24.04.1978
Neðri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3842 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

234. mál, ónæmisaðgerðir

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Landlæknir óskaði þess, að felld yrðu úr gildi þau ákvæði núgildandi laga um ónæmisaðgerðir sem fjalla um skyldubólusetningu gegn bólusótt, og jafnframt, að í staðinn yrðu sett í lögin ákvæði er heimiluðu slíkar bólusetningar ákveðinna starfshópa samkvæmt ósk viðkomandi, enn fremur að felld yrðu niður þau ákvæði laganna er sérstaklega snerta kúabólusetningu.

Ástæðan fyrir þessari beiðni landlæknis er sú, að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur náð mjög góðum árangri í baráttunni gegn bólusótt á s. l. áratug og er svo komið að veikinni hefur verið að mestu útrýmt, þannig að í dag hefur hennar eingöngu orðið vart í einstökum tilvikum og þá í afskekktum fjallaþorpum Afríku. Bretar, Svíar og Bandaríkjamenn hafa fyrir nokkrum árum fellt þessi ákvæði niður, og fyrir tveimur árum felldu flest nágrannalönd okkar þau einnig niður.

Samkvæmt íslenskum lögum er bólusetning gegn bólusótt sú eina sem skylda ber til að framkvæma, og það er almenn skoðun þeirra lækna, sem fást við slíkar bólusetningar, að fella beri þær niður sem skyldubólusetningar, en í stað þess skuli vera heimild til bólusetningar.

Lögin um ónæmisaðgerðir eru frá árinu 1950 og eru nú á margan hátt orðin óraunhæf. Á þeim tíma, sem lögin voru sett, voru ekki þekkt mótefni gegn eins mörgum ónæmissjúkdómum og nú er og bera lögin þess glögg merki. Lögin fyrirskipa kúabólusetningu eða svokallaða frumbólusetningu á hverju barni milli hálfs árs og eins árs aldurs. Það má reyndar segja með hliðsjón af þróun þessara mála á undanförnum árum, að óæskilegt sé að skylda slíkar bólusetningar þar sem hættan á bólusótt er nánast engin nú, en eftirköst vegna bólusetningar geta verið mjög slæm.

Margar greinar laganna frá 1950 eru til komnar eingöngu vegna kúabólusetningar. Með hliðsjón af því, að lögin styttast verulega og breytast við brottfall skyldubólusetningar, ákvað rn. að endurskoða lögin í heild og, leggja fram frv. til nýrra laga um ónæmisaðgerðir í stað þess að breyta gildandi lögum. Þess vegna var gripið til þess ráðs að reyna að telja upp á tæmandi hátt þær sóttir sem þekktar eru í dag og þekkt er mótefni gegn. Enn fremur hefur frv. að geyma ákvæði þar sem heimilt er að bólusetja gegn öðrum sóttum þegar sérstaklega stendur á. Þar sem frv, þetta gerir ráð fyrir að skyldubólusetning verði nú alfarið felld niður er nauðsynlegt að heilbrrh. geti fyrirskipað almenna bólusetningin, komi upp mikil sótthætta.

Í meðferð þessa frv. í Ed. var gerð breyting á 7. gr. frv. á þann veg, að í stað þess að ekki má ráða starfsfólk að hælum eða öðrum stofnunum o. s. frv., eins og þar stendur, hljóðar greinin þannig eftir breytinguna í Ed.:

„Stefnt skal að því að ráða ekki starfsfólk að hælum eða öðrum stofnunum þar sem vistaðir eru sjúklingar, sem þjást af berklaveiki, nema það svari jákvætt við ónæmisprófun ellegar gangist undir sérstaka ónæmisbólusetningu áður en það hefur störf.“

Um þessa breytingu og frv. í heild var full samstaða í hv. Ed.

Frv. gerir ráð fyrir því, að Lyfjaverslun ríkisins annist útvegun bóluefnis til ónæmisaðgerða samkvæmt þessari löggjöf og er það í hæsta máta eðlilegt þegar þess er gætt, að frv. gerir ráð fyrir því, að ríkissjóður standi undir kostnaði við nær allar ónæmisaðgerðir samkvæmt þessum lögum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv., en legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn.