25.04.1978
Sameinað þing: 71. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3917 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

Umræður utan dagskrár

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hér hafa orðið miklar umr. utan dagskrár um verðlags- og markaðsmál og framleiðslumál landbúnaðarins og vandamál á þessu sviði. Þessi mál eru nú höfuðmál landbúnaðarins auk lánamála, sem ég skal ekki fara út í hér. Vegna þess, hve áliðið er dags, skal ég stytta mál mitt og aðeins drepa á nokkra þætti af því sem hér hefur komið fram og mér þykir ástæða til að vekja athygli á.

Það er rétt, sem fram hefur komið, að það sækja þung vandamál að bændum þessa dagana í tengslum við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um verðjöfnunargjald af sauðfjárframleiðslu. Þetta er þó ekki, eins og hv. þm. og talsmenn Alþb. hafa talað, með þeim hætti að bændum hafi í raun og veru komið þetta á óvart. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Inga Tryggvasyni, að þetta hefur legið fyrir frá því skömmu eftir sláturtíð og er því ekki um nýtt mál að ræða. Það úrræði, sem hér er tekið, að taka innvigtunargjald, er hið eina sem framleiðsluráðslögin gera ráð fyrir til þess að mæta því að jafnað verði á milli framleiðslusvæða ef útflutningsbótafé dugar ekki til. Þetta vissu bændur og þurfti engum að koma á óvart. Það er hins vegar alveg rétt, að ríkisstj. hefur ekki gripið til neinna ráða til þess að breyta þessum lögum á þá lund, að til annarra ráða mætti grípa. Það hefur ekki verið tekið upp í lögin svokallað kvótakerfi, ekki verið tekið upp að leggja sérstakt gjald á innflutt fóður né breytt lögum á þá lund að hækka útflutningsbætur frá því sem nú er og lögin gera ráð fyrir. Ég hefði kosið að heyra það hjá talsmönnum Alþb., sem hér hafa talað, hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Norðurl. e., til hvaða ráða þeir hefðu kosið að grípa til þess að greiða úr þessum vanda.

Ég undrast það nokkuð, að hv. þm. Alþb. hafa runnið um héruð og haldið fundi um landbúnaðarmál, vandamál landbúnaðarins, og koma hingað til þess að ræða þessi mál án þess að þess verði vart að þeir geti bent á eina einustu leið til úrbóta. (Gripið fram í.) Það eina, sem þið hafið bent á, hv. þm. Alþb., í þessum umr., er það að ef niðurgreiðslur væru auknar meira eða þá að söluskattur verði felldur niður af kjöti, þá væru öll mál leyst af sjálfu sér. (Gripið fram í.) Og það er kannske dálítið svipað sem bóndi einn sagði mér af bændafundi þar sem hv. 2. þm. Austurl. mætti, að hann hafi talið öll þessi vandamál landbúnaðarins vera eiginlega tilbúning af hálfu stjórnvalda vegna þess að ef fólkinu væri borgað meira gæti það étið meira og þá væru framleiðslu- og markaðsmál landbúnaðarins leyst. Þetta þótti bónda vera heldur ódýr lausn. Það eina, sem bryddað hefur á í þessum umr. af hálfu talsmanna Alþb., er á þá lund, að ef niðurgreiðslur væru auknar mundi greiðast úr sölumálum landbúnaðarins, vegna þess að þá mundi neyslan vaxa það mikið að ekki þyrfti lengur að hafa áhyggjur af þessum málum.

Þessu hefur raunar þegar verið svarað svo rækilega að ég skal ekki bæta miklu við, en ég tel þó að hér sé hvergi nærri um fullnægjandi lausn að ræða og í rauninni nánast að segja leikaraskap einn.

Það er út af fyrir sig rétt, að það mundi létta nokkuð þessi mál ef söluskattur væri felldur niður af kjötvörum eða niðurgreiðslur enn auknar, en hvergi nærri duga til þess, að ekki vantaði á verð til bænda eða vantaði þannig á verðtryggingarfé. Það er alveg ljóst. Og ég held að þeir hv. 5, þm. Norðurl. e. og v. ættu að huga betur að þessum málum áður en þeir halda því fram, að þeir geti leyst vanda markaðsmála og framleiðslumála landbúnaðarins með jafneinföldum hætti. Og ég hlýt að lýsa eftir svari við því frá þessum hv. þm., hvort þeir vilji t. d. leggja það til, að útflutningsbætur verði auknar, að það verði farið fram úr þeim 10% mörkum sem núverandi framleiðsluráðslög gera ráð fyrir og heimila. Ef þeir væru tilbúnir til þess að gefa slíka yfirlýsingu, þá væru þeir viðræðuhæfir um að þeir legðu eitthvað til mála sem mark væri á takandi. Ef þeir benda ekki á nein slík úrræði, þá eru þessar ræður þeirra, eins og ég sagði, að miklu leyti leikaraskapur einn, gerður til þess að ala á mikilli óánægju, sem vissulega er til staðar og er réttmætt að sé til staðar vegna þess að þau vandamál, sem við er að etja, bitna að sjálfsögðu þungt á bændastéttinni.

