25.04.1978
Sameinað þing: 71. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3923 í B-deild Alþingistíðinda. (3076)

Umræður utan dagskrár

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er sannarlega ekki af því að ég telji ekki íslensk landbúnaðarmál þess virði að þau séu rædd á hinu háa Alþ., að ég kem í ræðustól nú til þess eins að láta í ljós undrun mína og megna óánægju yfir umr. utan dagskrár sem hér hafa farið fram má segja í svo til allan dag. Það eru hartnær 50 mál á dagskrá þessa fundar. Ég sé ekki að það hafi verið það knýjandi málefni í máli þeirra hv. þm., sem þessar umr. hófu, að það geti réttlætt að trufla með þessum hætti regluleg þingstörf. Við munum leggja nótt við dag þá daga, sem eftir eru til þinglausna, til að ljúka afgreiðslu mikilvægra mála og enda þótt margt hafi verið hér af viti sagt og fróðlegt um leið, þá tel ég þessar umr. algerlega rangt tímasettar. Mér finnst að af þeim öllum hafi verið nokkur keimur og heldur leiðinlegur keimur af því að kosningar eru í nánd. Ég held að það sé meira en tími til kominn að inn í þingsköp Alþ. komi eitthvað til að verja okkur gegn því, að vinnutíma þingsins sé varið með þeim hætti sem hér hefur verið í dag.