25.04.1978
Sameinað þing: 71. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að þreyta kappræður við hv. 5. þm. Norðurl. e., en láta alveg afskiptalaust orðafar hans og lýsingu á mönnum og málefnum sem er að hans geðþótta. Það er ekki mitt að reyna að koma þessum hv. þm. inn á aðra braut. Hitt er annað mál, að þegar farið er að drótta því að manni að maður fari með staðlausa stafi eða hafi sagt þetta og hitt sem ekki hefur sagt, þá verður leiðrétting að koma á því.

Í fyrsta lagi var ekki hægt að skilja orð hv. 5. þm. Norðurl. e. á annan veg en þann, að í skýrslu þeirri frá Þjóðhagsstofnuninni sem ég las upp og er sýnishorn af skattframtölum bænda á þessu ári fyrir liðna árið, væri ekki rétt með farið. Það hefur ekki komið fram nein heildarviðmiðun, eins og er gerð af Hagstofunni, frá því á árinu 1977, samanburður við aðrar viðmiðunarstéttir á árinu 1977. Slíkt er ekki tíundað í þessari skýrslu sem þar er um að ræða. Ég hef áður margendurtekið það á hv. Alþ., að á þessu varð geysileg breyting sem gerir að verkum að þessi samanburður er ekki marktækur eftir nefndar breytingar. Ástæðan fyrir því er sú, svo ég fari nú að endurtaka það einu sinni enn þá, að áður fyrr var fært á brúttótekjur bænda allt nema nauðsynlegustu rekstrarvörur landbúnaðarins, eins og fóðurbætir, áburður og slíkar vörur. Þær voru taldar á landbúnaðarskýrslum. En með breytingum sem voru gerðar á árinu 1972, er þessu breytt á þann veg að vextir, fasteignagjöld, flýtifyrningar og annað því um líkt er fært á landbúnaðarskýrsluna. Það gerir þá miklu breytingu, að ekki er hægt að gera þennan samanburð á milli áranna 1964–1976 nema taka tillit til þess arna. Og það veldur þessum mismun bændum í óhag, ef þetta er tekið beint svona, vegna þess að það eru brúttótekjur bændanna sem eru lagðar til grundvallar í þessari viðmiðunaruppsetningu, en þegar búið er að draga svo og svo mikið frá þeim, þá lækka þær af sjálfu sér. Hins vegar varð bændunum í hag sú ákvörðun sem er tekin af hinum illgjarna manni, núv. landbrh., að dómi þessa hv. þm., — að hún var tekin á þann veg, því skattalega séð var þetta mikill hagnaður fyrir bændur. Ekki síst verður það ljóst þegar skattar verða lagðir á fyrir s. l. ár, því sem betur fer hafa tekjur bænda hækkað verulega á milli þessara ára, eins og ég gat um áðan.

Þetta vona ég að hv. 5. þm. Norðurl. e. skilji, jafnvel þó mér sé ljóst að annað er honum nær að hafa óskír um.

Ég verð líka að segja það, að eftir að hafa setið í ríkisstj. með þeim Alþb.-mönnum í þrjú ár, sem ég hef nú samt allt gott um að segja, og þegar ég heyri það nú í útvarpi og les í blöðum, að minn ágæti kunningi og maður sem ég met mikils, Lúðvík Jósepsson, hv. 2. þm. Austurl., er farinn að ferðast og tala á bændafundum, þá verður mér að hugsa og þá dettur mér fyrst og fremst í hug Steinn Steinarr: „En eitthvað er breytt, og annað hvort ég eða þjóðin“ — eða þá Lúðvík. Hv. 2. þm. Austurl. er aldrei í essinu sínu nema hann tali fyrst og fremst um útvegsmál og sjávarútveg og allt það. Skelfing vildi ég nú óska þess, að ég ætti eftir að heyra hann og Kristján Friðriksson tala um atvinnuvegina, hann um sinn sjávarútveg og Kristján um sinn iðnað. Það væru ábyggilega ánægjulegar viðræður á að hlusta, því háðir væru svo sanntrúaðir og sannfærðir um að það eitt, sem þeir héldu fram, væri rétt.

