24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3830 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

170. mál, Þjóðleikhús

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það er orðið æðilangt síðan ég hef átt sæti í menntmn. þessarar hv. d., en sú var þó einu sinni tíðin, og m. a. vegna þess hef ég ekki átt kost á því að kynna mér, sjá eða heyra — fyrr en þá núna — þær brtt. sem félag leikara og annarra starfsmanna Þjóðleikhúss hefur komið á framfæri. að mér skilst við menntmn. þessarar hv. deildar, við það frv. sem hér greinir. Og sumpart vegna fáfræði er ég kominn hér í þennan ræðustól til að biðja þá, sem betur vita, um leiðbeiningar áður en gengið er til atkv. um þetta mál, sem vissulega er þýðingarmikið.

Ég held að mér sé alveg óhætt að segja, að ég sé mjög mikill unnandi og aðdáandi óperutónlistar, og vonandi eru það fleiri hér. Þess vegna er það alls ekki ætlun mín að mæla gegn því, að slíkt verði flutt. Þvert á móti vil ég mjög gjarnan stuð]a að því, að svo geti orðið. En það fyrsta, sem ég skil ekki í sambandi við þetta frv. og þá þær brtt. sem hér eru fluttar, er það, að í aths. við lagafrv. segir að óperuflutningur og listdans sé þegar að lögum meðal verkefna Þjóðleikhússins. Svo segir: „og hefur verið meira og minna sinnt eftir því sem ástæður hafa leyft.“

Nú hef ég lesið lög um Þjóðleikhús og er með þau hér fyrir framan mig. Ég get ekki fundið í þeim að það sé skylda að flytja óperu, ekki eina, hvað þá heldur fleiri. Ef þetta er misskilningur hjá mér, þá vænti ég þess, að þeir, sem um þessi mál hafa fjallað nú síðustu daga og raunar síðustu ár, því að þetta er ekki nýtt frv., þetta er víst í fjórða skipti sem það er flutt, upplýsi það áður en til atkv. verður gengið. Ég tel það nefnilega stórkostlegan ávinning frá núgildandi lögum, að það skuli vera lögbundið að ein ópera verði flutt árlega í Þjóðleikhúsinu. Það hefur mikið skort á það undanfarin ár, það vitum við hest sem þess höfum saknað. Og ef hægt er að lögbjóða það, þó ekki væri nema að ein einasta ópera yrði sýnd á hverjum vetri, þá teldi ég það, miðað við lögin eins og ég þekki þau og miðað við það ástand, sem verið hefur mörg undanfarin ár, stórkostlegan ávinning, því að það er viðburður hér og sætir tíðindum ef færð er upp ópera. Núna er þó flutt óperetta og er stór bót í máli, en ekki jafnast það þó á við óperuflutning, það get ég a. m. k. ekki fallist á. Ég er nefnilega dálítið hræddur um það, miðað við það sem hér hefur gerst undanfarin ár, að erfitt verði að standa við það ákvæði laganna, að það skuli fluttar óperur, að það sé undantekningarlaust lögbrot ef ekki verða fluttar a. m. k. tvær óperur á hverjum vetri. Og lög, sem að mínu mati er svona erfitt að standa við, vil ég ógjarnan samþykkja. Hins vegar vil ég mjög gjarnan lögfesta að það verði flutt a. m. k. ein ópera á hverjum vetri, og samkv. mínum skilningi er engan veginn útilokað að flytja 5 óperur eða 10 óperur á ári þó að lagagreinin verði höfð eins og frv. gerir ráð fyrir.

Mér leikur forvitni á að vita hvernig þessum málum er nú fyrir komið, hvort óperuflutningur er þegar að lögum meðal verkefna Þjóðleikhússins, því að þá hafa þau lög nefnilega verið þverbrotin mörg undanfarin ár. Væri þá ekki kominn tími til þess fyrir hv. Alþ. a sjá til þess — svona til að byrja með — að gildandi lög væru virt, áður en frekari byrðar eða skyldur væru lagðar á Þjóðleikhúsið í þessum efnum, sem það hefur ekki reynst megnugt að rísa undir?

Hér er svo líka brtt. við 5. gr. Ég er alveg samþykkur því sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði, að vitanlega á að hafa atvinnulýðræði í stofnun sem þjóðleikhúsi. Ég bendi á að það er líka gert eins og sakir standa, þó að kosið sé til þjóðleikhúsráðs samkv. gildandi lögum þ. e. a. s. Alþ. kjósi 4 menn samkv. tilnefningu fjögurra stærstu þingflokkanna. Það eru tveir leikarar ef ég man rétt, nú þegar í þjóðleikhúsráði, en aðeins einn alþm., sem þar að auki er nú að láta af störfum sem slíkur. Og að lögbinda það, að starfsfólk Þjóðleikhússins eða hvaða stofnunar sem vera skal hafi skilyrðislaust alræðisvald, ég get ekki fellt mig við það. Ég tel það alræðisvald þeirra, sem starfa í Þjóðleikhúsinu, ef brtt. hv. 5. þm. Norðurl. v. verður samþykkt, þar eð þjóðleikhússtjóri hlýtur að álítast starfsmaður leikhússins þau ár sem hann starfar þar. Þess vegna vil ég mjög mælast til þess, að þeir sem hafa þekkingu á þessum málum og hafa hugleitt þessi mál núna, reyni að taka sér einhvern frest til þess að samræma þessi sjónarmið, því það er illt að þurfa að greiða atkv. gegn því að starfsfólk Þjóðleikhússins fái aðild að stjórn þess, en það er líka að mínu mati tæpast gerlegt að afhenda því alræðisvald í leikhúsinu.

Ég veit ekki hvaða skoðun stjórnvöld hafa á brtt. a við 12. gr. — það er þriðja brtt. hv. þm. Ragnars Arnalds, — en mér finnst hún eiga mikinn rétt á sér. Ég held að þriggja mánaða starf höfundar við leikhús geti tæpast komið að verulegum notum. Ég hef aldrei samið neitt hugverk sem því nafni getur nefnst, en að ætla manni þrjá mánuði til þess að semja slíkt verk hygg ég að sé algerlega úr lausu lofti gripið og fái ekki staðist. Það er sjálfsagt hægt að rubba einhverju upp en ef menn eru að leita að vönduðu efni, eins og hlýtur að vera tilgangurinn með þessu, þá duga áreiðanlega ekkí þrír mánuðir til þess. Hér stendur raunar „til allt að eins árs“, þannig að það þarf ekki að breyta því. Ég get því fyrir mitt leyti vel verið með þessari till. Annars datt mér í hug að þarna gæti staðið „6–12 mánuði“, en þarna stendur reyndar .,til allt að eins árs í senn“, þannig að það er engin skylda. Ég nenni því ekki að vera að gera neinn ágreining út af því.

Um b-liðinn þarna, aðild að lífeyrissjóði, segi ég, að ég verð að játa að ég er ekki reiðubúinn til að tjá mig um ólíka aðild á þessu stigi málsins, Því að ég er ekki alveg viss um að ég hafi áttað mig til fulls á því, hvað hér er um að tefla. En sem sagt, ég vonast til þess, að hv. menntmn. gefist aðeins tóm til þess að kanna tillögur starfsmanna Þjóðleikhússins betur, að átta sig enn betur á því, hvað skyldur Þjóðleikhúsið hefur núna og hvaða skyldur því er ætlað að hafa eftir þessum lögum, ef til koma, áður en gengið er til atkv. um brtt. og frv. sjálft. Það þarf ekki að koma í veg fyrir samþykkt þess hér á þessu hv. þingi þótt svo verði gert.