25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3884 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að þetta eru einhverjar þær heimskulegustu umr. sem ég hef nokkurn tíma hlýtt á, og er þá mikið sagt, því að þetta er ekki fyrsti fundur sem ég sit með þeim sem hér hafa talað. Hvað veit hv. 1. landsk. þm. um arðsemi þeirra framkvæmda sem nú er verið að ráðast í á Skagaströnd? Ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Hvað veit hann um djúpristu þeirra skipa sem ætla að landa þar? Ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Hvað veit hann um hafnarframkvæmdir sem nú er ráðist í þar? Ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Ákvörðunartakan, segir hann, er röng. Hann veit ekkert um það. Hann hefur engar forsendur til að byggja á.

Svona er allt þetta tal. Hvar á því að linna? Vill ekki hæstv. forseti gá að því að slita þessum umr., þannig að fleiri gefist ekki kostur á því að verða sér til skammar.