En svo er það þessi nýja pólitík Alþb. Hvað gerðist ekki í vetur sem leið? Þá skiptu þeir um, voru komnir inn á þessa linu. Það sem ég hef sannast heyrt af því — ég veit nú ekki hversu satt það er, ég skal ekki segja um það — er að Ólafur Ragnar Grímsson, sem við þekkjum, framsóknarmenn, hafi gefið þeim fyrirskipun um að taka upp þessa línu því þeir mundu sennilega geta náð einhverjum atkvæðum af Framsókn út á þetta. Hitt vissu menn, að þetta stæði nú ekki nema fram yfir kosningar því þá átti það að vera búið að ná tilgangi sínum. — En hugsið ykkur nú annað eins, að Alþýðusambandsstjórnin fer í mál við bændasamtökin þegar þeir hækka launin sín og verðlagið í fyrra samkv. ákvörðun Sexmannanefndar, sem er sammála um þetta, af því þeim bar réttur til þess samkv. lögum. Hún fer í mál út af því, að þetta er hækkað. Og svo eigum við að trúa því, að þetta séu hinir nýju málsvarar fyrir íslenskan landbúnað og íslenska bændur. Já, eitthvað er breytt, annaðhvort ég eða þjóðin — rétt er það. Og ef Alþb. á að verða sá flokkur sem á að bera upp pólitíkina fyrir íslenskan landbúnað, þá segi ég: Guð hjálpi mér. (Gripið fram í.) Það er ekki nokkur leið að hjálpa landbúnaðinum úr því og það er jafnsorglegt fyrir mig eins og fyrir landbúnaðinn. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt ef þeir fela þessum mönnum málefni sin. Það er alveg vonlaust.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði að ég hefði gefið fyrirheit um endurgreiðslu á þessari gjaldtöku. (Gripið fram í.) Ég sagði: Hún er ákvörðuð af framkvæmdanefnd framleiðsluráðs bænda, ekki haft samráð við landbrh. og hann ræður þar engu um. Hins vegar, eins og ég sagði líka í dag, þá hafði ég rætt við Seðlabanka Íslands um það, að þeir hættu að innkalla lánin á landbúnaðarvörum, afurðalánin á landbúnaðarvörunum, þann hlutann af niðurgreiðslum sem ætti að endurgreiðast, þangað til séð yrði hvernig færi um þann þátt. Ef þeir hefðu gert þetta í fyrra hefðum við verið búnir að innheimta verulegan hluta af afurðalánum vegna þess sem ógreitt var þangað til ríkisstj. tókst að fá þau mál afgreidd með þeim hætti, að það var allt greitt upp um áramót. En það var ekki fyrr en um áramót. Þannig var þetta líka 1976. Meira að segja voru þeir þá farnir að innheimta og farnir að taka af einum sláturleyfishafanum, Sláturfélagi Suðurlands, út á afurðalánin. Þá var það landbrh. sem fékk þá til þess að doka við þangað til séð yrði hvernig færi um útflutningsbæturnar. Ég er ekki að segja og ég tók það fram í ræðu minni í dag, að ég hefði ástæðu til að ætla að þeir, sem best þekktu, eins og Framleiðsluráðið, mætu það rétt, að útflutningsbæturnar mundu ekki nægja til þess að greiða þetta að fullu í haust. En hversu mikið það kann að verða, því kann ég ekki heldur skil á. Ég veit líka, að ef ekki þarf á þessu fé að halda verður því skilað aftur, af því það er ekki gjald, heldur geymslufé, alveg eins og t. d. ef hv. 5. þm. Norðurl. v. þyrfti að flytja vörur inn í landið sem banki tæki ábyrgð á, en bankinn léti hann greiða geymslufé þangað til varan væri að fullu greidd. Ég held að það hafi verið á þessu ári rætt nokkuð um hlutverk deildar í banka einum sem annast slík eðlileg viðskipti, þó að mistök yrðu þar á. En þetta er sá háttur sem hafður er á til tryggingar þeim sem ábyrgðina tekur, og þegar Seðlabankinn innheimtir ekki afurðalánið, þó að veðið sé farið, þá er ekkert undarlegt þó að hann vilji hafa einhverja tryggingu fyrir slíku. Það, sem hann taldi tryggingu 1976, var að ríkissjóður mundi greiða 10%, eins og lögin mæltu fyrir um. Það var gert. Það var ekki eins öruggt í fyrra vegna þess að þá var reglan brotin, þó að það væri jafnað upp með ónotuðum heimildum frá fyrri árum. Nú er slíkt ekki til staðar vegna þess að heimildin er fullnýtt. Það er þess vegna sem er verið að þessu.

