24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3858 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að skipta mér af þeim umr., sem hér fara fram, eða láta í ljós neina skoðun á þessu máli. En vegna þess að hv. 9. landsk. þm. sagði áðan að Bjarni bóndi, ef ég hef skilið rétt, hefði fengið loforð um það í landbrn., að af sameiningu yrði ef hann yrði ábúandi, þá vil ég taka það fram, að hann hefur ekki fengið það frá mér. Hvort einhver annar ráðuneytismaður hefur lofað því veit ég ekki, en mér hefur ekki verið skýrt frá því, að svo hafi verið. Það hlýtur þá að vera fyrir mína tíð í rn., ef slíkt hefur átt sér stað og þessi ummæli farið fram. Þetta vildi ég segja í sambandi við málið og annað ekki.