24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3855 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Ég er 1. flm. að þessu frv. ásamt hv. þm. Gils Guðmundssyni og Sighvati Björgvinssyni. Ég vil byrja á því að þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu á þessu máli sem var jákvæð, enda þótt nokkrir nm. gerðu fyrirvara. Ég vil líka í upphafi undirstrika þá leiðréttingu sem kom fram í máli hv. 4. þm. Vestf. á staðhæfingu hv. 5. þm. Vestf. Karvels Pálmasonar, sem fór í mjög veigamiklu atriði með alrangt mál. Ég vona að það stafi af vanþekkingu hans, en ekki ásetningi. En jörðin Kirkjuból í Korpudal hefur aldrei verið yfirlýst það landmikil að hún ein bæri allt að tvö vísitölubú, heldur jarðirnar þrjár, sem um er að ræða, samanlagðar. Það skiptir auðvitað meginmáli, hvor staðreyndin er þarna rétt. Það rétta er, að Kirkjuból ásamt eyðijörðunum tveimur kynni að geta borið tvö vísitölubú.

Ég vil aðeins í meginatriðum gera grein fyrir eðli þessa máls. Kirkjuból í Korpudal hafði verið, þegar Bjarni Kristinsson núverandi ábúandi tók þar bólsetu árið 1976, þá hafði þessi jörð verið í eyði og í óvenjulegri niðurníðslu er óhætt að segja. Það var því ákaflega mikill fengur fyrir sveitarfélagið að fá þarna ungan og dugmikinn ábúanda, sem gefur vonir um framtíðarbúsetu á jörðinni verði honum ekki gert það ókleift. Ég vil benda á þá staðreynd, að áður en Bjarni Kristinsson settist að á Kirkjubóli, þá hafði hann, að því er mér er tjáð og ég hef ekki ástæðu til að rengja, fengið í landbrn. jákvæð svör um að eyðijarðirnar Kroppsstaðir og Efstaból mundu honum til ráðstöfunar þegar hann væri fluttur þarna vestur. Þessi ungi bóndi hafði frá upphafi ætlað sér að reka þarna ekki einungis fjárbú, heldur og kúabú, með tilliti til þess, að á þessu svæði er tilfinnanlegur mjólkurskortur. Það er því ekki aðeins bóndinn á Veðrará, Jón Guðjónsson, sem hefur mjólkurframleiðslu og hyggur jafnvel á meiri mjólkurframleiðslu, heldur ekki síður þessi ungi bóndi á Kirkjubóli.

Ég hygg að þeir, sem þekkja til í strjálbýlum landbúnaðarhéruðum, viti nokkuð hve mikið vonleysi gripur fólk þegar byggðin þynnist og grisjast frá ári til árs. Ég býst líka við að þeir, sem til landbúnaðar þekkja, geti sett sig inn í það, hve mikils virði það er fyrir fámenna sveit þegar eyðibýli hyggist upp. Þess vegna er óhætt að segja að jafnmikill fengur og þessu fámenna sveitarfélagi var að því að fá þennan unga bónda á Kirkjuból, þá yrði það sveitarfélaginu jafnmikill hnekkir að missa hann aftur. Og ég hygg að ég fari með rétt mál þegar ég staðhæfi, að það er alveg tvísýnt um búsetu bóndans á Kirkjubóli fái hann ekki þessar jarðir til viðbótar við það jarðnæði sem fyrir er á Kirkjubóli.

Varðandi bóndann á Veðrará, þá er að sjálfsögðu rétt og skylt að taka tillit til þarfa hans. Ég get lýst yfir því hér, að þegar ég var beðin að flytja þetta mál og ég kynnti mér það lauslega, þá fannst mér e. t. v. að þarna kynnu að rekast á hagsmunir bóndans á Kirkjubóli og bóndans á Veðrará og til beggja þyrfti að taka tillit. En í þessu máli hefur mér þótt eðlilegt og sjálfsagt, að byggja niðurstöðu mína á áliti heimamanna. Hv. 5. þm. Vestf. Karvel Pálmason sló því fram, að engin samstaða væri heima fyrir og ýmislegt hefði komið upp heima fyrir sem gæfi til kynna ágreining um þetta mál heima í héraði. Ég held að hv. þm. hafi ekki kannað nógu vel réttmæti þess sem hann var að slá þarna fram. Ég hef persónulega ráðfært mig við oddvita Mosvallahrepps, Guðmund Inga Kristjánsson, sem ég tel öllu dómbærari um ásamt fjórum öðrum hreppsnefndarmönnum, hvað þessu sveitarfélagi er fyrir bestu, en hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason. Ég hef líka og við öll staðfest á þskj. umsögn jarðanefndar, sem mælti með sölu þessara jarða enda þótt ýmis rök mæltu gegn því. En ég vil leyfa mér að lesa úr umsögn meiri hl. jarðanefndar niðurstöðuna eða niðurlag bréfsins, sem hljóðar á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Það varð niðurstaða meiri hl. jarðanefndar, að eðlilegt væri að sameina umræddar þrjár jarðir í eina og í samræmi við það að mæla með kaupum Bjarna Kristinssonar á jörðunum Efstabóli og Kroppsstöðum. Rökin fyrir þessu áliti komu fram í umr. um málið og voru þau m. a. að ræktanlegt land og beitiland þessara jarða bæri ekki tvö vísitölubú.“

Þá á hann við jarðirnar þrjár. Og ég vil ítreka í þessu sambandi, að þegar talað er um tvö vísitölubú, þá á það við Kirkjuból að viðbættum eyðifjörðunum, en ekki Kirkjuból eitt.