Það þjónar engum tilgangi og er engum til góðs að fara að telja bændum trú um að það sé alveg sama hvort þeir framleiða lítið eða mikið, ekki vaxi möguleikar til þess að selja framleiðsluna að heldur. Ekkert gagn er í því. Og það þýðir ekkert að halda því fram, að hægt sé með niðurgreiðslum að mæta þessu að öllu leyti. Það er alveg vonlaust. Og ég vil m. a. segja hv. 5. þm. Norðurl. e. það, að niðurgreiðslurnar 1974, sem að mínu viti fóru fram úr því sem réttmætt og skynsamlegt var, og ég hef aldrei líkað við að viðurkenna það, gengu enn lengra. Þær höfðu áhrif á söluna, ég veit ekki hvað langan tíma á eftir. En það voru nefnilega margir þá sem keyptu sér frystikistur til þess að eiga birgðirnar nokkuð lengi. Þess vegna þýðir ekki að ætla að byggja upp landbúnaðarpólitík eða aðra framleiðslu með slíkum hætti. Það verður að byggja stefnu sína á raunsæi.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. taldi það goðgá, að landbrh. hefði sett markaðsnefnd og hvort þar væri ekki treystandi umboðsmönnum, umboðssölu til samvinnufélaganna, til þess að selja. Heyrst hefur það nú, og ég veit ekki nema það hafi komið í blaði hv. 5. þm. Norðurl. e., að ekki væri þeim ágætu mönnum í öllu treystandi. Nú vil ég ekki taka undir það, þó ég viti að þar séu menn mannlegir eins og annars staðar. Hitt vil ég segja, að það er alveg eins með þá og aðra, og það er alveg sama hvar er, þessi mál verða ekki unnin upp nema leggja í þau mikla vinnu. Og ástæðan til þess, að það var kostað til að fara á sýninguna í Berlín í vetur, var einmitt að reyna að vinna þar upp markað. Og þetta er það sem verður að gera. Þó er mér fullkomlega ljóst að það þarf mikið til fyrir landbúnað okkar meðan verðbólga í landi okkar heldur svo áfram eins og raun ber vitni um.

Ég sagði um daginn, að t. d. um það leyti sem ég var valinn í ráðherrastól, þá hafi verð á fiskblokkinni í Bandaríkjunum verið 21 cent. Hvað hefur skeð núna? Fiskblokkin kostar yfir 1 dollar. Það hefur hæst við 1 dollar, en samt á sjávarútvegurinn við margvíslega erfiðleika að etja. (Gripið fram í.) Það er nú fleira en stjórnin. Þetta gekk nú svona líka, vinur sæll, hv. 5. þm. Suðurl. þegar við vorum í stjórn með Alþb. 1971 var ekki létt ár. Það var fjarri því. Og við hefðum ekki farið út í gífurlegar niðurgreiðslur þá nema af því að því miður tókst okkur ekki að ráða við verðlagið í landinu. Það skal hins vegar viðurkennt, að erlend áhrif voru þar geysilega virk vegna olíukreppunnar. Þær afleiðingar, sem af henni hlutust, voru engir smámunir. Við höfum líka orðið að búa við það. Þess vegna höfum við orðið að leggja eins mikið og við höfum gert núna á síðustu árum í hitaveitur og m. a. s. í Kröflu, til þess að reyna að ná jafnvægi vegna olíuhækkunarinnar. En þetta er annað mál. Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði í sambandi við vegamálin áðan, að ég hefði ekki viljað binda bagga. Ég tel það miklu eðlilegri hátt í þingmennsku, að þegar um er að ræða mál sem á að vinna sérstaklega að í framtíðinni, þá fáist nýkjörið þing við undirbúning slíks máls, en ekki þing sem er að ljúka störfum sínum, eins og við erum að gera nú. Hitt er mér ljóst, að hver sem kann að verða landbrh. í haust eða fara með ríkisstj. verður að fást við þessi vandamál.