Ég hefði gjarnan viljað bíða eftir svari við þessari fsp. minni. (Gripið fram í.) Hún kemur væntanlega á eftir. En þessir hv. þm. báru hér áðan brigður á það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. Ingi Tryggvason, gat um, að þeir hefðu lagt til í þingmáli að greiðslufyrirkomulagi útflutningsbóta yrði breytt á þá lund, að útflutningsbótarétturinn yrði einskorðaður við hverja búgrein fyrir sig. (StJ: Ég bar brigður á það. Ég sagði að þetta hefði verið í sambandi við grg. Það hefði ruglað þá.) Báðir þessir hv. þm., 5. þm. Norðurl. e. og 5. þm. Norðurl. v., báru brigður á það og sögðu, að þetta væri ekki þingmál Alþb., heldur Alþfl. Svo vill til að á þskj. 115 er flutt till. til þál. af hv. þm. Stefáni Jónssyni, Helga F. Seljan, Geir Gunnarssyni og Ragnari Arnalds. Þar kemur fram að þeir telja að búast megi við, ef skipulagsbreytingar verða svo sem tillgr. gerir ráð fyrir, nokkurri umframframleiðslu búvara í góðæri. Eins og segir orðrétt í grg., með leyfi hæstv. forseta: „og má því búast við að jafnan þurfi að grípa til útflutningsuppbóta öðru hverju. Þyrfti þá að koma málunum fyrir á þá lund, að miðað verði við ákveðna hlutfallstölu — 10–15% — af verði hlutaðeigandi framleiðsluvöru á viðkomandi verðlagsári, fremur en heildarframleiðslu búvöru.“ (RA: 10–15 %, já.) Rétt, 10–15%. Ég hef fengið í hendur útreikninga frá starfsmönnum Framleiðsluráðs á þá lund, að ef þessi regla hefði verið tekin upp, þá hefðu útflutningsbætur með 10% útflutningsbótarétti á sauðfjárframleiðslu annars vegar og nautgripaframleiðslu hins vegar lækkað á síðustu 4 árum um rúmlega 2000 millj. kr. Ef hin talan hefði verið tekin, 15% á hvora þessa framleiðslugrein, þá hefði útflutningsbótaféð á síðustu tveimur árum lækkað um 1203 millj. kr. Í þessari þáltill., sem hér er flutt af m. a. þessum tveimur hv. þm. Alþb. sem hér hafa mest talað, þá er sem sé verið að gera því skóna, að með skipulagsbreytingum og tilfærslum á niðurgreiðslufé megi koma því þannig fyrir að halda útflutningsbótaréttinum einvörðungu við þessar tvær tilgreindu búgreinar, sem þýðir í raun að réttur bænda til verðtryggingar er stórkostlega skertur. Svo hlaupa þessir menn út um allt land á bændafundi til þess að telja bændum trú um það, hversu miklir vinir bændanna þeir séu og að þeim sé einum treystandi til þess að fara með landbúnaðarmál. E. t. v. koma þeir hér á eftir, hv. þm., og svara fsp. á þá lund, að þrátt fyrir þessa þáltill., sem sé nú kannske markleysa, þá vilji þeir þó auka útflutningsbótaféð. Kannske verður það þannig. Það væri ágætt að fá slíkt svar, ella verður að telja að þeir meini það sem stendur í þessu þskj.

