25.04.1978
Sameinað þing: 71. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3897 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mér þykir illt að hæstv. landbrh. skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera hér viðstaddur, en engu að síður vil ég þakka honum fjarstöddum fyrir að gefa svör við nokkrum spurningum sem ég lagði fyrir hann.

Það var því miður ekki á hæstv. ráðh. að heyra, að hann hefði miklar áhyggjur af því máli sem ég gerði hér áðan að umtalsefni. Við heyrðum það, þm., að búið mundi að gera æðimikið í landbúnaðarmálum á seinustu árum og meira yrði ekki gert í bili, engar frekari ráðstafanir væru á döfinni til þess að létta bændum þá þungu byrði, sem með þessari gjaldtöku væri á þá lögð. Og söluskatturinn yrði sem sagt ekki afnuminn. Og hann bætti því við, að samkv. skýrslum, sem hann hefði undir höndum, hefðu tekjur bænda hækkað ákaflega mikið. Var nánast á honum að skilja að allt þetta kvak væri meira eða minna út í bláinn.

Ég er samflokksmanni hæstv. ráðh., Páli Péturssyni, innilega þakklátur fyrir að hann skyldi benda okkur á það í ræðu sinni áðan, hversu yfirborðslegar þessar upplýsingar ráðh. væru þegar nánar væri skoðað. Þarf ég ekki að fara frekari orðum um það, svo vel sem hann tók á þeim hluta málsins.

Ég er hræddur um að svar hæstv. ráðh. verði bændum almennt til lítils ánægjuauka. Ég er satt að segja hræddur um að ástand mála sé verra en svo, að kokhreysti og ánægjuyfirlýsingar af þessu tagi séu líklegar til þess að falla í sérlega góðan jarðveg.

Ráðh. talaði mjög um auknar niðurgreiðslur á undanförnu ári. Auðvitað neitar því enginn, að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum hafa verið auknar nokkuð. Verðbólgan hefur að sjálfsögðu aukist einnig, og það segir sig sjálft, að ekki er hægt að taka tölur af þessu tagi og leggja út af þeim einum út af fyrir sig, heldur verður að líta á að hve miklu leyti þarna er um að ræða aukningu sem skýrist af aukinni verðbólgu. Mér finnst að röksemdafærsla ráðh. minni allt of mikið á orðræður hans um rekstrarlán til bænda, en hann hefur staðið hér upp næstum að segja á ári hverju og lýst því yfir, að nú væri einmitt nýlega búið að auka rekstrarlánin verulega. Þannig hefur þetta gengið ár frá ári. Hann hefur alltaf verið að auka rekstrarlánin. En þeir, sem gerst þekkja til, eins og t. d. kaupfélagsstjórar, hafa marglýst því yfir, og skiptir þar engu hvort þeir eru úr flokki ráðh. eða úr öðrum flokki, að í reynd hafi rekstrarlán til bænda staðið meira eða minna í stað á undanförnum árum og ekki gert betur en að halda í við verðbólguþróunina. Þetta kom t. d. ákaflega skýrt fram á þeim bændafundi sem hér var vitnað til áðan og haldinn var í Víðidal nú fyrir skemmstu, þar sem kaupfélagsstjórinn á Blönduósi gaf einmitt yfirlýsingu um að þrátt fyrir að lánunum hefði fjölgað og þau hefðu fengið ný og ný nöfn, þá væru þau, ef á heildina væri litið, ekki meiri en verið hefði, ef tekið væri tillit til kostnaðaraukans.

Varðandi niðurgreiðslurnar er það að sjálfsögðu rétt, eins og ég sagði áðan, að niðurgreiðslur hafa aukist í krónutölu. Þær voru t. d. auknar um 1300 millj. kr. 13. mars s. l. En ég tel að þá verði að hafa í huga að niðurgreiðslur höfðu verulega lækkað á undanförnum árum og aukningin, sem hefur orðið á s. l. ári, er auðvitað fyrst og fremst til þess fallin að ganga upp í fyrri lækkanir.

Í öðru lagi verður að minna á að þessi ákvörðun kemur allt of seint. Þessi niðurgreiðsluaukning, sem varð 13. mars s. l., kemur a. m. k. hálfu ári of seint, og vegna þess, hversu seint hún er á ferðinni, hefur orðið til verulegt vandamál, sem nú finnast engin önnur ráð til að leysa hjá stjórnvöldum en að láta það lenda með fullum þunga á bændastéttinni.

Í þriðja lagi má benda á að þessa ákvörðun um auknar niðurgreiðslur verður auðvitað fyrst og fremst að skoða í ljósi þess, að þá var nýlega um garð gengin mikil gengisfelling, gengi hafði verið fellt um 13% og gengisfellingin hafði að sjálfsögðu aukið rekstrarkostnað búsins verulega. Ég er hræddur um að ef málið er skoðað frá þeirri hliðinni, þá geri þessi aukning niðurgreiðslna upp á 1300 millj. ekki miklu meira en ganga upp á móti áhrifum gengisfellingarinnar á rekstrarkostnað búsins.

Í fjórða lagi má benda á það í sambandi við þessar niðurgreiðslur, að til að gera hvort tveggja eða allt í senn: að hækka niðurgreiðslurnar í hlutfalli við þá verðhækkun sem orðið hefur af völdum verðbólgu, að koma til móts við áhrif gengisfellingarinnar og að jafna út áhrif söluskattsins, þá hefði hækkun niðurgreiðslnanna þurft að vera talsvert miklu hærri en hún varð sennilega um það bil tvöfalt hærri. Þannig er fjarstæðukennt að halda því fram hér, að þessi hækkun niðurgreiðslna, sem átti sér stað 13. mars s. l., hafi í raun og veru verið afnám söluskattsins eða eitthvert jafngildi þess.

