25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3882 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég held að það hafi verið alveg óþarfi af hv. síðasta ræðumanni að vera með einhverjar dylgjur í garð Stefáns Jónssonar um afstöðu hans til verksmiðjubyggingar á Skagaströnd. Ekki varð ég var við það, að í máli hans kæmi fram á nokkurn máta að hann væri andvígur þessari framkvæmd.

Varðandi verksmiðjubygginguna sjálfa vil ég láta það koma skýrt fram, að auðvitað er það aðalatriði málsins hvar þessi verksmiðja er staðsett. Það hefur verið sýnt fram á það, að brýn þörf er á að auka bræðslu á þessu svæði, og sýnt fram á það með sterkum rökum, að uppbygging verksmiðju á Húnaflóasvæðinu gæti verulega aukið það magn af loðnu, sem brætt væri á hverju ári, og kæmi þjóðarbúinu öllu þar af leiðandi til mikilla tekna. Ég hef ekki tíma til að rekja þessa útreikninga, en þarna er um mjög háar fjárhæðir að ræða.

Varðandi það, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði hér áðan, að stærstu skipin gætu ekki lagst upp við verksmiðjuna á Skagaströnd, þá er það út af fyrir sig rétt. Á þessu vakti ég athygli við afgreiðslu fjárl. í vetur, að finna yrði fjárveitingu til að dýpka höfnina á Skagaströnd. Ég var einmitt með till. um að svo yrði gert með ákveðinni fjárveitingu til þess verks, en till. náði ekki fram að ganga. Hins vegar er mér kunnugt um að gert hefur verið ráð fyrir því, að þessi dýpkun hafnarinnar færi fram í vetur. Ég veit satt að segja ekki betur en hún hafi staðið yfir, þessi ákveðna dýpkun sem þm. gerði að umtalsefni, hún hafi staðið yfir á undanförnum vikum, þó ég viti ekki nákvæmlega hversu langt því verki hefur miðað eða hvernig fjármagns hefur verið aflað til þess. Það er önnur saga. En ég veit ekki betur en að þessu hafi verið unnið að undanförnu.