25.04.1978
Sameinað þing: 71. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3900 í B-deild Alþingistíðinda. (3071)

Umræður utan dagskrár

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Hér hafa hafist umr. um landbúnaðarmál. Er það út af fyrir sig ekkert undrunarefni þó að vandamál landbúnaðarins séu rædd úr þessum ræðustól.

Upphafsmaður að þessum umr. nú, hv. 5. þm. Norðurl. v., gerði þessi mál að umræðuefni vegna þeirrar ákvörðunar framkvæmdanefndar Framleiðsluráðs að innheimta verðjöfnunargjald af kindakjöti vegna hættu á óhagstæðum útflutningi kindakjöts á þessu verðlagsári. Þegar ég tala um óhagstæðan útflutning, þá á ég við það, að allar eru horfur á því, að flytja þurfi út verulegt magn af kindakjöti án þess að fáist greiddar á það útflutningsbætur eftir þeim leiðum og samkv. þeim lögum sem um þetta gilda nú.

Ég vil taka undir það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að mér finnst ekki hafa verið hljótt um þessi mál. Þó er þessi nýja ákvörðun kannske ekki enn á allra manna vitorði, en varla liður á löngu áður en svo verður.

Ég verð að segja eins og er, að komið hafa svo mörg atriði fram, einkum í ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds, að ástæða væri til að tala nokkuð lengi um þetta efni. Ég get ekki varist þeirri hugsun, þegar ég hlusta á hv. þm., að nokkuð skorti á að hann hafi kynnt sér þessi mál til fullrar hlítar. Ég er honum ekki sammála um það t. d., sem fram kom í ræðu hans nú síðast, að það hafi verið vegna ráðstafana sem juku kindakjötssölu hér innanlands, að hægt var að skila aftur því verðjöfnunargjaldi sem búið er að ákveða að taka og raunar búið að taka að nokkru leyti af sölu kindakjöts. Það var einfaldlega vegna þess, að fé fékkst úr ríkissjóði til að greiða þetta gjald beint, þannig að ekki þurfti að taka það af bændum. Ég veit ósköp vel að hægt er að deila um hvort landbúnaðarvörur séu dýrar eða ódýrar. Og ég veit að sumar tegundir landbúnaðarvara eru þannig verðlagðar, að þær eiga í mjög örðugri samkeppni. Þar á ég alveg sérstaklega við smjörið. Öllum er kunnugt að auk smjörs er selt annað tiltölulega vinsælt viðbit í landinu, sem kallað hefur verið fram til þessa smjörlíki, en gengur nú undir öðrum og líklega fallegri nöfnum stundum. Þetta viðbit, sem hefur tekið við af jafnágætu viðbiti og menn notuðu í gamla daga og var ýmist flot eða bræðingur, hefur m. a. það sér til ágætis, að læknastéttin hefur bundist nokkuð víðtækum samtökum um að hæla því á kostnað smjörsins. Það hlýtur að vera tiltölulega þægileg tilfinning fyrir húsmóður, sem velur á milli tveggja misdýrra fæðutegunda, að hafa það sér til stuðnings í valinu, að önnur fæðutegundin sé talin mjög miklum mun hollari en hin, en það hefur verið sagt um smjörlíki nú að undanförnu. Um hollustu þess eru þó mjög skiptar skoðanir fræðimanna, og ég vil leyfa mér að efast um að sá áróður, sem hér hefur verið rekinn gegn smjöri, hafi við nokkur fullkomin fræðileg rök að styðjast.