Að ég vitni aftur, með leyfi forseta, í þetta bréf jarðanefndar, þá stendur þar í lokin: „Einn nm., Birkir Friðbertsson, taldi sig vanbúinn að ákveða umsögn um sölu nefndra jarða í skyndingu, sumpart vegna lítillar staðþekkingar og sumpart vegna umsagna ráðunautanna, sem áður er á minnst.“

En í stuttu máli er þetta mál vaxið þannig, að því meira sem menn vita um það, því sannfærðari eru þeir um að þarna sé um eðlilega ráðstöfun að ræða, sem sé viðkomandi byggð til góðs, og á því hef ég byggt afstöðu mína. Hreppsnefndin mælti með þessu samhljóða, og ég vil upplýsa hv. 5. þm. Vestf. um það, að fjórir nm. af fimm mæltu samhljóða með þessu, en einn þeirra sat hjá.

Ég tel engan vafa á því, að þessum litla hreppi, Mosvallahreppi, væri það ómetanlegur fengur að fá að njóta áfram búsetu þessa góða bónda þarna. Það má geta þess, að þetta er aðkomumaður sem seldi allar eigur sínar hér syðra af því að hann var staðráðinn í að hann vildi búa og ekki aðra atvinnu stunda. Þetta er fjölskyldumaður með unga konu og fjögur, ef ekki fimm börn, sem er mikil lyftistöng þessari fámennu sveitabyggð í Mosvallahreppi.

Rök landbrn., sem hér hafa verið tilfærð, að það sé engin trygging fyrir sameiginlegri nýtingu þessara þriggja jarða meðan Bjarni á ekki Kirkjuból, eru í sjálfu sér eðlileg. En ég vil benda á það, að Bjarni bóndi stefnir að því að eignast Kirkjuból, og samþykkt Alþ., sem lægi fyrir um að hann fengi þessar eyðijarðir keyptar nú, mundi stórlega treysta möguleika hans á að ná eignarhaldi á Kirkjubóli. Nú er það svo, eins og hér hefur komið fram, að þessar tvær jarðir eru í leigu, þannig að Bjarni bóndi á Kirkjubóli mundi ekki fá þær umsvifalaust. Það verður að ganga sinn gang samkv. gerðum samningum. En engu að síður væri það til framtíðar mikil trygging fyrir hann að hafa samþykki Alþingis fyrir kaupum hans á þessum jörðum.

Ég legg áherslu á það, að Bjarni hyggst stunda mjólkurframleiðslu þegar hann fær jarðnæði til þess. Aukin mjólkurframleiðsla í Önundarfirði hefur verið þessum hluta Vestfjarða mikið kappsmál.

Ég held að ég þurfi ekki að fara um þetta öllu fleiri orðum. Ég tel að þetta mál sé að fullu rannsakað frá hálfu heimamanna og það sé óþarfi og það væri til óþurftar ef málið yrði ekki afgreitt frá Alþ. nú. Ég vænti þess eindregið að það nái fram að ganga. Það segi ég í trausti þess, að það verði ekki til þess að hrekja annan bónda úr sveitinni, og þá á ég við Jón Guðjónsson á Veðrará. Að sjálfsögðu á hann fulla heimtingu á því, að tillit sé tekið til þarfa hans. Þá vil ég benda í því sambandi á að við hliðina á jörð Jóns á Veðrará eru tvær aðrar eyðijarðir sem ekki væri óeðlilegt að leitað væri til fanga á með nytjar fyrir Jón fremur en að flytja sig innar í fjörðinn, 5 km vegalengd, til þess að hindra að bóndinn á Kirkjuboli fengi notið þessara eyðibýla sem liggja að hans jörð. Mér er kunnugt um að hreppsnefnd Mosvallahrepps er öll af vilja gerð til þess að greiða fyrir Jóni og bauð honum raunar s. l. sumar að hafa milligöngu um að útvega honum slægjur, en af einhverjum ástæðum var því tilboði hafnað.

Ég held sem sagt að þetta mál liggi nokkuð ljóst fyrir. Ég ítreka enn þá niðurstöðu mína sem er byggð á áliti heimamanna. Heimamenn vita gerst um hverjar þarfir viðkomandi hreppsfélags eru, og ég verð að lýsa yfir sérstöku trausti í því efni á oddvitann Guðmund Inga Kristjánsson, sem ég veit að rasar ekki um ráð fram þarna og hefur enga löngun til þess að gera ábúanda í hreppi sínum eitt eða neitt til miska. Því lít ég svo á, að enda þótt Bjarni á Kirkjubóli fengi þessar tvær eyðijarðir keyptar og heimild til handa ríkisstj. lægi fyrir frá Alþ., þá yrði það tvímælalaust til þess að treysta byggð í þessum hreppi, en ekki til að hrekja einn eða neinn frá búi sínu.