24.04.1978
Neðri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3843 í B-deild Alþingistíðinda. (2999)

235. mál, lyfjafræðingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er samið af nefnd sem skipuð var fyrir nálega 5 árum til að endurskoða lyfsölulögin. Nefnd þessi hefur talið rétt að skipta núgildandi lyfsölulögum í sjálfstæða lagabálka og er þetta frv. einn þeirra.

Í þessu frv. er leitast við að lögfesta reglur um allt það sem að starfsréttindum og skyldum lyfjafræðinga lýtur. Að vísu kemur til greina að ákvæði um starf lyfjafræðinga og aðstoðarlyfjafræðinga verði í lögum um lyfjabúðir og dreifingu lyfja almennt, en hins vegar ber þess að geta, að þróun mála hefur orðið sú, að allt að því þriðjungur lyfjafræðinga og aðstoðarlyfjafræðinga starfar annars staðar en í lyfjabúðum, svo sem í lyfjagerðum, lyfjaheildverslunum, rannsóknastofnunum, sjúkrahúsum, iðnaðarfyrirtækjum og hjá hinu opinbera. Viðbúið er að þessi þróun haldi áfram, og er því full ástæða talin til að setja lög sérstaklega um starfsstéttir lyfjafræðinga og aðstoðarlyfjafræðinga, án þess að ákvæði slíkra laga sé einungis miðað við eitt tiltekið starfssvið. Þetta er einnig í samræmi við þá stefnu að setja sérstaka löggjöf um einstakar heilbrigðisstéttir.

Nýmæli er í frv. um sérfræðingaleyfi, sbr. VI. kafla þessa frv., og er í samræmi við reglur sem gilda um sérfræðingaleyfi lækna og hjúkrunarfræðinga. Þess skal getið, að Lyfjafræðingafélag Íslands hefur í samvinnu við Háskóla Íslands gefið út slík sérfræðingaleyfi um tveggja ára skeið, og þykir því rétt eftir atvikum að þeir, sem hlotið hafa slík sérfræðingaleyfi, haldi þeim þrátt fyrir þessa lagasetningu.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. Um það var full samstaða í hv Ed. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.