25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3885 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég vil aðeins minna hv. ræðumenn á það, að Síldarverksmiðjur ríkisins starfa samkv. sérstökum lögum og það voru samkv. þeim lögum byggðar verksmiðjur á sinni tíð. Þessum verksmiðjum Síldarverksmiðja ríkisins hefur verið mismunandi vel haldið við. Það hafa verið miklir erfiðleikar í rekstri í mörg ár, þangað til nú síðustu árin að hagur verksmiðjanna hefur batnað mjög. Þá hefur fyrst og fremst verið stefna síldarverksmiðjustjórnar að kaupa ný tæki til þeirra verksmiðja sem fyrir eru, bæta nýtingu þeirra.

Hvað Skagaströnd viðvíkur, þá hefur sú verksmiðja ekki verið í starfrækslu árum saman. Þar eiga Síldarverksmiðjur ríkisins allmiklar eignir. Töluvert af því fjármagni, sem fer í þessa verksmiðju, fer í tæki sem er auðvitað hægt, eins og áður hefur gerst, að flytja á milli síldarverksmiðja og á milli landshluta þegar breyting verður á veiðum.

Ég ætla ekki að gagnrýtta stjórn Síldarverksmiðja ríkisins fyrir þessa ákvörðun. Hún verður auðvitað að standa sjálf fyrir því að verja þessa ákvörðun sem hún tók gagnvart Skagaströnd, en hún var tekin í síldarverksmiðjustjórn af fulltrúum allra þeirra flokka, sem þar eiga sæti, og sömuleiðis af fulltrúum atvinnuveganna, sem eiga einnig sæti í síldarverksmiðjustjórn, annar sem fulltrúi sjómanna og hinn sem fulltrúi útgerðarmanna.

Í sambandi við það sem hv. 1. landsk. þm. sagði varðandi verksmiðjuna á Snæfellsnesi, þá er það alls ekki rétt að ekkert hafi verið gert í því máli. Þar eru mikil vandkvæði á að taka ákvörðun, vegna þess að Snæfellingar hafa ekki komið sér saman um byggingu einnar verksmiðju á ákveðnum stað, heldur eru tvö félög stofnuð um tvær verksmiðjur. Og það kemur auðvitað alls ekki til greina að fara að byggja tvær verksmiðjur á Snæfellsnesi. Hitt hefði verið æskilegasta leiðin, að byggja þar eina verksmiðju, og það er auðvitað það sem stendur til að gera, en þetta ósamkomulag hefur haft í för með sér tafir eða réttara sagt hefur orðið togstreita á milli staða, eins og oft á sér stað.

Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel það rétta stefnu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins að gera þær verksmiðjur, sem þær eiga, eins vel úr garði og hægt er, bæta nýtingu þeirra. Það er til hagsbóta ekki eingöngu fyrir síldarverksmiðjurnar sjálfar, heldur ekki síður fyrir sjómenn og útgerðarmenn sem skipta við þessi fyrirtæki. Mín skoðun er sú, þó nýjar verksmiðjur kunni að rísa, að ekki sé mikil þörf fyrir margar fleiri verksmiðjur. Þó viðurkenni ég alveg fullkomlega sérstöðu Snæfellsness, og ég hef áður lýst yfir því, bæði á Snæfellsnesi og annars staðar, að ég tel að það eigi að byggja þar verksmiðju. Sú verksmiðja á að mínum dómi að vera fyrst og fremst í höndum útgerðarmanna, sjómanna, verkamanna og fólksins á Snæfellsnesi, en jafnframt á auðvitað að skapa þessari verksmiðju skilyrði til að fá lánsfé til að byggja hana upp. Þetta er það sem ég álít að sé langeðlilegast að gera, en ekki færa sífellt út Síldarverksmiðjur ríkisins. Þessar verksmiðjur eiga miklu frekar að vera í höndum þeirra aðila sem hafa mesta þörf og mestan áhuga á að reisa þær, en það á aftur að vera skylda samfélagsins að fjármagna þær þannig að þær fái lán alveg til jafns við ríkisverksmiðjur í þessum efnum. (Gripið fram í.) Það þarf auðvitað að taka ákvörðun um það á öðrum hvorum staðnum. En hins vegar er það hygginna manna háttur að reyna samkomulagsleið til hlítar. Við í sjútvrn. höfum kallað þessa aðila báða saman til fundar. Það hefur ekki gengið saman með aðilum, en nú fer að koma að úrslitum málsins.