25.04.1978
Sameinað þing: 71. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3923 í B-deild Alþingistíðinda. (3078)

269. mál, húsnæðismál

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Vilborgu Harðardóttur leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál. um húsnæðismál :

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að við endurskoðun þá, sem nú fer fram á lögum nr. 30 frá 12. maí 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, verði eftirfarandi atriði sérstaklega tekin til athugunar:

1. Fjármagn til byggingar verkamannabústaða verði aukið verulega og sveitarfélögum gert kleift og skylt að byggja verkamannabústaði, enda verði hlutdeild ríkisins í lánveitingum til þeirra aukin.

Jafnframt verði aukin og bætt fyrirgreiðsla til þeirra sveitarfélaga sem byggja leiguíbúðir.

2. Lán úr Byggingarsjóði ríkisins verði hækkuð verulega til þeirra fjölskyldna, sem ekki eiga íbúð og ekki hafa átt íbúð á s. l. 5 árum. Verði við það miðað, að slík lán nemi allt að 60% af byggingarkostnaði íbúðar í fjölbýlishúsi, eins og hann er á hverjum tíma, samkv. útreikningum Hagstofu Íslands.

Lán þessi verði veitt til byggingar eða kaupa á nýjum íbúðum og einnig til kaupa og endurbóta á eldri íbúðum.

3. Við ákvörðun á lánakjörum hjá Byggingarsjóði ríkisins verði við það miðað, að árlegar afborganir, vextir og vísitöluálag af lánum sjóðsins til hverrar íbúðar fari aldrei yfir 20% af launum fyrir 8 stunda vinnu samkv. 2. taxta Dagsbrúnar.

4. Stofnaður verði nýr lánaflokkur til endurbóta á eldri íbúðum. Á þann hátt verði dregið úr þörfinni fyrir byggingu nýrra bæjarhverfa og kostnaðarsamra opinberra mannvirkja til þjónustu við íbúa þeirra hverfa. Um framkvæmd slíkrar endurbyggingar verði tekin upp samvinna við sveitarfélögin um nýtingu á eldri bæjarhverfum og þeim mannvirkjum sem þar eru.“

Þessari till. okkar fylgir svo alllöng grg., sem ég tel óþarfa að vera að rekja hér nánar, en mun víkja kannske að nokkrum atriðum hennar á eftir.

Þegar till. um svo viðamikið efni og þýðingarmikið kemur fram svo síðla þings á síðasta ári kjörtímabils, þá er von að menn spyrji: Hvers vegna ekki fyrr, hvers vegna nú á elleftu stund, þegar útséð er um alla afgreiðslu? Er þetta ekki sýndarmennska, aðeins til að sýna lít svona rétt fyrir kosningar? Það er von að slíkar spurningar vakni og þær þarfnast svara.

Hér er um mjög ákveðnar og skýrar till. að ræða, sem í mjög verulegum atriðum eru gerólíkar því lánakerfi, uppbyggingu þess og kjörum öllum, sem í dag ríkir og hefur ríkt undanfarin ár. Og þegar svo róttækar og fjárfrekar till., að því er mönnum sýnist í upphafi, eru bornar fram, er von að enn ein spurningin vakni þá hjá þeim sem halda að þetta þýði mikinn aukakostnað — svo sem er forsenda tillögugerðarinnar — þ. e. hvaðan fjármagnið skuli koma, sem til þarf til þess að koma þessum till. í framkvæmd, hvernig kerfinu skuli komið á.

Allt fram á þetta síðasta ár þessa kjörtímabils höfum við, m. a. s. stjórnarandstæðingar, trúað á það, að endurskoðun sú, sem yfir hefur staðið allt kjörtímabilið og raunar lengur, birtist í einhverjum till. til úrbóta. Hefur líka verið óspart að því ýjað, m. a. í sambandi við umr. á þingi í sambandi við húsnæðismál og beinar till. eða frv. sem snert hafa Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þær till. og þau frv. hafa fengið sína afgreiðslu. Þeim hefur verið vísað til ríkisstj. vegna þess að heildarendurskoðun þessara mála stæði yfir. Svo var t. d. um frv. okkar hv. þm. Ragnars Arnalds um útibú frá Húsnæðismálastofnun ríkisins úti á landi. Svipað var um frv. hv. þm. Kjartans Ólafssonar um breytingu á lögum um Húsnæðismálastofnunina, þar sem m. a. var vikið að sumu af því sem þessi till. lýtur að. Og frv. þeirra framsóknarmanna í Nd. um aukna fyrirgreiðslu við kaup eldra húsnæðis virðist ekki ætla að hljóta afgreiðslu, án efa með þeirri meginafsökun, að heildarendurskoðun standi enn þá yfir.

Við Alþb.-menn höfum átt fulltrúa í þessum endurskoðunarnefndum, því að þær eru fleiri en ein, sem starfað hafa nú á undanförnum árum.

