25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3879 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég ætla eins og hv. fyrirspyrjandi að spara forsetaembættinu tíma með því að svara öllum þremur fsp. í eitt skipti fremur en koma þrisvar í ræðustól til þess.

Þá er svarið við fyrstu fsp., varðandi Skagastrandarverksmiðjuna.

Þegar stjórn Síldarverksmiðja ríkisins ákvað á s. l. hausti að hefja starfrækslu á ný við vinnslu á bræðslufiski í Skagastrandarverksmiðjunni, var kostnaður áætlaður á milli 600 og 700 millj. kr. Síðan þá hafa orðið miklar verðhækkanir. Búið er að panta erlendis öll helstu tæki sem til þarf. Verð þeirra er sem hér segir: Löndunarvogir 27.7 millj. kr. Sjóðari 32.3 millj. Forsía 6.1 millj. Pressa 59.5 millj. Mjölvog 7.0 millj. Mjölskilvindur 30.0 millj. Stækkun soðeimingartækja 50.7 millj. Samtals 213.3 millj.

Framleiðendur tækjanna útvega lán fyrir 67% af kaupverði með 8–9% ársvöxtum. Aðrar framkvæmdir verða unnar af innlendum aðilum og verða þær fjármagnaðar af eigin fé verksmiðjanna með þeim hraða sem efni og ástæður leyfa.

Þá er önnur fsp., varðandi Ísafold. Ísafold HG-209 hefur í vetur landað eftirtöldu magni í verksmiðjur á eftirtöldum stöðum: Siglufjörður 2 202 885 kg, Akureyri 78 541. Vopnafjörður 1865140, Seyðisfjörður 961803, Neskaupstaður 242 890, Eskifjörður 262 310, Reyðarfjörður 735 316, Vestmannaeyjar 3160 920, Reykjavík 1 986 430, Akranes 244 370. Samtals nam afli Ísafoldar 11740.6 tonnum. Ísafold tók aldrei þróarrými frá íslenskum skipum og var af loðnunefnd beint til þeirra staða sem vantaði loðnu. Má því segja að afli Ísafoldar hafi verið umframafli sem lengdi starfstíma þeirra verksmiðja sem hér eiga hlut að máli.

Við b-lið fsp. er svarið þetta:

Áhöfn Ísafoldar var eingöngu skipuð Íslendingum sem greiða opinber gjöld á Íslandi. Útgerðarfyrirtækið er hins vegar danskt, þó að Íslendingur eigi þar allstóran hluta, og greiðir opinber gjöld í Danmörku. Ísafold greiddi til flutningasjóðs, en fékk ekkert úr flutningasjóði í staðinn.

Þriðja fsp., a-liður, varðandi Norglobal. Svar við a-liðnum er þetta:

Ekki er unnt að segja nákvæmlega, hverjar verða leigugreiðslur fyrir Norglobal á síðustu loðnuvertíð. Leigusamningurinn var þannig, að Ísbjörninn hf. Reykjavík tók skipið á leigu í 80 daga og átti að greiða 130 þús. norskar kr. í leigu á dag. Leigugjald þetta var miðað við 16.5% mjölnýtingu hráefnis og 1500 tonna afköst á dag, ef nægilegt hráefni væri fyrir hendi. Átti leigugjaldið að hækka eða lækka eftir atvikum, ef farið yrði fram úr þessum viðmiðunarmörkum eða þeim ekki náð. Samkv. upplýsingum Ísbjarnarins hf. hefur lokauppgjör ekki verið gert við eigendur skipsins. Mjölnýting var væntanlega lítið eitt betri en 16.5% sem mun hækka leiguna lítillega. Hins vegar voru afköstin talsvert undir 1500 tonnum á sólarhring og mun það væntanlega lækka leiguna nokkuð meira en nemur hækkuninni vegna nýtingar.

B-liður fsp.:

Ekki er hægt að draga neinar ályktanir í þessa átt, vegna þess hve hér er ólíkum rekstri saman að jafna, bæði milli landverksmiðja innbyrðis og milli þeirra og bræðsluskipsins. Auk þess er ekki vitað hverjar verða endanlegar leigugreiðslur fyrir skipið, Svo eru enn óseldar nokkrar birgðir af loðnumjöli, bæði því sem unnið var í skipinu og í landi.