Því miður er það svo, að ekki er nægilegt til þess að leysa söluvandamál landbúnaðarins að auka stórlega niðurgreiðslur. Það mundi vafalaust auka sölu á smjöri þó — ég geri ekki lítið úr því — ef niðurgreiðslur væru enn auknar. En þrátt fyrir það tiltölulega lága verð, sem nú er á smjörinu, hefur salan, sem jókst mjög fyrst eftir að verðið lækkaði aftur, minnkað svo að nú er salan mjög svipuð því sem hún var áður en þessar auknu niðurgreiðslur hófust. Og þó að það sé út af fyrir sig rétt, að neysla smjörs og kindakjöts hafi minnkað allverulega frá því sem var þegar þessi neysla var mest og það var á árinu 1974, þá jókst t. d. sala á smjöri úr 1576 tonnum árið 1973 í 2000 tonn árið 1974, — þó að þessi sala hafi minnkað mjög verulega frá árinu 1974, þá er það ekki endilega sönnun þess, að þessi minnkun stafi öll af hækkuðu verði. Vafalaust hefur verðið sín áhrif, en það er fleira sem gerist. Eitt af því, sem gerðist, var að einmitt á árinu 1974 var verð lengstan hluta ársins, bæði á smjöri og kindakjöti. mjög lágt miðað við kaupgetu í landinu. Má raunar telja verðið óeðlilega lágt, því að það er ekki heldur til framdráttar sölu landbúnaðarvara að svo miklar sveiflur séu á verði þeirra miðað við almennt kaupgjald að neytendurnir missi að meira eða minna leyti sjónar á raunverulegu og eðlilegu verðgildi þessara vara. Ég er sannfærður um að stöðugra verðlag á landbúnaðarvörum hefði verið til lengdar heppilegra fyrir söluna. Það er að vísu auðvelt að auka söluna í bili með verðlækkun, en hitt er jafnvíst, að þegar hækkanir koma aftur, þær koma óhjákvæmilega í verðbólguþjóð félagi eins og við búum í, þá verður ekki eins auðvelt að skýra þær hækkanir fyrir neytendum.

Hv. síðasti ræðumaður sveigði nokkuð að landbrh. Hann er nú raunar því miður ekki staddur hér. Hann er kominn, já. En ég vil geta eins, þar sem mér fannst gæta misræmis í því sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Hann fullyrti í öðru orðinu. að ráðh. hefði fullyrt að þessu gjaldi yrði skilað aftur. (RA: Kynni að verða skilað aftur.) Það kom seinna. Síðar kom svo breytt útgáfa og þar fullyrti sami ræðumaður, að ráðh. hefði sagt að þessu gjaldi kynni að verða skilað aftur. Hann hafði mörg orð um það, að fyrri ummælin, sem hann hermdi eftir ráðh. og ekki voru rétt, væru ekki gott kosningaloforð, því að hið sanna mundi koma í ljós fyrir kosningar.

Ég get ekki varist þeirri hugsun, að mér finnst ræður hv. 5. þm. Norðurl. v. hér í dag hafa dálítið minnt á kosningaræður, ekki einungis ræðurnar um þetta mál, heldur jafnvel ræðan sem flutt var í sambandi við nafnakall um vegáætlun. Ég leyfi mér að láta mér detta í hug, að þessi skyndilega og mikla umhyggja hv. 5. þm. Norðurl. v. fyrir bændum og málefnum þeirra, sem vissulega þurfa á miklum skilningi að halda, sé nú kannske svolítið tímabilsbundin. Það marka ég þó einkum af því að eins og ég sagði áðan finnst mér hann ekki hafa kynnt sér málin til fullrar hlítar.

Það, sem ég vil einkum benda á í því sambandi, er fyrst þetta: Ræðumaður talaði mjög mikið um afnám söluskatts. Það er rétt að mjög æskilegt væri ef hægt væri að afnema söluskatt af kindakjöti. Hitt er jafnrétt, að auknar niðurgreiðslur koma bændum engu síður að notum en niðurfelling söluskatts. Það er blekking, að það sé sérstaklega mikils vert fyrir hinn almenna landbúnað að fella söluskattinn niður. Það er einfaldlega vegna þess að söluskattur yrði naumast niður felldur af kindakjöti nema hann yrði einnig felldur niður af þeim kjöttegundum sem eru í mestri samkeppni við kindakjötið, svo sem fuglakjöti og svínakjöti.

