25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3873 í B-deild Alþingistíðinda. (3033)

232. mál, ljósmæðralög

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. É;g þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég fagna því, að nefndin skuli hafa skilað þessu áliti. Ég get nú ekki í fljótu bragði áttað mig á því, hvað þetta þýðir, þessar tölur sem hæstv. ráðh. nefndi varðandi hluta úr starfi, sem var það atriði sem aðallega var spurt eftir. því að ég vissi að búið var að raða þessu í launaflokka áður. En ég fagna því sem sagt, ef komnar eru í framkvæmd þessar launagreiðslur til kvennanna, – eða þá koma núna í framkvæmd og verka aftur fyrir sig frá og með 1. jan. þessa árs — því að það er full ástæða til þess.

Ýmsir vankantar hafa orðið á framkvæmdinni í þessum efnum þar sem ljósmæður eru í umdæmum þar sem svo háttar til að héraðshjúkrunarkonur eru. Það er mér kunnugt úr mínu nágrenni, þar sem kaupstaður t d. í heilsugæsluhéraði reynir að komast hjá því að greiða sinn hluta af ljósmæðralaunum, en hinn hluti umdæmisins. sem er aftur hreppur sem er í sýslufélagi, sér auðvitað um sitt áfram í gegnum sýslusjóð. Þannig þarf margt fleira að athuga í þessu, sem er auðvitað hlutverk þessarar stéttar að reyna að fá lagfæringu á og verður ekki við rn. sakast í þeim efnum. Ég er hins vegar alveg sammála því, að það eigi að færa þessi störf sem allra mest inn í heilsugæslustöðvarnar og koma þeim þar fyrir, þó að það sé ekki nema að hluta til. Sums staðar hefur þetta verið að öllu leyti. En aðalatriðið er það eins og ég tók fram í fsp., að þetta sé komið á hreint með þessu.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi svör og fyrir frumkvæði rn. í þessum efnum. Það er ljóst, að ekki hefur á því staðið. Þá eiga ljósmæður það góða aðild að þeirri nefnd, sem endurskoðar þetta, að ég efast ekki um að þær hafi staðið þannig að málum að viðunandi hljóti að vera þegar komið er í framkvæmd.