Við höfum einnig átt og eigum fulltrúa í stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Allir þessir aðilar hafa starfað vel að þessum málum og það hafa án efa fulltrúar annarra flokka gert einnig. Okkar fulltrúar hafa lagt þar fram till. í þá átt sem við erum nú að flytja á þingi, en þær hafa ekki fremur en aðrar, sem þar hafa komið fram, hlotið náð fyrir augum þeirra sem með æðstu stjórn hafa farið í þessum efnum. Því hefur allt þetta kjörtímabil liðið án teljandi breytinga á lögum um húsnæðismál. Allar eru þær a. m. k. þess eðlis, að þar er engum sköpum skipt, þó að helst megi nefna breytinguna varðandi leiguíbúðir sveitarfélaga, er þeim var breytt í söluíbúðir einnig, eða réttara sagt: sveitarfélögunum var heimilað að selja íbúðirnar, enda flestum þeirra ofvaxið með öllu að eiga þessar íbúðir nema þá að leigja þær út við óhóflegri leigu, sem sveitarfélögunum hefði ekki verið sæmandi og þau hefðu í raun og veru ekki getað staðið að. Þetta er auðskilið, þegar litið er á töfluna á fskj. II um vaxta- og verðtryggingarbyrðina af þeim lánum sem veitt eru til þessara íbúða. Eins og kemur fram þar og er eftir beinum upplýsingum frá Húsnæðismálastofnun ríkisins, þá taka þeir, sem taka þessar leiguíbúðir, og er þar miðað við algengasta kostnaðarverðið, lán Byggingarsjóðs ríkisins að upphæð 9.2 millj, kr. Á fimmta ári eru vextir og afborganir ásamt vísitöluálagi komnir upp í 1 millj. 838 þús. 649 kr., eins og sést á skýrslunni. Vextir og vísitöluálag af slíku láni verða samkv. þessum forsendum 88.205 kr. á mánuði fyrsta árið eða strax á fyrsta árinu 60.5% af launum verkamanna á 2. taxta Dagsbrúnar, eins og þau voru í jan. 1978. Þetta skýrir það að fullu, held ég, að þeir, sem fóru inn í þessar íbúðir á vegum sveitarfélaga og keyptu þær vegna þess að lánið var svo hátt og menn þurftu svo lítið að greiða í upphafi, þeir sem lítið áttu til, þeir hafa heldur betur kynnst því hvernig er að taka þetta á sig á eftir. Margir þeirra, ég þekki dæmi úr mínu kjördæmi um það á tveim stöðum hafa reynt eftir mætti að losa sig út úr þessu með því að selja þær einhverjum öðrum, en bæði eru á því ýmsir annmarkar samkv. þeim lögum, sem farið er eftir, og einnig eru aðrir ekki ginkeyptir fyrir því heldur þegar þeir eru búnir að sjá hver reynslan er af þessum íbúðum. Þetta hefur þess vegna ekki leyst vandann, þó þetta væri talið mjög mikið bjargráð á sínum tíma fyrir sveitarfélög. Sveitarfélögin sóttust óneitanlega eftir þessu. En menn höfðu hreinlega ekki reiknað dæmið til enda, er þeir hurfu frá því fyrirkomulagi, sem áður hafði ríkt, og að þessu, hurfu frá byggingu verkamannabústaða í stórum stíl og að þessu fyrirkomulagi í staðinn. Varanlegar till. hins vegar til breytinga á húsnæðislöggjöfinni, einnig í þá átt að auðvelda fólki að eignast þak yfir höfuðið í þess orðs einföldustu merkingu hafa ekki komið fram og það er útséð um að þær komi fram á þessu kjörtímabili. Því var það, að okkur þótti sjálfsagt að kynna þær helstu till. sem fulltrúar okkar Alþb.-manna hafa verið með í endurskoðunarnefndunum og í stjórn þeirrar stofnunar sem æðst er í þessu næst rn. og ráðh. En ásamt þeim fulltrúum okkar, sem þar hafa setið, hefur Óskar Hallgrímsson einnig staðið að þessari tillögugerð.

Ég hef nokkrum sinnum á undanförnum árum spurt um það, hvernig þessum málum liði, ekki bara hér á þingi, heldur einnig í þessum nefndum og hvort ekki væri við hæfi að flytja till. beint inn á þing. Þá hafa þeir ágætu fulltrúar, sem við höfum átt þarna, af eðlilegum ástæðum, af löghlýðni við þá sem skipuðu þá í þessar endurskoðunarnefndir og í þessar stjórnir, sagt að nú væri von um að málið væri að leysast, það miðaði a. m. k. í áttina og slíkar till. gætu jafnvel spillt fyrir heildarlausn og samkomulagi um annaðhvort einstök atriði eða á víðari grundvelli, sem tæki t. d. alveg sérstaklega mið af félagslegri uppbyggingu og aukinni þátttöku og aðild launþegahreyfingarinnar að því kerfi.

Þessar eru í stuttu máli ástæðurnar fyrir svo síðbúnum flutningi þessarar till., sem við töldum rétt að tíunda hér, þó að við séum auðvitað hvergi uppnæmt fyrir talinu um sýndarmennsku, ekki síst þegar stjórnarsinnar, jafnvel með öll völd í hendi sér, flytja till. á þingi í „massevís“, ef svo má segja, sem eins mætti flokka undir sýndarmennsku og auðvitað enn frekar og með meiri rétti, að ekki sé á hámarkið minnst — núna síðustu dagana — þar sem eru till. stjórnarsinna um kjördæmaskipan og kosningalög rétt í þinglokin.