Hér er talað um að orðið hafi samdráttur á sölu kindakjöts, og það er rétt. talsverður samdráttur ef miðað er við árið 1974. Hér eru ekki nefndar neinar skýrslur um breytingar á sölu annarra kjöttegunda á þessu tímabili. Ég hef því miður ekki slíkar skýrslur hér í höndum, en mér er kunnugt um að verið hefur mikil sala á undanförnum mánuðum bæði á svínakjöti og fuglakjöti og það þrátt fyrir að þetta kjöt hafi verið miklu dýrara en dilkakjötið. Lækkun sú, sem varð í vetur á dilkakjötinu, mun hafa örvað sölu að einhverju marki, en þar sjást ekki neinar stökkbreytingar. Sannleikurinn er einfaldlega sá að það er mjög takmarkað sem hægt er að auka söluna með lækkun verðs. Það er hægt að auka hana nokkuð. En menn vilja tilbreytingu í mataræði sínu. Það mun vera tiltölulega sjaldgæft að menn spari við sig kaup á kindakjöti, a. m. k. eins og verðlag þess er í dag. Annar matur, sem er í mestri samkeppni við kindakjötið, er hreint ekkert mjög ódýr heldur. Ég held þess vegna að ekki sé hægt að gera sér vonir um stóraukna sölu á kindakjöti þótt verðið væri lækkað. Það þarf að leita annarra ráða til þess að bændur fái fullar tekjur af framleiðslu sinni.

Eins og ég sagði áður, þá hygg ég að vegna þessarar sérstöku aðstöðu smjörsins sé mjög mikilvægt að halda verði þess í skefjum ef sala á að verða góð á því. Í sambandi við það vil ég gjarnan geta þess, að gerðar hafa verið tilraunir til þess árum saman að fá breytt í Sexmannanefnd hlutföllum á milli verðs hinna ýmsu mjólkurvara. Það hefur ekki fengist. Og það hefur raunar, undir sumum kringumstæðum a. m. k. gætt áhrifa frá ríkisvaldinu og þá á ég við stýringu niðurgreiðslna. Staðreynd er að það er allt annað hlutfall hér á milli verðs t. d. á nýmjólk og smjöri en er í nágrannalöndum okkar. Þar er nýmjólkin hlutfallslega miklu dýrari og smjörið ódýrara. Við fulltrúar bænda í Sexmannanefnd höfum ítrekað, — ég vil ekki fullyrða að það hafi verið við hverja einustu verðlagningu, en mjög oft höfum við farið þess á leit, — að þessum verðhlutföllum yrði breytt. Þar hefur ævinlega strandað á samþykki fulltrúa neytenda. Ég get út af fyrir sig vel skilið að menn leggi kapp á að hafa lágt verð á neyslumjólk, jafnmikilsverð og almenn neysluvara og hún er. En í þeim eilífa samanburði, sem verið er að gera á milli landa og landbúnaðarvörur hafa sannarlega ekki farið varhluta af, þá eru þessi verðhlutföll, svo ólík því sem er í nágrannalöndunum, óheppileg fyrir landbúnaðinn.

