26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3937 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

228. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Frsm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Iðnn. þessarar d. hefur haft til meðferðar frv. til laga um breyt. á lögum nr. 43 frá 26. maí 1972, um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, sbr. lög nr. 69 23, maí 1974, um breyt. á þeim lögum.

Frv. þetta hefur að sjálfsögðu verið til meðferðar hjá iðnn. Nd. og hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar. Það á sér einnig nokkurn aðdraganda, sem mér þykir rétt að fara um örfáum orðum, þótt ekki vilji ég hafa mál mitt langt, enda má segja að þetta mál sé nokkuð vel rakið í aths. við lagafrv., sem fram kom með frv.

Þar er þess getið að með lögum nr. 48. frá 26. maí 1972, um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, hafi stofnuninni verið lagt til óendurkræft framlag úr ríkissjóði, 25 millj. kr. ár hvert fyrstu 5 starfsárin. Einnig var með þeim lögum settur á fót sérstakur sjóður, Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins. Tekjur hans voru ákveðnar öll útflutningsgjöld af niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum og söltuðum grásleppuhrognum næstu 5 ár frá samþykkt laganna. Þessi 5 ár eru nú liðin, þannig að þessar tekjur hafa fallið niður. Jafnframt var þá gert ráð fyrir öðrum breytingum hjá Sölustofnun lagmetisiðnaðarins þ. e. a. s. þeirri, að fulltrúar lagmetisiðnaðarins verða hér eftir í meiri hl. í stjórn fyrirtækisins.

Ég ætla ekki að rekja það hér, enda kemur það greinilega fram í fyrrnefndri grg., að tekjur Þróunarsjóðs hafa verið miklar undanfarin 5 ár og raunar líka mestar af söltuðum grásleppuhrognum. Að sjálfsögðu var gjald þetta á lagt m. a. með það í huga, að stofnuninni gæti tekist á þessu 5 ára tímabili að efla hér á landi verulega niðurlagningu grásleppuhrogna, sem gæti ekki aðeins orðið til þess að auka verulega verðmætasköpun í þjóðfélaginu, heldur einnig tekjuauki fyrir þá sem salta grásleppuhrogn. Þetta hefur því miður ekki tekist og eru ýmsar ástæður til þess m. a. og kannske fyrst og fremst þær, að útflutningur á niðurlögðum grásleppuhrognum hefur átt við töluverðatollmúra að stríða í þeim löndum sem fyrst og fremst flytja slíkar afurðir inn, þannig að mjög lítil aukning hefur orðið innanlands í þessum iðnaði. Á þessu hefur nú orðið breyting, þannig að tollur er felldur niður af niðurlögðum grásleppuhrognum.

Vænta forstöðumenn Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins þess nú að veruleg aukning geti orðið á slíkum iðnaði hér á landi.

Nú má vitanlega um það deila, hvort aukin niðurlagning á grásleppuhrognum innanlands muni auka tekjur þeirra sem salta grásleppuhrogn. Vafalaust eykur þetta nokkuð þjóðartekjur, en um hitt má að sjálfsögðu deila. Staðreyndin er hins vegar sú, að við Íslendingar munum framleiða u. þ. b. 80% af söltuðum grásleppuhrognum á heimsmarkaðnum. Vinnsla úr þessum afurðum er því mjög á okkar valdi og ætti raunar að geta verið alveg á okkar valdi, ef hér tekst að sameina menn um sölu á söltuðum grásleppuhrognum.

Því hef ég sérstaklega getið um grásleppuhrognin, að í sambandi við það frv., sem hér er til meðferðar, hafa fyrst og fremst orðið deilur um þá till. í frv., að framlengt verði gjald af söltuðum grásleppuhrognum í 3 ár enn, að vísu ekki 6% gjald heldur 3%. Nýstofnuð samtök grásleppuhrognaframleiðenda hafa lagst eindregið gegn slíku gjaldi og með töluverðum rétti getað bent á að þeir hafa ekki notið þeirra hagsbóta af 6% gjaldinu undanfarin 5 ár, sem þeir hafa greitt, sem að var stefnt, heldur hafa þessar tekjur Þróunarsjóðsins fyrst og fremst staðið undir margvíslegum öðrum störfum Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að rekja þessi mál til lengdar, en vil þó geta þess, að í meðferð hv. iðnn. Nd. náðist samkomulag með forstöðumönnum Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins og Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda þess efnis, að Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins verði gert skylt að greiða 1/3 hluta af þessum tekjum af söltuðum grásleppuhrognum til fyrrnefndra Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda. Sömuleiðis hefur náðst samkomulag milli þessara aðila um aðstöðu sem Samtök grásleppuhrognaframleiðenda munu fá í húsnæði því sem Sölustofnun lagmetisiðnaðarins hefur komið upp. Málið var þannig shlj. afgreitt frá Nd., að þessu samkomulagi fengnu.