Ég vildi undirstrika að okkur er full alvara með þessum till. Þær hafa verið undirbúnar á réttum stöðum í húsnæðismálakerfi okkar, þó að þær hafi ekki hlotið þar þann framgang sem við hefðum viljað. Ég held því að rétt sé að sýna þessar till. og geta þess, hverjir hafi átt að þeim aðild, áður en þær komu í okkar hendur og við gerðum þær að till. okkar hér á þingi. Þeir aðilar, sem að þessu hafa unnið, hafa svo sannarlega lagt sig í líma við að reyna að ná þarna samkomulagi. En eitthvað hefur verið að, viljaleysi eða eitthvað annað komið til, að ekkert hefur sést. Það hefur sem sagt verið valt að trúa ýmsum loforðum hæstv. núv. ríkisstj. um úrbætur í ýmsum efnum, og það hefur, held ég, áþreifanlega sannast varðandi húsnæðismálin. Því má segja að trú mín og ýmissa annarra á alvöru endurskoðunarinnar á húsnæðismálunum hafi enga afsökun átt, enda skal ekkert frekar um þetta fjölyrt.

Af hinni meginspurningunni, þ. e. fjármögnuninni, sem ég hygg að menn vilji gjarnan huga að einnig, skal ég svo víkja í lokin. Ég hygg að grg. ásamt fskj., sem hér með fylgja, nægi að mestu sem raunveruleg framsaga fyrir málinu í heild. Ég gæti vikið að grg. í einstökum atriðum og því, sem þar er reifað, en vil þó frekar koma inn á ýmis atriði sem væru hér til viðbótar. 2. flm. þessarar till. mun svo hér á eftir tíunda enn frekar tilgang og markmið þáttill. Ég fer því ekki frekar út í það og ekki heldur út í þau langtímamarkmið, sem hv. 2. flm. mun einnig rekja nánar. Reyndar kemur fram í grg. okkar ákaflega glögglega það framtíðarmarkmið sem ég tel að eigi að vera í húsnæðismálunum í heild.

Um sjálfa till. er svo það að segja, að hún skýrir sig sjálf. Grg. kemur mjög ítarlega inn á 1. liðinn og er þar engu við að bæta. Ég hef í höndum grg. sem þeir hafa sent frá sér, Björn Ólafsson og Óskar Hallgrímsson, sem unnu í þessum nefndum, grg. um félagslegar íbúðabyggingar, þar sem þeir rökstyðja ákaflega vel bæði þörfina á því að koma því verkamannabústaðakerfi, sem þeir eru að leggja þar til, í sem best gagn. Þeir sýna jafnframt fram á það í þeirri skýrslu sinni, hvað verkamannabústaðakerfið hefur verið á algeru undanhaldi nú síðustu árin.

Þegar hefur komið fram í grg. okkar á Alþ. og raunar nokkrum sinnum áður verið minnst á þörfina á stórhækkuðum lánum til kaupa á eldra húsnæði. Það hefur ævinlega fengið hér hinar bestu undirtektir. Ég minnist þess t. d., að þegar ég flutti brtt. í Ed. við frv. um húsnæðismál varðandi ákveðna prósentu af ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins, sem rynni beint til kaupa á eldri íbúðum og viðgerðum á þeim, þannig að það væri hægt að koma þeim í not, þá fékk hún hinar ágætustu undirtektir allt þangað til kom að atkvgr., en þá var þessi brtt. mín vissulega kolfelld af þeim stjórnarsinnum. Hana virtust þeir fella af mestri ánægju, sem höfðu talað þar mest með þörfinni rétt áður. Sama er uppi á teningnum hjá hæstv. félmrh., sem er nú því miður ekki viðstaddur.

Í umr. um fsp. frá mér um húsnæðislán og sérstaklega skiptingu þeirra eftir lánaflokkum, þá sérstaklega þessum lánaflokki, varðandi eldri íbúðirnar, sagði hæstv. ráðh. — ef mig minnir rétt — að hann hefði talið það þjóðhagslega nauðsyn að aula mjög verulega lánveitingar til kaupa á eldri íbúðum, og það er auðvitað auðskilið mál.

Eftir síðustu ákvörðun húsnæðismálastjórnar lítur dæmið þannig út, að hámarkslán til kaupa á eldra húsnæði er 700 þús. nema til þeirra, sem ekkert húsnæði hafa átt, þá getur upphæðin farið upp í 1 millj. kr. Til samanburðar eru svo nýbyggingarlánin, sem eru upp á 3.6 millj. samkv. síðustu hækkun. Til endurbóta eða viðgerða á húsum fæst ekkert í dag, svo sem hefur þó stundum áður verið. Það þekkja menn úr veðdeild Landsbankans. Það hefur stundum áður verið. Það hefur stundum verið veitt til hennar nokkru fé, og ég sé á lánsfjáráætlun að þangað er ætlað að verja 50 millj. E. t. v. á að reyna að koma því út á einhvern hátt á þessu ári, ekki þori ég að fortaka það, en það hefur ekki komist í gang enn þá. Þarna er oft um forsendu að ræða fyrir því hvort viðkomandi húsnæði er nýtt eða ekki.

Á síðasta ári var nýbyggingarlán, eins og menn vita, upp á 2,7 millj., en þá var meðallán til eldri íbúða um það bil 540 þús. samkv. upplýsingum frá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Sú viðbára hefur oft heyrst sem röksemd gegn því að hækka þessi lán, að söluverð húsa mundi þá hækka stórlega, jafnvel svo að næmi lánshækkun, fasteignasalar fylgdust hér vel með öllum breytingum og nýttu þær til hins ítrasta. Eitthvað kann að vera hæft í þessu, og ég reikna ekki með því, að þáttur fasteignasala okkar sé til neinnar fyrirmyndar sé hann skoðaður í heild. Mér hefur tjáð maður, sem búsettur hefur verið í þrem þjóðlöndum og þurft hefur að hafa skipti við fasteignasala, að hvergi sé um eins hraksmánarlega þjónustu að ræða og yfirleitt er hér. Og hann segir það t. d., og ég treysti þessum manni mætavel, að hér hafi fasteignasalar oft ekki litið söluíbúðir sínar augum, viti oft sáralítið um þær, nema söluupphæðina náttúrlega, og eins og hann orðaði, þá virðast margir vilja sem minnst vita og þá auðvitað um leið minnsta ábyrgð bera. Ekki vil ég fullyrða, þó að þetta sé sannorður og greinargóður maður, að hér sé í öllu rétt með farið, en veit að í þessu felst meiri sannleikur en hóflegt og eðlilegt gæti talist, ef viðskipti af þessu tagi ættu að vera með skaplegum hætti.

