25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3878 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

238. mál, hundraðföldun á verðgildi íslenskrar krónu

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. greinargóð svör. Ég vil sérstaklega fagna því, að það kom fram í máli hans og raunar líka í máli bankastjóra Seðlabankans í gær, að bankastjórn Seðlabankans virðist hafa tekið eindregnari afstöðu til þessa máls en hún hefur löngum haft. Svo var, þegar áðurnefnd till. var flutt á Alþ. og var til afgreiðslu í hv. fjh.- og viðskn. Nd., að fyrir lá umsögn frá Seðlabankanum þar sem komu fram rök bæði með og á móti þessu máli, og sjálfsagt má lengi finna þau. En það lítur svo út sem stjórn Seðlabankans sé orðin þessu máli jákvæðari en áður.

Ég hef verið lengi þeirrar skoðunar, að þetta gæti verið ein af þeim aðgerðum sem hægt væri að gera til þess að snúast gegn því mikla verðbólgubugarfari sem gripið hefur um sig núna í nokkur ár meðal þjóðarinnar. Mér finnst að menn geri ekki nægilegan greinarmun á því, hversu það er miklu alvarlegra að verðbólga sé meiri en 30% á ári og það í langan tíma en t. d. á milli 10 og 15%, eins og hún var löngum áður. Ég held því að grípa þurfi til nýrra og áhrifaríkari meðala til þess að ráða niðurlögum verðbólgunnar og þetta sé eitt af því sem hægt sé að gera til þess að byrja í rauninni nýtt líf á þessu sviði og það fari fram vorhreingerning í efnahagsmálum þjóðarinnar.