byggingarkostnaðinn. Ég held því að það hafi verið mikil mistök, þegar Reykjavík afhenti Leikfélagi Reykjavíkur þetta væntanlega borgarleikhús til rekstrar. Ég álít það líka mikil mistök, að borgarleikhúsið skyldi byggt svo stórt sem það væntanlega verður, en það verður ekki minna en Þjóðleikhúsið. Þar með má búast við að álíka mikill kostnaður falli á Reykjavíkurborg og nú fellur á ríkið varðandi rekstur Þjóðleikhússins, og tvö slík leikhús í Reykjavík eru að mínu mati of mikið. En sem sagt, það er allt annað rekstrarfyrirkomulag á borgarleikhúsi. Það má segja að Reykjavíkurborg hafi verið að afhenda þarna tiltölulega fámennum hópi 1000 millj. kr. verðmæti til rekstrar og afnota að eigin vild.