02.11.1977
Neðri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

2. mál, niðurfelling útflutningsgjalda á kolmunna- og spærlingsafurðum

Það má segja það sama um spærlingsveiðarnar, að þær vora miklu minni en menn gerðu sér vonir um. En þrátt fyrir það að almennur áhugi virðist ekki hafa verið á þessum veiðum hjá útgerðarmönnum, þ.e. kolmunnaveiðum og reyndar kolmunnavinnslu líka, þá er mjög nauðsynlegt að staðfesta þessi brbl., eins og kom fram hjá ráðh. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta, að það væri nauðsynlegt að staðfesta þessi lög af Alþ., og hann lýsti enn fremur yfir, orðrétt:

„Ég tel að þó að þessi lög séu aðeins um niðurfellingu útflutningsgjalda á þessu ári, þá tel ég mjög koma til greina að framhald verði á þessu á næsta ári, meðan verið er að glæða áhuga manna á veiðum á þessum fisktegundum á þann hátt að draga úr öðrum fiskveiðum.“

Þessi ummæli ráðh. og vilji nm. til að stuðla að betri nýtingu þessara fisktegunda voru að sjálfsögðu einnig til umr. í hv. sjútvn. og einnig sú skoðun nm., að fleiri atriði gætu komið upp á næstunni sem kallað gætu fram óskir um breytingu þessa útflutningsgjalds til lækkunar. Það var t.d. bent á að fyrirframsala saltsíldar og verðlagning hennar hefði verið bundin því að síldin næði ákveðnu fitumagni. Þegar þetta var rætt í n. hafði komið í ljós, að til þessa gerði hún það ekki og væri útlit fyrir að vegna þessa þyrfti að grípa til sérstakra ráðstafana með því ráði, sem hér hefur verið bent á, eða öðrum.

Þrátt fyrir þessar ábendingar og viljayfirlýsingu ráðh„ sem ég hef vitnað til, er n. sammála um að málið gangi nú áfram svo afstaða Alþ. til brbl. liggi fyrir. Á seinna stigi í þessari hv. d. eða Ed. er að sjálfsögðu möguleiki til að koma fram brtt. við frv. og þá máske í þá veru, sem hæstv. sjútvrh. vék að, eða þá í þá veru, sem einstakir nm. í sjútvn. hafa minnst á. En við erum sammála um það í hv. n, að mæla með samþykkt frv., og ég legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.