Eins og ég hef rakið hér eru ástæðurnar til þessarar hækkunar á niðurgreiðslum allt aðrar og má rekja til annarra þátta, en eftir stendur söluskatturinn á landbúnaðarvörunum. Í þessu sambandi er kannske fróðlegt að nefna að niðurgreiðslur á súpukjöti, svo að nefnt sé dæmi, námu aðeins 210 kr. á kg fyrir hinn 13. mars s. l., en söluskatturinn af þessari sömu vöru nam þá tæpum 200 kr. Í reynd má því segja að ekki hafi verið um neina niðurgreiðslu að ræða. Þessar tölur voru mjög nálægar hvor annarri.

Hæstv. ráðh. gaf í skyn áðan að þessum miklu álögum á bændastéttina yrði skilað aftur. Ég verð að segja alveg eins og satt er, að ég tel að þetta sé ein djarfasta fullyrðing sem lengi hafi komið fram í þinginu. Og ég er hræddur um að þetta hafi verið harla vanhugsað kosningaloforð af hálfu hæstv. ráðh., geti orðið honum dýrkeypt, satt best að segja, og kostað nokkra gengisfellingu orða hans almennt í augum kjósenda þegar annað kemur í ljós að 1–2 mánuðum liðnum. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég fékk í morgun, hafði upphaflega verið tilkynnt að um yrði að ræða gjaldtöku upp á 104 kr. Raunar staðfesti seinasti ræðumaður það áðan. Afráðið var þó að þessu sinni yrði ekki um að ræða meiri gjaldtöku en 70 kr. á hvert kg dilkakjöts. Sveinn Tryggvason framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs tjáði mér aftur á móti, og var alveg vafalaust ekki að fara með neitt leyndarmál, að ekki væri aðeins þörf á þessari gjaldtöku, heldur þyrfti sjálfsagt að leggja á aukið gjald þótt síðar yrði. Hann tjáði mér að þarna væri um gjaldtöku að ræða sem næmi 930 millj. kr., en væntanlega yrði um að ræða gjaldtöku sem næmi milli 1000 og 1100 millj. kr. þegar allt kæmi til alls og kæmi það í ljós að nokkrum árum liðnum. Ég er alveg sannfærður um að þeir, sem vilja hafa það sem rétt er í þessu efni, geti staðfest þetta og að þess vegna hljóti yfirlýsing ráðh. hér áðan, að þessu gjaldi yrði hugsanlega skilað aftur, að hafa hljómað heldur en ekki furðulega í eyrum þeirra manna sem best þekkja til. Nei, ég held að það hefði sannarlega verið hyggilegra og varlegra fyrir ráðh., því að enn er lagt til kosninga, að gefa enga slíka yfirlýsingu, þar sem hann mátti vita að hún gæti aldrei staðist og að mestar líkur mundu vera á því, að hið rétta kæmi í ljós fyrir kosningar.

Það kom fram í ræðum hæstv. ráðh. og hv. þm. Páls Péturssonar, að ég mundi ekki hafa mikið vit á þessum vanda og færi með rangt mál. Þessu til sannindamerkis sagði hv. þm. Páll Pétursson að það hefði einfaldlega legið fyrir í haust. að bændur þyrftu að taka á sig stórfelld útgjöld af völdum þess vanda, sem hér hefði blasað við, í einni eða annarri mynd. Þetta geta þeir sagt eftir á sem hafa komið málunum á þann veg í hnút, að þau virðast illeysanleg með öðrum hætti. Hann viðurkenndi þó í hinu orðinu að vandamálið, sem við blasti, stafaði ekki af offramleiðslu. Hann sagði að vandamálið stafaði fyrst og fremst af því, að neyslan væri ekki nægileg. Þar með er hann í raun að viðurkenna að hefðu verið gerðar ráðstafanir á s. l. sumri eða s. l. hausti til þess að auka neysluna innanlands, þá væru allar líkur til þess, að þetta vandamál, sem nú blasir við, væri miklu smávaxnara en það er í reynd. Það er einmitt þess vegna og einmitt með nákvæmlega þessum rökum sem við Alþb.- menn höfum hvað eftir annað í vetur flutt till. um að söluskattur á kjötvörum yrði afnuminn. Reyndar vil ég einnig minna á að í till. stjórnarandstöðunnar við meðferð efnahagsmála fyrr í vetur var einmitt gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslur yrðu verulega auknar. Þetta er það eina ráð sem fyrir hendi var til þess að koma í veg fyrir að þetta vandamál lenti með fullum þunga á bændastéttinni, þ. e. a. s. að tryggja að um svolitla neysluaukningu yrði að ræða. Ekki þurfti mikið til í sjálfu sér, því að eins og ég hef bent á hefur framleiðslan alls ekki aukist, en neyslan lítillega gengið til baka, þó þar skakki ekki nema réttum 10%. Með breyttu verðlagi á þessum vörum hefði alveg vafalaust verið hægt að snúa þeirri öfugþróun við.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja um þetta mál og síst af öllu þar sem hæstv. ráðh. sér sóma sinn helstan í því að vera fjarstaddur. Ég vil þó leyfa mér að harma hvað hæstv. ráðh. virtist hafa litlar áhyggjur af þessum vanda. Hér er um að ræða, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, að verið er að leggja 1/2 millj. og þaðan af meira, kannske upp í 900 þús. kr. aukagjald á stétt manna sem stendur illa að vígi. Ég er hræddur um að ýmsir aðrir en ráðh. hafi meiri áhyggjur af þessu vandamáli.