En mér er líka ljóst að við greiðum ekki auknar útflutningsbætur nema með lagabreytingum. Það hefur nú ekki verið sá tónninn í mönnum hér á landi, að það sé það — sem stefna ætti að. Ég er sannfærður um, eins og hv. þm. Ingi Tryggvason, hv. 6. þm. Norðurl. e., kom hér að áðan, að niðurgreiðslurnar hafa viss áhrif, en þeim eru líka takmörk sett. Eins og hann nefndi réttilega mun t. d. sala smjörsins, sem er áhrifameira en flest annað, vera komin í fyrra horf þrátt fyrir háar niðurgreiðslur. Svo skulum við bara gera okkur grein fyrir því, að neyslubreyting hefur orðið, kindakjötið er ekki eins mikilvæg neysluvara Íslendinga og áður var. Nautakjötið er komið þar inn i, svínakjötið og alifuglakjötið.

Eins og hv. þm. Ingi Tryggvason sagði og út af því sem kom fram um afstöðu hans í vetur á atkvgr., þá mun fyrirvari hans hafa verið þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Herra forseti. Í trausti þess, að athugað verði mjög gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt að auka niðurgreiðslu á kjöti og sú athugun fari fram mjög fljótt, og vísa ég þar til þess sem áður hefur verið sagt hér við atkvgr., þá segi ég nei.“

Þetta var líka gert. Niðurgreiðslurnar voru auknar. Niðurgreiðslur hafa sömu áhrif og söluskattur nema að einu leyti: Ef verðhækkanir verða, en niðurgreiðslurnar standa í stað, þá eru áhrifin ekki þau sömu. Og nú erum við komnir með verulega fjárhæð fram yfir það sem hefði gerst ef við hefðum fellt niður söluskattinn og þá líka niðurgreiðslurnar. (Gripið fram í.) Það skal hv. 5. þm. Norðurl. e vita, að ekki er möguleiki hér á hv. Alþ. að breyta þarna alveg um. Hvernig á líka að hugsa sér að hægt sé að auka útgjöld ríkissjóðs án þess að afla honum tekna á móti? Það er ekki hægt. Auk þess er það rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Inga Tryggvasyni og kom fram í athuguninni sem gerð var af vinstri stjórninni, að hættan samfara því að fella söluskattinn niður af kjöti var svo mikil vegna þess að við vorum þá að opna leiðir til þess að svindla í hinum stóru verslunum. Það á engin ríkisstj. að fara inn á þá leið sem getur beinlínis boðið upp á skattsvik. Ég segi hv. 5. þm. Norðurl. e. það, og það er alveg sama hvort hann trúir því eða ekki, að ég hefði hiklaust gert þetta. Ég lét leggja í það geysilega vinnu að athuga þetta og ég ræddi þetta mikið í ríkisstj., hvort ég eða aðrir treystu sér til að leggja út í þessa aðgerð. Það er allt annað að fást við kjötið vegna þess hve breytileikinn er mikill í endanlegri sölu á því. Það er ekkert sambærilegt að selja smjör eða egg eða þess háttar. Það er allt annað. Kjötið er sú landbúnaðarvara sem breytileikinn er hvað mestur í.

Hér kom fram áðan atriði í sambandi við grundvallarverðið. Grundvallarverðið er það verð sem Framleiðsluráðið, sem er umboðsmaður bændanna og Sexmannanefnd ákveða og þeir umboðsmenn, sem eru á hinum kantinum, annaðhvort með samkomulagi eða með dómi, sem hefur mjög sjaldan komið til nú á síðustu árum, þangað til dómurinn í haust var ákveðinn. Þetta er það verð sem lagt er til grundvallar, og þetta eru þær tekjur sem þeir ákveða að bændur skuli fá fyrir framleiðslu sína. Það er ekki ríkisstj. sem ákveður þetta. Ég gerði tilraun til að láta semja við ríkisstj. þegar ég lagði fram frv. um breyt. á framleiðsluráðslögunum. En vinur okkar hérna, sem kallar sig Alþb.- mann, og minn ágæti kunningi, hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, vildi þá ekki fallast á frv. Hann var einn af þeim sem stöðvuðu það frv. fyrir mér. Það er víst eina frv. sem ég hef ekki komið í gegnum þingið í minni ráðherratíð, og munu þó vera um eða yfir 30 lög í landbúnaði sem hafa verið sett á mínum vegum á þessum árum. En þetta frv. var stöðvað. Ég vil líka minna á, og það er gott fyrir hv. 5. þm. Norðurl. e. að muna það þegar hann fer að tala sem bændafulltrúi norður í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði í vor, þegar við vorum að breyta framleiðsluráðslögunum ummjólkursöluna. Það var ekki deilt um það af fulltrúa Alþb. í landbn., heldur um það, að í þessu frv. var heimild til þess að færa á milli og jafna á milli sláturhúsanna, þeirra nýju og þeirra gömlu, að ná í gegnum sláturkostnaðinn jöfnun á þessu. Það var þetta sem stóð í Alþb., en ekki mjólkursalan. Hv. 5. þm. Norðurl. e. skal lesa sér til í þskj. og þingræðum og vita hvort hann finnur þetta ekki. En þá var Alþb. ekki orðið landbúnaðarflokkur eins og þm. þess telja sér trú um og ætla að reyna að vera núna.

