24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3829 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

170. mál, Þjóðleikhús

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það eru tvö atriði, sem ég vil fjalla aftur um.

Í fyrsta lagi vil ég taka það skýrt fram, að þó að í till. minni sé gert ráð fyrir því, að orðalag 3. gr. sé á þann veg að árlega skuli flytja óperur, þá felst ekki í því að óhjákvæmilegt sé að setja upp með venjulegum hætti og flytja sem leikhúsverk fleiri en eina óperu á hverju leikári. Eins og á var bent við umr. um þetta mál í menntmn. af fulltrúum söngvara, þá er vel hægt að flytja óperur án þess að um sé að ræða beina sviðsetningu. Og það er einmitt það sem hér er verið að leggja áherslu á. Því er að sjálfsögðu haldið opnu, hvernig fyrirkomulag yrði á þessu, en áhersla lögð á að Þjóðleikhúsið beiti sér fyrir flutningi með einum eða öðrum hætti á fleiri en einu söngverki, einkum með hliðsjón af því, að meðal listflytjenda eru söngvarar bersýnilega mjög afskiptir í dag og ekki hægt að benda á neinn sambærilegan hóp listflytjenda sem í reynd er jafnafskiptur í menntalífi okkar og söngvarar eru. Það er sýnt að engin stofnun er fær um að bæta úr þessu önnur en Þjóðleikhúsið, a. m. k. meðan ekki hefur verið komið hér á fót sérstakri óperu, sem sjálfsagt á langt í land. Því sýnist óhjákvæmilegt að leggja auknar skyldur á Þjóðleikhúsið að þessu leyti. Ég held hins vegar að með þessu væri ekki verið að stofna til óhæfilegs kostnaðar, vegna þess, eins og ég var áðan að segja, að unnt er að flytja óperur á tiltölulega kostnaðarlítinn hátt án þess að um neina sviðsetningu sé að ræða.

Varðandi hitt atriðið, sem hér hefur dálítið verið til umr., um skipan þjóðleikhúsráðsins, þá vil ég þakka hv. þm. Albert Guðmundssyni fyrir þær upplýsingar sem hann gaf um væntanlega starfsemi borgarleikhússins. Mér fannst satt best að segja að hann gerði ekki annað en staðfesta það sem ég hafði þegar sagt um það efni, að í væntanlegu borgarleikhúsi verður um það að ræða. að starfsmennirnir hafa stjórn leikhússins á hendi. Þó að það sé út af fyrir sig rétt hjá hv. þm., að skipulag þessara tveggja stofnana er ekki með nákvæmlega sama hætti — annað byggist á margra áratuga hefð Leikfélags Reykjavíkur meðan hitt er ríkisleikhús þá breytir það ekki því, að óhjákvæmilegt og eðlilegt er að ganga til móts við auknar kröfur um aukinn íhlutunarrétt starfsmanna, alveg sérstaklega á sviði eins og þessu. Og ef þetta verður ekki gert í sambandi við rekstur Þjóðleikhússins, þá fer ekkert milli mála að rekstur þess verður langt á eftir tímanum miðað við fyrirkomulag þessara mála í öllum nálægum löndum.

Satt best að segja skil ég ekki hvers vegna menn telja að ekki geti komið til greina að leikarar eða starfsmenn eigi nema einn mann af 5 í þjóðleikhúsráði. Það getur vel verið, að auðveldara væri að ná samkomulagi um till. sem gengi eitthvað skemmra en mín till. gerir, sem þó gengur enn skemmra en till. starfsmanna Þjóðleikhússins. En mér er ógerningur að skilja hvers vegna ekki er unnt að ganga að neinu leyti til móts við þessar sjálfsögðu kröfur og hvers vegna mönnum finnst óhjákvæmilegt og sjálfsagt að stærstu þingflokkarnir eigi fulltrúa í þjóðleikhúsráði. Ekki veit ég til þess, að þingflokkarnir eigi fulltrúa í stjórn Listasafns ríkisins. Ekki veit ég til þess, að þingflokkarnir eigi fulltrúa í stjórn Sinfóníuhljómsveitar. Það eru fjöldamargar menntastofnanir þar sem alþm. eiga ekki sæti. Ég sé ekki að Þjóðleikhús sé á einn eða neinn hátt þess eðlis, að óhjákvæmilegt sé að fulltrúar þingflokkanna eigi þar sæti. Ég held að þeir eigi einfaldlega þaðan að víkja, það sé tímaskekkja — anakrónismi — að halda þeim þar inni, þó að mönnum hafi kannske fundist þetta eðlilegt og sjálfsagt fyrir 30 árum. Ég vil biðja menn að íhuga það vandlega, hvort þeir geta ekki fylgt brtt. minni eða eru reiðubúnir að styðja einhverja aðra brtt. um þetta efni sem samkomulag gæti tekist um.