Endurbótalánin ber að vekja upp á ný og þá með þeim hætti sem till. okkar gerir ráð fyrir, eins og sjá má bæði í sambandi við lið 2 og eins í sambandi við lið 4 í till. okkar.

Töflurnar um lánakjörin, sem ég vék nokkuð að áðan, eru auðvitað táknrænar hið besta um vaxtastefnu þá sem nú er fylgt, og þær þarfnast því í raun og veru engra útskýringa. Ég benti áðan á það, hvernig færi fyrir verkamanni, sem fengi það lán sem hæst er og hagstæðast fyrir hann í upphafi, þegar hann gengur inn í lánakerfið. þ. e. a. s. söluíbúð sveitarfélaus. Svo sem víða er einmitt um þá tekjulægstu, eins og ég tók fram áðan, vegna lítillar útborgunar í upphafi. þá glæpast menn til þess arna. Þá kemur mánaðarleg greiðsla, eins og ég var að benda á áðan, strax á fyrsta árinu eins hrikaleg og þar kemur fram, eða yfir 60.5% af launum verkamanna á 2. taxta Dagsbrúnar. Ef hann hins vegar fær venjulegt lán með þeirri mánaðarlegu greiðslu sem af því er og tafla 1 segir til um, þá verða menn auðvitað að hafa í huga, að það lán gildir aðeins um 1/3 af íbúðarverðinu í hæsta lagi, þar sem um þessar 3.6 millj. er að ræða í dag. — Þetta hlýtur að vera hrein villa hér hjá mér, að það sé 1/3. Vafalaust er nær að þarna væri um að ræða 1/4 af íbúðarverðinu. Og við skulum segja að þá bætist við lífeyrissjóðslán með 23% vöxtum, lán sem getur verið á bilinu 1–1,5 millj., skulum við segja, sem ég veit að er algengast t. d. úr lífeyrissjóði launþega á Austurlandi. Ekki ná endar saman með því. Ef menn vilja svo fara út í önnur lán, þá fara menn kannske út í vaxtaaukalán með 33% vöxtum eða taka víxil til skamms tíma með raunvöxtum upp á 25–26% eða ríflega það þegar allur kostnaður er talinn. Heildargreiðslan getur því orðið há ef lánafyrirgreiðslan fæst. En um það þekki ég auðvitað enn fleiri dæmi, að ekki sé um að ræða aðra fyrirgreiðslu banka en lán út á húsnæðismálastjórnarlán og þá aðeins að hluta. Það er því von að við leggjum til þá breytingar sem er í sambandi við lið nr.2 og lið nr. 3. er hefur verið mikið ræddur og kynntur og virðist eiga og hafa átt fylgi í þessum endurskoðunarnefndum og einnig í stjórn Húsnæðismálastofnunar, þó að ekkert hafi í því gerst. Ég veit t. d. að báðir þessir liðir eru háðir því, sem ég mun síðar víkja að varðandi fjármögnuninni á þessu. Þeir eru auðvitað báðir háðir því, hvernig fjármagni Byggingarsjóðs ríkisins er varið.

Lánataflan á fskj. I, sem sýnir vexti og vísitölu af láninu eins og það er núna, sýnir að ef miðað er við 30% verðbólgu, sem hlýtur að teljast sanngjarnt á dögum þessarar hæstv. ríkisstj., þá verða vextir og vísitöluálag af þessu eina láni, sem ætla má að sé, eins og hér segir, 1/3 af kostnaðarverði íbúðar, en er nú áreiðanlega ekki rétt tala í raun, því að það er óvenjuódýr íbúð þó að í blokk væri, 34515 kr. á mánuði eða 23.6% af launum verkamanns samkv. 2. taxta Dagsbrúnar eins og þau voru í jan. 1978, en við það eru þessar upplýsingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins miðaðar. Hér er hins vegar um það að ræða í till. okkar, að lánsfyrirgreiðsla sé nægileg fyrir hvern þann sem vill eignast íbúð, svo að hann geti á einum og sama staðnum fengið sæmilega fullnægjandi lán með viðráðanlegum lánskjörum, þannig að honum sé ekki um langan tíma búið óhæfilegt og óafsakanlegt ok og álag, líkamlegt sem andlegt.

Ég sagði að ég mundi víkja að fjármagnshliðinni. Um hana skal ég segja þetta eitt: Byggingarsjóður ríkisins hefur í dag mikið fjármagn til útlána og ég ætla aðeins — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upplýsingar sem eru komnar frá þessum nefndum varðandi þennan tyggingarsjóð.

Hér er um að ræða öflugustu fasteignalánastofnun þjóðarinnar. Útlán sjóðsins til húsnæðismála á árinu 1977 voru samtals 614l millj. Gróf skipting á því fjármagni til einstakra lánaflokka er sem hér segir:

Lánað einstaklingum til nýrra íbúða 4297 millj.

