02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

36. mál, stjórnarskipunarlög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta það sem kom fram áðan í máli eins hv. ræðumanns, að hér væri um nýja stefnu af hálfu okkar Alþb: manna að ræða. Það fer fjarri því. Þessi stefna, sem er túlkuð í þessu frv„ hefur komið mjög skýrt fram í umr. af okkar hálfu einmitt í sambandi við till. þeirra Alþfl.- manna, sem áður var í því formi flutt í Sþ., um hvernig þessum málum skyldi skipað. Þar þótti okkur um sumt of langt gengið og vorum þá einmitt með þá stefnu sem meginatriði, sem kemur fram í þessu frv. okkar.

Það var gripið fram í áðan af hv. þm. Jóni Ármanni, að við nálguðumst þá Alþfl: menn hægt og bítandi í þessu máli. En sannleikurinn er sá, að Alþfl. hefur í þessu máli tekið allmiklu raunsærri afstöðu en hann gerði í byrjun, því að í fyrstu till. flokksins voru miklu fortakslausari ákvæði en nú eru í því frv. sem hér er flutt. Þannig hefur tillögugerð þeirra eða frv.gerð færst niður á jörðina eins og var áðan talað um varðandi okkar stefnu.

Ég held að menn geri sér ekki nægilega grein fyrir því, að ekki er um eins geysilegan mun að ræða á frv. og hér hefur verið vikið að. Við tökum það fram, að bændur haldi eignarrétti á jörðum sínum, beitirétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum. Við göngum út frá þessu sem meginreglu. En í frv. þeirra Alþfl: manna segir: „Þrátt fyrir 1. gr. þessara laga skal bændum frjálst, ef og meðan þeir svo kjósa, að eiga jarðir til eigin búrekstrar. Bújörðum skulu fylgja þau hlunnindi, sem þeim hafa fylgt, ef einhver eru, og bændur hafa nýtt til bútekna, svo sem dúntekja, eggjataka, selver og reki, þó ekki veiðiréttur í ám eða vötnum“ — þó ekki veiðiréttur í ám né vötnum og þarna skilur sem sagt fyrst og fremst á milli.

Ég skal viðurkenna að það er okkar skoðun að þarna sé að viðkvæmu máli komið, og við vitum mætavel að um sumt stefnir hér í óefni varðandi veiðiréttinn og það hvernig þessi hlunnindi eru seld á leigu. En við göngum hins vegar út frá því sem meginreglu, að þau hlunnindi, sem hafa fylgt jörðunum frá fyrstu tíð, haldist áfram og þar er þessi veiðiréttur tvímælalaust meðtalinn. Þess vegna höfum við ekki á þessu stigi gert ráð fyrir því að taka þennan rétt með í þá upptalningu sem er í 1. mgr.

Ég vildi aðeins víkja að þessu, vegna þess að áðan var um það talað að á þessum tveimur frv. væri einhver reginmunur. Þarna er í raun og veru sá helsti munur sem ég vék að áðan. Hitt er í raun aðeins blæbrigðamunur, og ég held að það sé lítill vandi fyrir okkur Alþb.- menn og Alþfl.- menn að komast að fullu samkomulagi í þessum efnum.