Ég minni nú á þetta og minni á að það var eingöngu árið 1975 sem ekki náðist fullt grundvallarverð. Öll hin árin hefur það náðst. Ég minni á það, að ef hv. þm. vilja kynna sér afkomu bændastéttarinnar með réttum samanburði, þá mun það sýna sig að árin 1971–1977 eru jafnbestu árin um afkomu bænda í þessu landi. Árin 1964–1965 eru þar líka með þeim fremstu. En ef tekið er lengra tímabil, þá eru þetta bestu árin. Það er alveg sama hvað haldnir eru margir fundir til þess að reyna að prédika annað. Þetta er staðreynd sem ekki verður um flúin. Árið 1977 mun sýna það ekki hvað síst. Sennilega verður það enn þá betra en árið 1973, sem var þó það besta hingað til.

Ég sé að ég þarf að fara að stytta má1 mitt. Það var ekki það, að ég vildi ekki vera hér við umr. áðan, eins og var verið að glósa með, heldur hitt, að ég var búinn að ákveða og þurfti að hitta mann, sem fer úr landi í fyrramálið, og gat ekki látið það hjá líða. En ég vil segja það, að ég gerði um daginn grein fyrir lausaskuldum bænda og þeirra sem verst væru settir. Eitthvað fannst mér á sumum að dregið væri í efa að rétt væri með farið. Form. nefndarinnar sagði mér, að það hefði verið leitað til sín og hann spurður, hvort hann hefði gefið þessar upplýsingar, sem og hann sagðist hafa gert. En hann gerði meira. Hann hafði, frá því að þetta gerðist og þangað til hann hitti mig, farið í nokkur skattumdæmi til að kynna sér þetta og þá voru staðreyndirnar þær, að það varð breyting til batnaðar á árunum 1976–1977 frá því sem áður hefur verið. Hún var að vísu ekki stórfelld og var misjöfn eftir héruðum, en um flest í rétta átt, enda ekki undarlegt. Það kemur líka fram í þessari grg. — (Gripið fram í.) Já, 1976–1977, en ég var ekki með 1977 í ræðu minni hérna um daginn. Það var ekki komið. Hann athugaði það fyrir mig þá, eins og ég sagði að ég hefði beðið hann að gera. Það kemur líka fram í þessari grg. frá Þjóðhagsstofnuninni sem ég vitnaði til í dag, að breytingin er minni á Norður- og Austurlandi en hún er á Suður- og Vesturlandi og Vestfjörðum milli þessara ára, enda ekki undarlegt því árin 1975 og 1976 voru verulega erfið ár á Suður- og Vesturlandi. Þess vegna er ekki undarlegt þótt breytingin sé þar meiri.

Nú ætla ég ekki að eyða í þetta lengri tíma. Það fer svo, að við hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Norðurl. v. erum ekki sammála um þessa bændapólitík, enda ekki undarlegt, því þeirra hugsun er að byggja sína bændapólitík á því, að ég hafi verið lélegur landbrh. Að vísu eru það ekki haldgóð rök. Ég minnist þess, að frambjóðandi þeirra, hv. 5. þm. Vesturl., sagði á framboðsfundi síðast: Til þess að þið tryggið nú að halda ykkar góða landbrh., þá verðið þið að kjósa mig. — En það er rökvísi á svipaðan hátt og hér hefur verið notuð.