Í sambandi við söluskattinn, sem ég nefndi áðan, minnist ég þess, að á þeim tíma sem Lúðvík Jósepsson var viðskrh. og felldur var niður söluskattur á mjólkurvörum, þá var farið mjög ákveðið fram á það af hálfu bændasamtakanna, að einnig yrði felldur niður söluskattur á kjöti. Það þótti ekki fært. Það er ástæðulaust, að ég fari að rekja hér hvers vegna stjórnvöld hafa ekki tekið undir þetta, hvorki á tímum vinstri stjórnar né þeirrar stjórnar sem nú situr. Það eru á því verulegir tæknilegir örðugleikar að fella niður söluskatt af kjöti, og þó að ekki væri til staðar sú ástæða sem ég nefndi áðan, að náttúrlega á að lækka hlutfallslega mest dýrasta kjötið og minna það ódýrara, þá mun það vera svo að dómi þeirra sem fást við innheimtu og eftirlit með söluskatti, að það mundi veikja söluskattsinnheimtuna og gera hana óöruggari og meira áætlanakennda ef söluskattur á kindakjöti yrði felldur niður. Ég ætti náttúrlega ekki að taka að mér það hlutverk út af fyrir sig að skýra hvernig á þessu stendur. en mér finnst að eftir langa mæðu hafi ég kannske skilið hvað er ólíkt með kindakjöti eða kjöti yfirleitt og öðrum landbúnaðarvörum sem ekki er söluskattur á, að þessar vörur breyta verðgildi sínu í búðunum umfram það sem nemur venjulegri verslunarálagningu. Kaupmennirnir kaupa kjötið helst í heilum skrokkum og brytja það og vinna með ýmsum hætti. Aftur á móti veit ég ekki annað um aðrar landbúnaðarvörur, sem seldar eru hér í smásölu án söluskatts, en að þær komi allar í umbúðum inn í verslanirnar og hægt sé að sýna fram á það með mjög glöggum reikningum, hvað keypt hafi verið og hvert verðmæti þess sé sem selt er. Ég veit ekki hvort þetta er nógu skýrt hjá mér, en þetta eru þau rök sem heyrast frá embættismönnum, og ég get út af fyrir sig skilið að þau séu ekki út í bláinn og hin harða andstaða, sem jafnan hefur verið gegn því að fella niður söluskatt á kindakjöti, mun af þessu stafa. Hitt get ég svo aftur endurtekið, að það mundi auðvitað verða tiltölulega virkt meðal til þess að lækka verð á öllu kjöti, og þá náttúrlega mest á dýrustu kjöttegundunum, að fella niður söluskattinn og það mundi lækka framfærslukostnaðinn í landinu. Það má margt jákvætt segja um ráðstöfun sem slíka, þó að ekki hafi orðið enn þá samkomulag um hana. En ég endurtek, að slík ráðstöfun væri ekkert sérstakt mál fyrir bændur að mínum dómi, miklu stærra mál fyrir neytendur og aðeins að því leyti mál fyrir bændur, að slík niðurfelling á söluskatti væri hærri upphæð en lækkaði í reynd verðið til neytenda. Yrði að sama skapi dregið úr niðurgreiðslum, þá álít ég að það mundi ekki verða jákvætt fyrir þá bændur sem stunda hinn venjulega hefðbundna landbúnað.

Eitt af því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., var að hann gerði ráð fyrir að niðurgreiðslur landbúnaðarvara nú eftir áramótin hefðu komið til þess að bæta bændum áhrif gengisfellingar. Þetta skil ég ekki mjög vel. Nýr verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara tók gildi 1. mars og inn í þann grundvöll voru komin áhrif gengisfellingarinnar að mjög verulegu leyti — ég vil ekki segja að fullu og öllu, því það er í raun og veru ekkert beint samband á milli niðurgreiðslna og ákvarðana landbúnaðarvöruverðs, eins og mér fannst að mætti skilja á orðum hv. þm. Verðið í verðlagsgrundvellinum er ákveðið án tillits til þess, hverjar niðurgreiðslur verða, þótt útsöluverðið á vörunum sé hins vegar ákveðið með hliðsjón af niðurgreiðslunum. Þess vegna er ekki verið að bæta bændum út af fyrir sig hækkun rekstrarvöruverðs og fjárfestinga, sem stafa af gengisfellingum, með því að hækka niðurgreiðslur. Það er algjör misskilningur þm. Fannst mér þetta bera vott um það, að hann hefði ekki glöggvað sig jafnvel á þessum málum og full þörf hefði verið á.