Lánað sveitarfélögum til að byggja leigu- og söluíbúðir, 80% lán, 722 millj.

Lánað einstaklingum til kaupa á eldri íbúðum og viðgerðarlán til öryrkja, — sem ég gleymdi nú reyndar áðan, því að þau eru til, góðu heilli, þó að önnur viðgerðarlán séu ekki til. — 500 millj.

Lánað sveitarfélögum og öðrum aðilum til að byggja leiguíbúðir fyrir aldraða 234 millj. Byggingarsjóðslán til verkamannabústaða 388 millj.

Áætlaðar tekjur Byggingarsjóðs á árinn 1978 eru 9.3 milljarðar og til ráðstöfunar í lánveitingar rúmlega 8 milljarðar. Skipting þess fjár á milli lánaflokka hefur enn ekki verið ákveðin, en ljóst er að aðeins lítill hluti þess fjár fer til verkamannabústaða eða annarra félagslegra íbúðabygginga, sem verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á við gerð síðustu kjarasamninga og fengið ítrekað loforð ríkisstj. fyrir.

Framlag ríkissjóðs á fjárl. til Byggingarsjóðs ríkisins hefur staðið óbreytt í krónutölu í sjö ár, 75 milli. kr. Hins vegar hefur verkalýðshreyfingin stutt mjög vel að fjármögnun sjóðsins: Í fyrsta lagi með því, að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur látið verulegan hluta af fjármagni sínu renna til sjóðsins í formi lána til langs tíma. Í öðru lagi samþykkti verkalýðshreyfingin árið 1974, að launaskattur væri hækkaður um 1% og rynni hækkunin til Byggingarsjóðs sem tekjur sjóðsins. Í þriðja lagi hafa lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna keypt skuldabréf Byggingarsjóðs í mjög ríkum mæli á meðan þeir sjóðir voru frjálsir með ráðstöfun á fjármagni sínu.

Ég vitna svo beint í þann mann sem hefur staðið hvað strangast í þessu, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir að það sé óverjandi slóðaskapur hjá félmrn. að vera með lögin um Húsnæðismálastofnun ríkisins í málamyndaendurskoðun heilt kjörtímabil á meðan byggingar verkamannabústaða eru að leggjast niður þó að brýn þörf sé fyrir slíkar byggingar í flestum þéttbýlisstöðum á landinu. Ólafur Jónsson hefur einnig það um þetta mál að segja, að það hafi verið afdrifarík mistök sem gerð hafi verið með breytingunum á lögum um verkamannabústaði árið 1970, þegar byggingarfélög verkamanna voru lögð niður sem byggingaraðilar og sveitarstjórnunum þar með gefið sjálfdæmi um það, hvort haldið væri áfram með byggingu verkamannabústaða eða ekki. Allmörg sveitarfélög úti á landi hafa þess í stað hafið byggingu leigu- eða söluíbúða og á til þess lán, allt að 80% af byggingarkostnaði, en þær íbúðir leysa á engan hátt sama vanda og verkamannabústaðir.

Nú veit ég ekki hvað ég á að vitna mikið í það, sem hér kemur á eftir, en það er stærsta átak sem gert hefur verið ú húsnæðismálum á þessu svæði, höfuðborgarsvæðinu, þegar ríkisvaldið var knúið til þess í samningum 1965 að byggðar væru 1250 íbúðir fyrir félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar og seldar þeim eða leigðar með mjög hagstæðum kjörum. En sá galli var auðvitað á gjöf Njarðar, að eingöngu var um að ræða þetta svæði og út fyrir það náði átakið ekki. Landsbyggðin var því afskipt. Síðan fór hún aftur út í þessar byggingar á leigu- og söluíbúðum, sem ég hef rakið hér rækilega og enn betur sést á töflunum með grg. að hafa verið óhagstæðar hið versta. Og ég skal alveg játa, að ég stóð að því ásamt öðrum að þessi lög um byggingu 1000 leiguíbúða á vegum sveitarfélaga voru sett árið 1972. Ég ber þannig á þeim ábyrgð og síðar einnig á þeirri breytingu, sem var algerlega óhjákvæmileg fyrir sveitarfélögin, að þessar íbúðir voru færðar yfir á sölugrundvöll vegna þess að sveitarfélögin hreinlega gátu ekki staðið undir þessum íbúðum eða þá þau urðu að leigja þær með kjörum sem er kannske allt í lagi fyrir einstaklinga að leigja á því verði, en það er ekki verjandi og ekki hægt fyrir sveitarfélög að standa að leigu á þeim grundvelli ef þau vilja standa sæmilega að málum. Nú eru lánakjör orðin svo óhagstæð að bygging slíkra íbúða leysir engan vanda fyrir efnalitla launamenn, eins og til var ætlast.

Lögin um verkamannabústaði eru ótvírætt það fyrirkomulag, sem best hefur gefist fyrir verkalýðshreyfinguna til þess að aðstoða efnalítið fólk við að eignast eigin íbúð og leysa þannig sín húsnæðismál. Árið 1977, eins og ég sagði áðan, lánaði Byggingarsjóður verkamanna 432 millj. til verkamannabústaða í 11 sveitarfélögum, en það er einkennandi fyrir þessa þróun, að á því ári — og ég lét nú segja mér þessa tölu og skrifa hana fyrir mig tvisvar áður en ég vildi trúa henni — á s. l. ári hófu aðeins tvö sveitarfélög utan Reykjavíkur byggingu verkamannabústaða. Aðeins tvö sveitarfélög utan Reykjavíkur hófu byggingu verkamannabústaða á s. l. ári þrátt fyrir að þar sé auðvitað tvímælalaust um að ræða það fyrirkomulag sem sveitarfélögin ættu að fara út í af þeim ástæðum sem ég hef rakið, vegna þess að þar er um viðráðanlegt fyrirkomulag að ræða.

