24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3828 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

170. mál, Þjóðleikhús

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Vegna fjarveru minnar af þingi síðustu tvær vikurnar gat ég ekki tekið þátt í endanlegri afgreiðslu menntmn. á þessu frv. til l. um Þjóðleikhús. Ég sat hins vegar fyrstu fundi n. um þetta mál, m. a. fund sem fulltrúar starfsmanna Þjóðleikhússins mættu á og einnig þjóðleikhússtjóri. Ég vil láta það koma hér fram, að ég tel að ýmsar þær brtt., sem starfsliðið flutti n. á þeim fundi hafði gert skriflega áður og gerði grein fyrir munnlega á fundinum — eigi mikinn rétt á sér. Ég lít sérstaklega svo á, að það sé eðlilegt og þýðingarmikið, að starfsliðið fái aukna aðild a. m. k. að vissum þáttum í stjórn Þjóðleikhússins, og á ég þar sérstaklega við efnisval og aðra þá þætti sem koma beint við starfi þess. Því vildi ég freista þess, hvort ekki mætti samræma þau sjónarmið, sem fram koma í frv., og þau, sem starfsliðið hefur gert grein fyrir. Því miður hefur n. ekki treyst sér til að gera það, talið tímann of stuttan til þess að það mætti takast.

Ég tek undir það, sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að mikilvægt er að koma þessu máli fram. Það er að mínu mati áreiðanlega til bóta þótt það verði samþykkt óbreytt, enda varla skammlaust lengur að láta svona mál koma aftur og aftur fyrir þingið ár eftir ár og hljóta ekki afgreiðslu.

Ég vil segja um þær brtt., sem hér liggja fyrir frá hv. þm. Ragnari Arnalds að þær eru mjög í anda þeirra brtt. sem starfsfólkið flutti okkur. Hins vegar hefur mér ekki gefist tækifæri til að athuga þær og frv. eins og ég hefði viljað vegna fjarveru minnar af þingi. Ég treysti mér því ekki til að taka afstöðu með þessum brtt.

Ég vil taka það fram, að sérstaklega tel ég æskilegt, eins og ég sagði áðan, að starfsliðið fái aukna aðild að þjóðleikhúsráði eins og gert er ráð fyrir í 2. brtt. hv. þm. Hins vegar hygg ég að vissir þættir í stjórn Þjóðleikhússins séu þannig, að eðlilegt sé að alþingiskosnir fulltrúar hafi þar lokaorðið, en mér sýnist það ekki tryggt með brtt. eins og hún er orðuð. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu á 2. brtt. hv. þm., en vildi sem sagt láta þetta koma fram, að það stafar, eins og ég sagði, af því að ég hef ekki getað tekið þátt í störfum n. síðustu tvær vikurnar og geri mér ekki fyllilega grein fyrir því, á hvern máta þessi mál þyrfti að afgreiða. Hins vegar tek ég undir það, sem komið hefur fram, að málið þarf að afgreiða á þessu þingi.