Ég held að ég ætti ekki að þurfa að skýra þetta betur. Ef þessar auknu niðurgreiðslur auka sölu á dilkakjötinu, sem þær áreiðanlega gera að einhverju leyti, þá minnkar útflutningsbótaþörfin, þá minnkar hættan á því, að útflutningsbætur dugi ekki til þess að greiða bændum umsamið verð.

Á s. l. hausti, eins og fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum, var skilað til bænda aftur gjaldi sem tekið hafði verið vegna verðjöfnunar eða hugsanlegrar áætlaðrar verðjöfnunar vegna útflutnings á dilkakjöti. Það var gert vegna þess að það komu beinar greiðslur úr ríkissjóði til þess. Það, sem nú er verið að gera og ég held að mönnum hljóti að vera alveg ljóst og bændum hefur verið ljóst lengi er að verið er að gera ráðstafanir til þess að hægt sé að jafna þeim halla, sem kann að verða á útflutningi landbúnaðarvara, niður á bændurna. Þetta er gert vegna þess að í lögum finnst ekki þess stoð hvorki í fjárlögum né öðrum lögum, að hægt verði að auka útflutningsbætur umfram þann 10% rétt sem framleiðsluráðslögin gera ráð fyrir nú í dag. Að áliti bændasamtakanna væri það ábyrgðarleysi að gera ekki bændum grein fyrir þeim vanda sem þarna hefur ekki enn verið leystur, og það væri sömuleiðis ábyrgðarleysi að gera ekki ráðstafanir í tæka tíð til þess að bændur sætu við sama borð um verð á vörunum. Hins vegar, eins og kom fram í ræðu hæstv. landbrh., var nokkur ágreiningur um, hvernig þessi gjaldtaka skyldi fara fram, og ágreiningur um, hvort á því lægi að ákveða þetta gjald nú. Þessi ágreiningur stafar einfaldlega af því, að enn er alls ekki að fullu ljóst hversu hátt þetta gjald þarf að verða. Það er ekki að fullu ljóst og verður ekki ljóst fyrr en sést hver salan er í kindakjötinu. Við eigum eftir af þessu verðlagsári rúma fjóra mánuði, og við vitum ekki með neinni vissu hvernig sala á dilkakjöti verður þennan tíma. Við vitum ekki heldur með fullri vissu um verð á því dilkakjöti sem er selt til útlanda. Það er vitað að það koma á það einhverjar verðbætur umfram það verð, — eða a. m. k. norska kjötið, ég er ekki viss um að það sé víðar, — sem þegar hefur verið greitt á þann útflutning sem fram hefur farið, og það kann að verða, án þess að við getum fullyrt um það, að breyting verði á verði þess kjöts sem eftir er að flytja út. Þess vegna er alls ekki víst í dag hversu hátt þetta gjald þyrfti að vera, þó ekki kæmu til neinar ráðstafanir annars staðar að til þess að bæta þetta.

Á s. l. hausti gerði ríkisstj. ráðstafanir til þess að komið væri í veg fyrir þessa gjaldtöku, sem ég var að lýsa áðan. Það er að vísu ekki séð hvaða ríkisstj. verður við völd á næsta hausti, en það er engin ástæða til þess að fullyrða að það kynnu ekki að verða gerðar ráðstafanir áður en verðlagsári lýkur og áður en þessir reikningar eru upp gerðir sem minnkuðu þessa byrði sem þó virðist nú að þyrfti að leggja á bændastéttina.

Ég ætti náttúrlega ekki að þurfa í sjálfu sér að eyða mörgum orðum um þessi mál að öðru leyti. Mér er það ekki síður ljóst en öðrum, að fari svo að vanti á verð dilkakjöts frá s. l. hausti upphæð sem nemur kannske 70–80 kr. á hvert kg innvegins dilkakjöts, þá er það geysileg tekjuskerðing fyrir bændur. Og ég er þess fullviss, að þeir, sem vinna fyrir bændur, gera það sem hægt er og mögulegt er til þess að koma í veg fyrir að þessi tekjuskerðing verði. Hvort það tekst hlýtur tíminn að leiða í ljós.