Við segjum í grg., að félagsleg uppbygging húsnæðismála eigi að sitja í fyrirrúmi varðandi heildarlausn þeirra, bæði varðandi byggingarform og lánafyrirgreiðslu, og ég vildi aðeins koma lítillega inn á byggingarformin á eftir. Við viðurkennum að vísu, að allt hafi þetta verið snarir þættir í húsnæðiskerfinu: verkamannabústaðirnir, leigu- og söluíbúðirnar og byggingarsamvinnufélögin, sem við skulum ekki heldur gleyma. En við leggjum áherslu á að það beri að efla og styrkja þá þætti jafnhliða því sem leitað er nýrra leiða á félagslegum grunni sem tiltækar þykja til árangurs.

Þeir menn, sem þarna hafa að unnið, segja alveg ákveðið, og þá vitna ég aftur í þá Björn Ólafsson og Óskar Hallgrímsson í því efni: Þörfin fyrir íbúðir byggðar á félagslegum grundvelli verði í meginatriðum leyst með byggingu verkamannabústaða, en jafnframt verði tryggt að öll sveitarfélög hafi rétt á að byggja leiguíbúðir til að fullnægja húsnæðisþörfum þeirra sem ekki hafa bolmagn til að eignast íbúð samkv. verkamannabústaðakerfinu. Lán til slíkra leiguíbúða verði þá einnig sambærileg við lán til verkamannabústaða og endursala slíkra íbúða bönnuð. Á þennan hátt verði byggt fyrir efnalítið fólk á starfsaldri og í stéttarfélögum A. S. Í. eigi minna en sem svarar þriðjungi af árlegri íbúðaþörf landsmanna. — Samkv. fyrrnefndri íbúðaspá — það er áður búið að nefna, hver íbúðaspáin sé fyrir árið 1978 til 1980 — svarar það til byggingar 800–950 íbúða í verkamannabústaða- eða leiguíbúðakerfinu á ári fram til 1980. En þeir segja meira og í það höfum við einnig vitnað: Til þess að Byggingarsjóður verkamanna verði þess umkominn að sinna þessu verkefni er óhjákvæmilegt að gera grundvallarbreytingar á lögum um sjóðinn. Hér segir: „Ríkissjóður fjármagni alfarið Byggingarsjóð verkamanna og sjái sjóðnum fyrir því fjármagni sem þarf til þess að standa undir árlegri þörf fyrir íbúðir í verkamannabústöðum um land allt. Þyki ástæða til þess, að sveitarfélög leggi áfram fjármagn til sjóðsins vegna verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, verði það gert í formi fasts iðgjalds en ekki sett sveitarfélögum í sjálfsvald. Byggingarsjóður verkamanna veiti lán sem svarar 80% byggingarkostnaðar, en hluti lánsfjár verði með sömu kjörum og almenn lán Byggingarsjóðs ríkisins vegna verðtryggingar þess lánsfjár sem gert er ráð fyrir að komi frá lífeyrissjóðum.“ En síðan segja þessir ágætu menn:

„Með beinni aðild Alþýðusambandsins að stjórn sjóðsins verði sambandinu gert kleift að fylgja fram efndum á þeim fyrirheitum, sem gefin hafa verið, og gæta þannig hagsmuna umbjóðenda sinna. Öll áætlanagerð og framkvæmd um verkamannabústaðakerfið verði treyst, m. a. með því að komið verði upp sérstakri framkvæmdadeild við Húsnæðismálastofnun ríkisins sem lúti stjórn Byggingarsjóðs verkamanna. Slík framkvæmdadeild hafi með höndum áætlanagerð um byggingu verkamannabústaða um allt land, annist samræmingu á hönnun og stöðlun íbúða og húshluta og hafi yfirumsjón með þeim framkvæmdum sem ákveðnar eru. Þá annist deildin útboð og hlutist til um að ítrustu hagkvæmni og smekkvísi sé gætt við allar framkvæmdir og hönnun.“

Ég held að ég haldi áfram — með leyfi hæstv. forseta — og lesi enn eina aths. þessara ágætu félaga. Þar segja þeir:

„Horfið verði frá því úthlutunarkerfi sem viðhaft hefur verið samkv. núgildandi lögum. Í þess stað verði stofnuð byggingarfélög efnalítils fólks í stéttarfélögum innan A. S. Í. sem hefur hug á íbúðum í verkamannabústöðum. Hljóti hver og einn kost á íbúð í samræmi við inngöngu sína í félagið að uppfylltum nánari skilyrðum í samþykktum félaganna. Stjórnir þessara félaga, sem skipaðar verði kjörnum fulltrúum félagsmanna ásamt fulltrúa stéttarfélaga og hlutaðeigandi sveitarfélags, hafi frumkvæði um undirbúning framkvæmda á grundvelli áætlunar- og framkvæmdadeildar Húsnæðismálastofnunar ríkisins um íbúðaþörf í hverju sveitarfélagi og komi fram gagnvart Byggingarsjóði verkamanna og sveitarstjórnum í umboði félagsmanna.“

Þetta var lítið eitt af því sem þeir félagar hafa sent frá sér bara í eitt skipti. Þetta hefur oft gerst. Áður voru í þessari endurskoðunarnefnd aðrir aðilar og þeir sendu einnig frá sér grg. sem ég hef ekki handbæra nú. Hefði verið full ástæða til þess að lesa upp úr henni einnig. Í henni er minnst á sömu atriði og þeir drepa á hér, en kannske með nokkuð öðrum hætti, kannske alveg sérstaklega í sambandi við liði nr. 2 og 3, þ. e. a. s. að lánin verði hækkuð verulega til þeirra fjölskyldna sem ekki eiga íbúð og ekki hafa átt íbúð á s. l. 5 árum.

