24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3867 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Virðulegi forseti. Allt frá þeim tíma sem Stofnlánadeild landbúnaðarins varð fyrst að taka við verðtryggðu lánsfjármagni, en það mun hafa verið 1970, hefur stjórn deildarinnar barist fyrir því, að þessum aukna kostnaði yrði mætt að verulegu leyti með verðjöfnunargjaldi, þar sem svo mikill kostnaður á þá aðila, sem í framkvæmdir hafa farið síðan, hefði orðið þeim svo þungur baggi að fáir mundu hafa staðið undir honum, en hins vegar hefðu þeir, sem búnir voru að framkvæma áður, grætt á þessum aukna kostnaði framkvæmdaaðilanna. Ástæðan fyrir þessu er að vaxtaliður verðlagsgrundvallarins er meðaltalstala sem hækka mundi tiltölulega lítið og yrði aðeins brot af vaxtakostnaði þeirra bænda, sem í framkvæmdum standa, en aftur á móti nytu þeir bændur hækkunarinnar sem búa við eldri uppbyggingu. Hefði sú leið verið farin hefði hún skapað gífurlegt misræmi innan bændastéttarinnar sem ekki er bægt að búa við.

Þetta frv., ef að lögum verður, mun leysa að nokkru leyti þetta vandamál. Þó geri ég ráð fyrir að brátt fyrir 1% verðjöfnunargjald, sem í frv. felst, verði samt mikill mismunur á lánskjörum og kostnaði hinna einstöku bænda sem leiðir til mikils tekjumunar sem ekki er hægt að þoka. Er því líklegt að hækka þurfi verðjöfnunargjaldið síðar. Ástæðan fyrir þessu er stóraukin verðtrygging og hærri vextir af öllu því fé sem Stofnlánadeildin á kost á að fá, og þegar við þetta bætist 35% hækkun á byggingarkostnaði á milli ára, þá þarf engum að koma á óvart það misræmi sem af öllu þessu leiðir. Harma ber að ekki náðist um það samkomulag að flytja frv. eins og n. gekk frá því.

Vaxtaokrið í þjóðfélaginu er orðið slíkt að það stenst ekki til lengdar. Það lamar atvinnureksturinn í landinu að meira eða minna leyti, dregur stórlega úr framleiðslugetu á mörgum sviðum, en er verulegur verðbólguvaldur, verkar því gagnstætt þeim þörfum þjóðarinnar að auka framleiðslu og verðmætasköpun í landinu og draga úr verðbólgu. Þó efast ég um að þetta vaxtaokur komi eins illa við nokkurn atvinnuveg og landbúnað þegar á heildina er litið, en það er of langt mál til þess að ræða um það hér.

Fyrir neytendur skiptir það ekki neinu máli, hvort hluti af kostnaðinum er tekinn sem verðjöfnunargjald, eins og lagt er til í þessu frv., eða lánskjörin væru þyngd einvörðungu með aukinni verðtryggingu og hækkuðum vöxtum. Það hefur sömu hækkunaráhrif og vöruverð, hvor leiðin sem farin er eða hvort þær eru farnar allar að hluta til, eins og stefnt er að með þessu frv.

Stofnlánadeildin getur ekki tekið á sig neitt af kostnaði af lánum sem hér eftir eru tekin. Hún á nóg með að standa undir þeim mismun sem þegar er orðin. Þó lánskjör útlána Stofnlánadeildar hafi verið þyngd á undanförnum árum er það ekki þó í samræmi við þann kostnað sem deildin býr við. Er svo komið að vextir og verðbætur af teknum lánum nema hærri upphæð en deildin fær af útlánum. Fer munurinn vaxandi ár frá ári, svo engin leið er að bæta meiru á Stofnlánadeildina.

Aðrar umtalsverðar breytingar en verðjöfnunargjaldið, sem þetta frv. hefur í för með sér, er að gert er ráð fyrir að Stofnlánadeildin hætti að veita lán til íbúðarhúsabygginga í sveitum og að slík lán verði veitt eftir næstu áramót úr Byggingarsjóði ríkisins, sem eftir þessa breytingu mun lána til allra íbúðarbygginga í landinu, enn fremur að jarðakaupalán verði framvegis veitt úr Stofnlánadeild landbúnaðarins. Fram að þessu hefur þetta verið veitt úr veðdeild Búnaðarbankans, en Stofnlánadeildina vantar allt fjármagn til þess að taka við þessum lánaflokki og verður að bæta úr því.

Landbn. hv. d. ræddi frv. á fundum sínum. Hún boðaði framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra Húsnæðismálastofnunar ríkisins á sinn fund, þá Sigurð E. Guðmundsson og Skúla Sigurðsson. Einnig voru boðaðir á fund n. framkvæmdastjóri Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Stefán Pálsson, og ráðuneytisstjórinn í landbrn., Sveinbjörn Dagfinnsson.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþykkt með einni breytingu sem er á þskj. 660 og er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 10. gr. komi ákvæði til bráðabirgða. Heimilt er stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins að veita lán til endurhóta á íbúðarhúsnæði lögbýlum eftir sambærilegum reglum og verið hefur, þar til Byggingasjóður ríkisins tekur upp lánveitingar til slíkra framkvæmda.“

Þessi till. er flutt vegna þess að húsnæðismálastjórn ríkisins lánar ekki til að lagfæra og endurbæta gamlar íbúðir, en það hefur Stofnlánadeildin gert og við teljum að það hafi gefist mjög vel í flestum tilfellum. N. telur það spor aftur á bak ef slíkum lánveitingum verði nú hætt. og því er þessi till. flutt.

Benedikt Gröndal. hv. þm., skilar séráliti og Eðvarð Sigurðsson skrifaði undir með fyrirvara.