Ég skal ekki fara mörgum fleiri orðum um þennan málflutning. Það hafa auðvitað í mörgum greinum komið fram villur í máli hv. þm., sumpart vegna þess að þeir eru ekki nægilega kunnugir málum. Það er eðlilegt. Þessir hv. þm. hafa ekki starfað að framleiðslu búvara og hafa litið þann atvinnuveg á hlaupum á ferðum sínum, kannske góðvildaraugum, kannske hornauga, ég skal ekki um það dæma. Hitt er ljóst, að sumpart fara þeir með rangfærslur vísvitandi. Hv. þm. Ragnar Arnalds sagði, að það innvigtunargjald, sem nú er tekið af kjöti og kjötvörum, af dilkakjöti og ærkjöti, mundi nema 500–900 þús. kr. á bónda í landinu. (RA: Sauðfjárbónda.) Sauðfjárbónda í landinu. Þetta er ekki rétt. Ef á að líta á þessar tölur sem eitthvert meðaltal, mun meðaltal á sauðfjárbónda vera innan við 500 þús. kr. Hv. þm. Stefán Jónsson sagði þetta vera gjaldtöku, eins og hann orðaði það, upp á 700–900 þús. kr. á ári á sveitaheimili. (RA: Í mörgum tilvikum, já.) Þetta eru vitaskuld vísvitandi rangfærslur. Hér getur ekki verið um slíkan sljóleik í hugsun að ræða að þeir sjái ekki að hér er farið með rangt mál. Það er auðvitað viljandi gert.

Ég skal aðeins segja það út af þessum málum, að ég treysti því, að þær stjórnskipuðu nefndir, sem nú starfa að því að finna hagkvæmustu lausn út úr vandamálum landbúnaðarins á sviði framleiðslu- og markaðsmála, beri gæfu til þess að skila um það efni góðum og viturlegum till. Ég tel að það þurfi meira en gert hefur verið að leggja upp úr markaðsþættinum, markaðsleit, markaðsöflun erlendis. Þó er ljóst að þar er vissulega um erfitt hlutverk að ræða vegna þess hve í helstu markaðslöndum okkar eru nú miklar niðurgreiðslur á framleiðslu þarlendra vara. Og verðlagsþróunin innanlands togar í hinn endann þessum málum til óhags. Ég tel einnig að það þurfi að huga betur að skipulagningu framleiðslu og leita vandlega leiða til þess að koma við að einhverju leyti svokölluðu kvótakerfi í verðlagsmálum landbúnaðarins. Til þess vænti ég að megi finna leiðir og þá á þá lund, að þeir sem búa við t. d. eitt vísitölubú hljóti fullt verð, síðan, ef um skerðingu þarf að vera að ræða , komi það á stærri búin, hlutfallslega vaxandi eftir því sem þau stækka og verki þannig til þess að hafa hemil á framleiðslu þeirra sem stærst hyggja í þessum efnum, og aftur hitt, að lægra verð eða bara útflutningsverð verði greitt á framleiðslu ríkisbúa, því að þau eru óþarflega stór, svo að ekki sé meira sagt. Til greina kemur einnig, sem ég skal ekki ræða um, að láta slík ákvæði að einhverju eða öllu leyti gilda um svokallaðan tómstundabúskap sem ýmsir þéttbýlisbúar reka sér til skemmtunar, ánægju og lífsfyllingar. En það er svo, að ýmislegt vilja menn gjarnan kaupa fyrir mikla peninga. Og það getur verið íþrótt að eiga nokkrar kindur fyrir þéttbýlismann og sýsla um þær, alveg á sama hátt og fyrir þann næsta við hliðina í götunni að kaupa sér laxveiðileyfi fyrir tugi ef ekki hundruð þúsunda á ári hverju.

Ég skal taka undir það sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði undir lok ræðu sinnar, að það væri illa gert að draga úr bændum kjarkinn núna. Þetta skal ég taka undir. Þótt vandamál séu mikil á þeim sviðum landbúnaðarmála, sem við höfum mest rætt í dag, þá megum við ekki mikla þau vandamál um of fyrir okkur. Þau eru sumpart til komin vegna mikillar framleiðslu, vegna mikils góðæris á síðasta framleiðsluári. Þó að þessi vandamál séu kannske þungbær, þá eru þó enn þungbærari þau vandamál þegar illæri verður svo mikið að framleiðsla dregst saman og kjör stórskerðast af þeim sökum. Þessum vandamálum, sem við er að glíma nú, er væntanlega hægt að ráða fram úr. Þau hafa ekki í för með sér jafnalvarlega kjaraskerðingu fyrir bændastéttina eins og hin, sem af náttúrunnar völdum spretta. En þó að við slík vandamál sé að etja, þá verðum við heldur að telja kjark í bændur en hið gagnstæða. Og ég verð að segja það, að að undanskilinni þessari setningu hv. þm. Stefáns Jónssonar var öll hans ræða eitt uppflosnunartal og til þess lagað að koma því inn hjá bændum, sem ekki kunna kannske allir nægilega skil á málum, að þeir væru betur komnir annars staðar en við landbúnaðarframleiðslu. Það er ekki gott verk að halda þannig á málum. Það er þarflegt og gott um það að segja að rökræða vandamál, en að mála alltaf svart á vegginn án þess að benda á leiðir út úr vandanum er niðurrifsstarf.