Það er sagt að við séum þarna að fara fram á nokkuð sem ekki sé hægt að eiga við, þarna sé um svo mikil fjárútlát að ræða. Allir þeir menn, sem ég hef talað um þessi mál við, framkvæmdastjóri Húsnæðismálastofnunar ríkisins, stjórnarmenn þar — þeir sem ég þekki til — og þeir menn, sem hafa unnið í endurskoðunarnefndunum, eru allir sammála um að það skipti mestu í þessu, hvernig þessu mikla fjármagni sé varið. Þeir segja t. d. að þeir séu að lána sama fólkinu á 5 ára fresti. Það er þeirra regla, að lán skuli ekki veitt nema á 5 ára fresti, en þeir eru að veita sama fólkinu oft lán á 5 ára fresti, allt upp í 5–6 sinnum, sumum til þess að stækka við sig og öðrum vafalaust í einhverjum öðrum tilgangi. En þetta er gert. Á þessu eru sem sagt ekki meiri hömlur en ég gat um varðandi þessa 5 ára reglu. Þessir menn hafa margir hverjir ekki dregið neina dul á að það mætti fella niður lánveitingar alveg þar sem sannarlega væri engin þörf fyrir þær, svo sem til þessara sífellt stærri og íburðarmeiri bygginga eða eins og þeir segja: til að byggja villur. Þeir segja að lán sé veitt til slíkra framkvæmda, að vísu svolítið takmarkað, en engu að síður ótrúlega mikill hluti þess heildarfjármagns sem Húsnæðismálastofnunin hefur yfir að ráða í Byggingarsjóði ríkisins. Hér þarf auðvitað að gera uppskurð og hér rekast á grundvallarskoðanir um það, hvernig eigi að standa að húsnæðismálunum í heild, hvort þarna eigi að lána „holt og bolt“, eins og maður getur sagt á slæmu máli, hvort hér eigi einhverjir að hafa forgang, þeir sem þörfina hafa, eða þá happa- og glappastefnu sem í þessu ríkir í dag.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á eitt atriði. Frændur okkar á Norðurlöndum hafa komið sér upp mjög fullkomnu lánakerfi, eins og vikið er að í grg. og ég sé ekki ástæðu til að vera að þylja upp. Þeir hafa einnig komist langt í sambandi við verksmiðjuframleiðslu húsa. Ég hef fengið vissa reynslu af því, hvernig hefur gengið að koma slíkri verksmiðju á fót hér. Fyrir rúmu ári hóf sveitarstjórn Reyðarfjarðarhrepps ásamt fjölmörgum áhugamönnum úr byggðarlaginu og undir forustu manns, sem sérstaklega hefur kynnt sér möguleika til lækkunar byggingarkostnaðar með slíkri raunverulegri verksmiðju, baráttu fyrir því að reisa eystra fullkomna verksmiðju af þessu tagi, Og nú má segja að staðið sé í sömu sporum að mestu. Við erum að vísu reynslunni ríkari, en þessi reynsla er ekki fögur. Kostnaðaráætlanir okkar hafa lítt verið vefengdar og væntanlegur framleiðslukostnaður húsanna, sem er um 20% lægri en almennt gengur og gerist, hefur ekki heldur verið vefengdar. Og þeir hjá Húsnæðismálastofnuninni draga enga dul á það, t. d. framkvæmdastjóri þeirrar stofnunar, Sigurður E. Guðmundsson. að hér sé um framtíðarlausn fyrir okkur að ræða sem okkur beri að styðja. Og hann er ekki í neinum vafa um að ef slík verksmiðja væri orðin verulega samkeppnisfær og gæti stundað fjöldaframleiðslu, — verksmiðja eða verksmiðju, eins og hann orðaði það, — þá mundi þarna vera um stórlækkun kostnaðar að ræða.

En eitthvað hefur verið að í samþandi við þetta, einhver tregða eins og í fleiru varðandi húsnæðismálin Á tímabili tóku menn allt í einn upp á því að koma með virðulega skýrslu frá Iðnþróunarstofnun sem hún hafði látið vinna, og þar var komist að því, að sennilega væri enginn markaður fyrir þessi hús. Eftir þeirri skýrslu að dæma hefði maður alveg eins getað ímyndað sér að húsbyggingar hlytu að dragast saman, markaður fyrir svona hús mundi ekki verða neinn vegna þess að fólk vildi ekki hafa öll hús stöðluð, öll eins. Það væri gersamlega útilokað að hugsa sér það af því að þarna var um einbýlishús eða raðhús eingöngu að ræða. Þetta var dregið stórlega í efa.