Í Nd. urðu hins vegar þau mistök, að úr brtt. frá iðnn. við 3. gr. frv. féll niður mikilvæg setning sem einmitt hnígur að þessu samkomulagi. Því flytur iðnn. þessarar d. brtt. á þskj. 688, sem er umskrifun 3. gr., en breyt. felst í því einu, að við fyrri málsgr. þeirrar greinar er bætt setningu, svo hljóðandi:

„Af fullvinnslugjaldi af grásleppuhrognum skal Þróunarsjóður lagmetis greiða 1/3 hluta til Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda.“

Með þessari viðbót er fullnægt þessu samkomulagi, sem ég hef áður nefnt. Ég vil taka það fram, að formaður Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda hefur staðfest það við mig að hjá þeim sé fullkomin eining um þessa afgreiðslu málsins. Ég hef jafnframt undir höndum bréf frá Samtökum grásleppuhrognaframleiðenda, dags. 17. apríl 1978, þar sem þetta er enn staðfest.

Þá vil ég geta þess, að á því hefur leikið nokkur vafi, hvort greiða beri 6% útflutningsgjald af söltuðum grásleppuhrognum, sérstaklega eftir að þetta gjald féll niður til Þróunarsjóðs Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins 1. jan. s. l. Því hefur verið gengið eftir áliti sjútvrn. á þessu máli. Hefur rn. ritað Samtökum grásleppuhrognaframleiðenda svo hljóðandi bréf 24. apríl 1978, með leyfi forseta:

„Með tilvísun til ódagsetts bréfs yðar um það, hvort 6% útflutningsgjald eigi við um söltuð grásleppuhrogn, staðfestir rn., að skilningur þess á lagaákvæðum um útflutningsgjald af sjávarafurðum er sá, að hið almenna 6% útflutningsgjald skuli ekki innheimt eftir 1. jan. 1978.“

Lítur iðnn. því svo á, að þessu atriði í samkomulagi títt nefndra aðila, þ. e. a. s. Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins og Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda, sé einnig fullnægt.

Ég vil aðeins segja að lokum, að mér finnst ánægjuefni að náðst hefur samkomulag á milli þessara aðila. Ég fagna því. að grásleppuhrognaframleiðendur hafa myndað samtök. Ég hygg að það hafi verið mjög mikil þörf á slíkum samtökum. Þarna eru margir smáir aðilar sem eiga hlut að máli, og þótt e. t. v. megi segja að þetta sé ekki stór hlutur í þjóðarbúskap okkar, þá er staðreyndin þó sú. að þetta er ákaflega mikilvægur hluti í tekjum fjölmargra smárra aðila, m. a. fjölmargra bænda viða um land. Ég held að þeirra hagsmuna sé stórum betur gætt með því. að þeir hafa nú myndað þessi samtök. Ég hygg að þeir þurfi að gæta hagsmuna sinna á mörgum sviðum. Þeir þurfa í fyrsta lagi að gæta hagsmuna sinna í sambandi við sölu á söltuðum grásleppuhrognum sem eru í höndum margra aðila og að mínu áliti þarf að samræma. Þessi samtök hafa nú komið fram gagnvart Sölustofnun lagmetisiðnaðarins og þar eiga þeir mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við niðurlagningu í söltuðum grásleppuhrognum. Ég hef fyrr lýst því samkomulagi, sem þar hefur náðst, sem tvímælalaust má rekja til stofnunar þessara samtaka.

En ég vil aðeins segja það hér, að ég tel að ástæða sé til þess að gefa gaum miklu betur en gert hefur verið grásleppuveiðum við landsins strendur. Ég hygg að þar þurfi að hafa á meiri gát en verið hefur.

Að vísu hefur verið gerð tilraun til þess að hafa nokkra stjórn á þeim veiðum með reglugerð sem sjútvrn. hefur gefið út um leyfi til grásleppuveiða, en grunur minn er þó sá, að ofveiði sé víða mjög mikil og ofveiði þessi hafi komið fram á undanförnum árum í minnkandi veiði víðast hvar, ef ekki alls staðar við landið. Þær fréttir hef ég nú, að mjög sé áberandi að grásleppuveiði minnki enn á sumum bestu og áður öruggustu veiðisvæðunum. Ég held að það sé sem sagt orðið mjög tímabært að hafa ákveðnari og fastari stjórn á þessum veiðiskap, takmarka hann að vissu marki, setja honum eðlileg takmörk. Mér sýnist að nú sé stórum betri grundvöllur til slíks með stofnun þessara samtaka grásleppuhrognaframleiðenda.

Ég vildi aðeins láta þessi orð falla, jafnframt því sem ég lýsi samþykki iðnn. Ed. við frv. eins og það kom úr Nd., en með þeirri viðbót, sem ég hef getið um, í sérstöku skjali sem fylgir þessu máli.