Það kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., að skipulagsleysi hái landbúnaði. Það kann að vera rétt. Það hefur mikið verið talað um landbúnaðinn að undanförnu. Eitt af því, sem menn hafa þar deilt um, er það t. d., hvernig ætti að skipuleggja framleiðsluna. Fulltrúar bænda hafa verið bornir þeim sökum, að þeir sæju ekkert annað ráð en að minnka framleiðsluna. Í grein, sem hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson. sem hér er raunar ekki staddur í dag, skrifaði í Þjóðviljann um miðjan janúar s. l., ræddi hann þessi mál allítarlega. Hann gerði þar samanburð sem ég hef nokkuð vikið að, á framleiðslu og sölu landbúnaðarvara á árunum 1973–1977. Þar kemur auðvitað í ljós, að árið 1974 sker sig algjörlega úr um neyslu, enda er það svo, að við þetta ár er fyrst og fremst miðað þegar um þessi mál er rætt og talað um samdrátt í neyslu og litla aukningu í framleiðslu. En aukning í framleiðslu hefur ekki orðið mjög mikil fyrr en í mjólkurframleiðslunni núna á síðasta ári og það sem af er þessu — þá er um mikla aukningu að ræða. Það vil ég skýra svolítið nánar, að þegar við tölum um mikla aukningu í mjólkurframleiðslu, þá þarf hún ekki endilega að vera mjög mörg prósent af heildarframleiðslunni, en hún þarf ekki að vera ýkjamikil til að hún sé mjög mörg prósent af því sem ekki er seljanlegt í landinu. Það er það sem veldur vandkvæðum. Þegar heildarmjólkurframleiðslan vex um 5%, þá vex það, sem við gefum ekki selt í landinu, um allt aðra prósentutölu og miklu hærri. Það er það sem vandkvæðum veldur, að tiltölulega lítil framleiðsluaukning veldur eða getur valdið mjög mikilli aukningu á útflutningsþörfinni, og það er nákvæmlega það sem hefur gerst með mjólkina núna, þó að mjólkin sé ekki enn þá orðin svo mikil að þar sé um neitt svipað því eins mikið vandamál að ræða og varðandi sauðfjárafurðirnar.

Í þessari grein Lúðvíks Jósepssonar, sem ég minntist á, er talað um að nauðsynlegt sé að skipuleggja framleiðsluna. Ég er þm. hjartanlega sammála um að það sé nauðsynlegt, og þá á ég við nauðsyn vegna bændanna sjálfra að framleiðslan sé skipulögð. Sú skipulagning, sem talað er um í greininni, er þó eingöngu sú, að því er virðist, að það þurfi að skipuleggja það, hvar sé framleidd mjólk og hvar sé framleitt kjöt. Þetta skiptir að vísu kannske nokkru máli, en er ekki höfuðatriði í málinu. Hins vegar segir beinlínis í greininni: Aðalatriðið er, að það á ekki að draga úr framleiðslunni. — Það gerir þm. að aðalatriði boðskapar síns, að það eigi ekki að draga úr landbúnaðarframleiðslunni. Undir þessi orð gæti ég tekið ef bændum væri jafnframt tryggt fullt verð fyrir þessa framleiðslu sína. En meðan það er ekki hægt — og mér er til efs að það verði auðvelt að fá fulla tryggingu fyrir slíku — tel ég að nauðvörn bændastéttarinnar sé að draga nokkuð úr framleiðslunni. Enn þá hafa bændur ekki orðið sammála um hvernig ætti að gera þetta, en ég held að það sé ákaflega viðtæk samstaða á meðal bænda um það, að þetta sé nauðvörn þeirra, að það sé dregið úr framleiðslunni að nokkru án þess að með því sé t. d. fækkað fólki í sveitunum í verulegum mæli eða aðrar erfiðar afleiðingar komi upp. Það er nefnilega þannig, að það borgar sig auðvitað ekki fyrir bóndann frekar en annan að framleiða vöru, sem hann getur ekki fengið neitt teljandi verð fyrir, og það skilja bændur mætavel.

