25.04.1978
Sameinað þing: 71. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3935 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

269. mál, húsnæðismál

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. 1. flm. þessarar till. hefur þegar gert allítarlega grein fyrir henni, svo að ég sé ekki ástæðu til að hafa um hana mjög mörg orð. Þó vildi ég nota tækifærið til að leggja áherslu á að það er löngu orðið tímabært að losa húsnæðismál á Íslandi undan því braski og gróðabralli, sem hefur einkennt framkvæmd þeirra mála hingað til, og viðurkenna þá frumþörf fólks að hafa þak yfir höfuðið sem félagslegt úrlausnarefni eins og raunar hefur verið gert að nokkru með lögum um verkamannabústaði og leiguíbúðir sveitarfélaga. En það er raunar langt frá því að nóg sé að gert. Verkalýðssamtökin hafa sýnt vilja sinn til að vinna að þessum málum með því að berjast fyrir að fá tekin ákvæði varðandi þau inn í kjarasamninga, en áður en nokkur viðhlítandi lausn fáist þarf að styrkja þá starfsemi og efla mjög mikið, eins og þessi till. gerir raunar ráð fyrir.

Ég vil leggja áherslu á að það er okkur flm. og öðrum Alþb.-mönnum langt frá því að vera eitthvert sáluhjálparatriði, að allir eignist eigið húsnæði, fyrir utan það, að í þjóðfélagi okkar eru mjög margir sem alls ekki hafa nokkur einustu tök á því eða von til þess að eignast nokkurn tíma húsnæði eins og launamálum hér er háttað.

Ég veit ekki hvort þarf að lýsa fyrir hv. þm. því öryggisleysi sem leigjendur hér á landi búa við, en eins og nú er misnota húseigendur aðstöðu sína sem kostur er og okra á húsaleigunni án þess að leigjendur komi nokkrum vörnum við, enda hafa engin húsaleigulög verið í gildi um langan tíma. Ég gæti nefnt mörg dæmi.

Ég get nefnt dæmi um það þegar leigjendur — ég hef sjálf lent í þessu, svo að ég hef eigin reynslu að segja frá — eru látnir borga mun hærri upphæð en gefin er upp. Af hverju gera þeir þetta? Af hverju leita þeir ekki réttar síns? Það er hreinlega ekki hægt. Það er enginn réttur þarna. Og bara til að halda húsnæðinu lætur fólk sig hafa það að borga kannske 50 þús., en fá uppgefið 25 þús. Annars er því bara sagt upp. Annars getur það farið. Þetta er nú eitt dæmi um varnarleysi leigjenda.

Annað dæmi er að það er ævinlega hægt að segja fólki upp fyrirvaralaust. Það eru yfirleitt engir samningar um fyrirvara í sambandi við húsnæði.

Hið þriðja gæti ég nefnt. Það er ákaflega dýrt að leigja. Það er miklu dýrara í reynd að leigja en ef fólk hefur nokkurn möguleika að klóra saman til þess að eignast húsnæði. Það er mjög dýrt að flytja í hvert sinn, og fyrir utan það eru þessar duldu greiðslur sem þarna koma til.

Það ber að fagna því, að leigjendur hér í Reykjavík og nágrenni eru nú loksins að vakna til meðvitundar um það, hver máttur getur verið með samstöðunni, og hafa stofnað með sér samtök til að berjast fyrir rétti sínum. En þá fyrst verður réttur leigjenda raunverulega tryggður. að annaðhvort ríki eða bæjar- og sveitarfélög sjái þeim, sem þess æskja, fyrir leiguhúsnæði með viðráðanlegum kjörum. Þetta hlýtur að vera félagslegt framtíðarmarkmið og þá um leið sú stefna sem þetta frv. miðar örlítið í áttina til. þ. e. a. s. að gefa þeim, sem þess óska, kost á að eignast með skilorðsbundnum ráðstöfunarrétti íbúðir, sem byggingarfélög almennings reisa á félagslegum grundvelli með tilstyrk opinber, lánakerfis, svo sem lögin um verkamannabústaði og leiguíbúðir sveitarfélaga stefna í rauninni að. Og þótt það sé ekki gert í þessu frv., þá vil ég leyfa mér að nefna sem annað framtíðarmarkmið að færa fasteignasölu og húsnæðismiðlun alfarið á hendur opinberra aðila um leið og girt verði fyrir lóðabrask með því að færa lóðir og væntanleg byggingarsvæði undir eignarhald bæjar- og sveitarfélaga. Á sama tíma þyrfti að gera skipulegt átak til að lækka húsnæðiskostnaðinn, t. d. með fjöldaframleiðslu húsa og húshluta, enn fremur að leitast við að finna húsagerðir sem hæfa sem best íslenskum aðstæðum, og á ég þar við bæði veðurfar og sambúðarháttu, um leið og reynt yrði að sjálfsögðu að forðast hvort tveggja: einhæfni og óþarfa íburð. Get ég ekki séð annað en þetta væri m. a. verðugt verkefni fyrir Húsnæðismálastofnunina. ef hún fengi starfslið sem ynni að hinum félagslega þætti íbúðarbygginga. En eins og málin standa nú er aðalatriðið að auðvelda fólki að komast yfir hóflega íbúð með sem hagfelldustum hætti, hvort sem er með því að auðvelda því að eignast hana eða auka möguleikana á því að fá leiguhúsnæði, þar sem leigukjörin séu undir eftirliti eins og ætti að gilda um íbúðir sem bæjar- og sveitarfélög leigja út. Að þessu tvennu miðar þetta frv.