Nú var gerð skýrsla fyrir okkur, önnur markaðsskýrsla varðandi þessi verksmiðjuhús, af verkfræðiskrifstofu hér í bæ sem er mjög virt í því efni. Þá kom það auðvitað fram, að þetta sem áður var sagt í skýrslu Iðnþróunarstofnunar, var tóm endileysa. En þá fóru þeir að draga í efa, þeir góðu menn, að kannske væru útreikningar okkar varðandi hitt atriðið ekki alveg nákvæmlega réttir, þannig væri kannske vissara fyrir okkur að bíða örlítið lengur og sjá hvernig þetta tækist til. Og lánaaðilar hafa haldið að sér höndum. Þeim þykir mikið í lagt, þótt undarlegt sé, að reisa verksmiðju sem fullbúin á að kosta samkv. nýjustu upplýsingum, sem við höfum á verðlagi ársins 1979 framreiknuðu, upp undir 200 millj. að vísu, en gæti framleitt milli 60 og 100 hús árlega, ef rétt væri að staðið — þús sem væru sannarlega eftir þessari nýjustu skýrslu, sem við höfum fengið, yfir 20% ódýrari en hús á almennum markaði.

Ég dyl hvergi vonbrigði mín með þetta, en ég vík aðeins að þessu hér af því hvað tregðan er mikil, þótt reynsla annarra þjóða sé í raun og veru allt of ótvíræð til þess að það sé möguleiki að vísa þessari tilraun okkar á bug. Og það hefur einnig komið inn í þetta, að hér hefur verið um að ræða veigamikinn lið í því að reyna að efla atvinnulíf staðar sem viðurkennt er að standi fremur höllum fæti nú. Einnig hefur verið talið að þarna væri um merkilega tilraun að ræða. Þeir aðilar, sem hafa gleggst þekkt til, þ. e. a. s. hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, telja það. Verður málið enn illskiljanlegra í ljósi þess. En þeir hafa ekkert fjármagn til þess að lána til þess arna. Byggingarsjóður ríkisins getur ekki gert það. Þar verðum við að leita í aðra sjóði. Ég skal ekki vera að tíunda ýmis einkennilegheit, sem upp hafa komið varðandi þessa viðleitni okkar og ástæðulaust er kannske að skýra mönnum frá hér, en þetta er þó eitt dæmi um þessa gífurlegu tregðu.

Stundum er sagt að þeir aðilar, sem standa mest fyrir byggingum hér á landi, eigi nokkra sök á þessu. Það kann vel að vera. Ég hef heyrt þær röksemdir og ég tel að þær eigi við nokkur rök að styðjast, að byggingameistarar standi oft allhressilega í vegi fyrir ýmsum nýjungum og haldi að þar með sé tekinn spónn úr þeirra aski. Auðvitað verður það staðreynd ef slík verksmiðja kæmist á t. d., þá yrði um það að ræða. Einnig færi svo ef lán til eldri íbúða nýttust mönnum betur og eldri íhúðir væru teknar meira í notkun en raun ver vitni í dag, væru notaðar og nýttar til hins ítrasta — þessi þjóðhagslega nauðsyn sem hæstv. félmrh. talaði einu sinni um úr þessum ræðustól.

Ég held að ég hafi þessa framsögu ekki öllu lengri. Ég vitna í grg. með þessari till. okkar. Ég hef sagt það, og ég hygg að ég geti staðið við það, að þó að lánakjörum og lánsupphæðum verði breytt á þann hátt, sem við gerum ráð fyrir í lið 2 og 3, þá þurfi ekkert aukafjármagn í Byggingarsjóð ríkisins, það þurfi aðeins aðrar úthlutunarreglur. Ég hygg að þeir menn , sem halda þessu fram og hafa kynnt sér þetta náið fari með rétt mál. En þeir segja einnig, að til þess að svo megi verða þurfi að verða gerbreyting á stjórn húsnæðismála, þeirri sem öllu ræður og æðst stendur hjá félmrh. og rn. hans, þá verði að vera gjörbreyting á þessu fyrirkomulagi og menn verði bara að gera svo vel og hætta að lána í byggingar sem engin þörf er að lána út á. En um daginn gerðist það, eins og menn eflaust vita hér, að það voru rýmkaðar að kröfu þessara sömu aðila reglurnar um það, hvað byggja mætti stórt og lána út á það. Þær voru rýmkaðar. Að vísu er prósentan ekki alveg eins há, en talið er að þessi rýmkun geti skilað kannske nokkrum hundruðum millj. úr Byggingarsjóði ríkisins, jafnvel á þessu ári, sem væru auðvitað betur komnar í verkamannabústöðum eða til þeirra fjölskyldna sem ekki eiga íbúð og hafa ekki átt íbúð s. l. 5 ár, eins og við leggjum til í till. okkar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þessa till. frekari orðum, en veit að það er nánast formsatriði að vera að vísa þessari till. til n., því að till., sem ég fékk vísað til n. í nóvembermánuði, hefur ekki enn þá sést. Till., sem er að koma núna í apríllok, getur varla annað en farið til n. Kannske horfir einhver á hana og fær kannske verðugan svima af fskj. II, þó ekki væri annað, í sambandi við það sem þar stendur um afborganir. En ég tel að það sé svolítill vandi að ákveða til hvaða n. eigi að vísa till. Hér er ekki um atvinnumál að ræða. Allshn. hefur verið að láta eitthvað frá sér fara núna upp á síðkastið. Ég hélt að hún væri alveg liðin undir lok í þinginu, en hún hefur eitthvert lífsmark sýnt núna upp á síðkastið. Kannske ég vogi mér að leggja til að vísa till. til hv. allshn.