25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3875 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

357. mál, símamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Svar mitt er á þessa leið:

1. Áformað er að bæta símasambandið á milli Stykkishólms og Grundarfjarðar og Ólafsvíkur í tveimur áföngum. Á fjárl. fyrir árið 1978 er gert ráð fyrir jarðsímalögn frá Grundarfirði til Ólafsvíkur. Á árinu 1979 er gert ráð fyrir radíósambandi frá Stykkishólmi til Grundarfjarðar. Á þennan hátt er ódýrast að bæta símasamband og fjölga línum milli nefndra staða á næstu tveimur árum.

2. Til þess að tengja sjálfvirku símstöðina í Búðardal og þar með Dalahérað símasvæði 93 þarf eftirfarandi aðgerðir:

a. Radíósamband milli Búðardals og Stykkishólms með tilheyrandi fjölsímum, sem er áætlað að kosti 29 millj. kr.

b. Jarðlögn frá Búðardal að Saurum með tilheyrandi smáhýsi og raflögn, rúmar 8 millj. Annar kostnaður er 1.7 millj., svo að þetta eru alls 39 millj. kr.

Þessi upphæð er ekki á fjárl. nú. Auk þess skal upplýst, að breyting sú, sem hér um ræðir, útheimtir númerabreytingu í Búðardal og þar af leiðandi þarf þessi breyting að eiga sér stað um leið og ný símaskrá er gefin út. Verður stefnt að því að koma þessu verki í framkvæmd fyrir útgáfu símaskrár á árinu 1979.