Eins og ég sagði áðan hafa bændur ekki orðið sammála um hvernig ætti að gera þetta. Það finnst mér raunar ekki óeðlilegt. Það er mjög eðlilegt að það taki verulegan tíma fyrir bændastéttina sem heild að koma sér saman um skipulagsatriði eins og þessi. Það hefur verið talað um ýmislegt í þessu sambandi. Það hefur verið talað um kvótakerfi. Það hefur verið talað um fóðurbætisskatt. Það hefur verið talað um skipulagningu gegnum lánastarfsemi o. s. frv. Þetta er einn stærsti vandi bændastéttarinnar í dag, að ekki hefur enn þá fundist leið til þessarar skipulagningar sem bændastéttin í heild hefur getað fellt sig við. Ég er sannfærður um að slík leið finnst. E. t. v. gerist það, að t. d. nágrannar okkar gjörbreyta landbúnaðarpólitík sinni. E. t. v. gerist það t. d., að Norðmenn hætti að greiða dilkakjöt sitt niður um meira en helming, þannig að við getum farið að selja dilkakjöt í Noregi á eðlilegu verði. Þá væri með einu pennastriki, ef svo mætti að orði kveða, læknaður allur stærsti vandi landbúnaðarins. Norskir neytendur greiða með niðurgreiðslunum meira en helmingi hærra verð fyrir eigið dilkakjöt heldur en það sem fæst fyrir íslenska dilkakjötið í Noregi. Norskir bændur fengu á s. l. ári milli 4 og 5 þús. kr. meira fyrir það, sem við köllum meðaldilk, heldur en íslenskir bændur fá, en niðurgreiðslurnar eru svo miklar að við fáum í Noregi núna tæpan helming þess verðs sem við þyrftum að fá til að við gætum greitt bændunum fullt verð. Ef slíkar breytingar yrðu hjá frændum okkar Norðmönnum, þá kynni sá stóri vandi, sem við búum nú við, að minnka mjög og verða tiltölulega vel viðráðanlegur.

Líka er hægt að hugsa sér það, að útflutningsbætur verði auknar eða aðrir styrkir við landbúnaðinn til þess að bændur fengju full kjör. Ég vil geta þess, að fyrir liggur till. um það, ef ég man rétt, frá einverjum þm. Alþb. að breyta útflutningsbótum, þannig að hækkuð verði prósenttala á hverja búgrein um sig, sauðfjárafurðir og nautgripaafurðir. Ef þessi till. yrði samþ. og hún kæmi til framkvæmda, þá mundi það kannske undir einhverjum kringumstæðum auka útflutningsbætur, en undir öðrum kringumstæðum stórminnka þær. T. d. hefðu þær minnkað á s. l. ári ef þessi regla hefði verið í gildi, vegna þess að þá var eiginlega ekkert flutt út nema sauðfjárafurðir. Þá hefðu stórminnkað útflutningsbætur á sauðfjárafurðir. Við megum líka muna að útflutningsbæturnar eru miðaðar við heildarlandbúnaðarframleiðsluna og þar með aðrar afurðir en sauðfjárafurðir og nautgripaafurðir. (Gripið fram í.) Þm. Alþb.? (Gripið fram í.) Var það Alþfl sem gerði það? Já, þá tek ég það aftur og þykir slæmt að hafa ætlað þeim það.

Herra forseti. Ég er nú þegar búinn að nota mikinn tíma fyrir þetta skraf og læt því lokið.