26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3947 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Þar sem ég á ekki sæti í þeirri n., sem þessu máti er vísað til, þykir mér hlýða á þessu stigi málsins að gera grein fyrir þeirri afstöðu sem ég hef varðandi þetta mál.

Ég er persónulega fylgjandi frjálsræði í verslun og viðskiptaháttum og tel siðmannlega samkeppni milli einkaverslana og félagsverslunar ákjósanlegt viðskiptaform þegar þjóðfélagshættir mega teljast í þolanlegu jafnvægisástandi. Hagkvæm verslun og viðskipti hljóta að vera mikilsverðustu atriði hvers svokallaðs neysluþjóðfélags, og er þjóðfélag okkar Íslendinga þar engin undantekning. Þess vegna ber að gæta vel að aðbúnaði þessara atvinnu- og þjónustugreina eigi síður en framleiðslugreinanna, ef rétt er hugsað.

Ég hef fyrir löngu myndað mér þá skoðun, að strangar verðlagshömlur af hálfu hins opinbera og sífelld afskiptasemi af álagningu, ekki síst á sumum vörum og öðrum ekki, væru bæði verslun og neytendum vafasamt aðhald, enda sýnist mér að við séum nú komin í slík öngstræti í þessum málum, að erfitt reynist að feta sig út úr því svo að vandræðalitið verði. Öngstrætið er annars vegar það, að verslunin hefur verið svipt tilfinningunni fyrir nauðsyn hagkvæmra innkaupa, en neytandinn týnt niður þeirri gömlu góðu sjálfsbjargarviðleitni að leita fyrir sér um verð og gæði vöru, heldur hefur kastað þeirri fyrirhöfn á herðar verðlagseftirlits.

Um skeið unnu kaupfélögin og samvinnuhreyfingin ákaflega mikilsvert starf í þágu góðra verslunarhátta og til eflingar verðskyns alþýðu manna víða um land. Hvað seinni þáttinn snertir a. m. k. finnst mér mjög hafa slaknað á, en viðurkenni að sjálfsögðu að bæði eiga þau ekki þar ein sök, enda ill nauðsyn á verðlagshömlum hitt þau eins og aðra verslunaraðila. Ég sagði: ill nauðsyn, því að sjálfsögðu er mér vel ljóst að slíkar aðstæður skapast oftsinnis, að hjá verðlagshömlum og verðlagseftirliti verður alls ekki sneitt, svo sem í styrjaldarárferði eða þegar grípa verður til skyndilegra og sársaukafullra efnahagsráðstafana svo að hægt sé að sigla hættulega slagsíðu af þjóðarskútunni þegar raunverulegir brotsjóir hafa skollið á eða óviturleg skipstjórn hefur stýrt í vandann. Frá því í síðustu heimsstyrjöld hefur meira og minna strangt verðlagseftirlit með fyrirskipuðum verðlagsákvæðum ríkt hér í landi. Launþegasamtökin eru því löngu farin að líta á það sem eitt af varnarvirkjum sínum í sífelldu og flóknu tafli um kaup og kjör við atvinnurekendur og ríkisvaldið og þá ekki síst eins og nú, þegar sami stóllinn virðist undir stjórn ríkisins og stjórn atvinnurekendasambandsins eða hvor situr í keltu hinnar til skiptis.

Við jafnvægisaðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar hefði ég vísast talið mér rétt að fylgja frv. því er hér ræðir um sem áfanga á leið til úrbóta. Þó finnst mér að kaflann um neytendavernd hefði þá orðið að vinna upp, ella semja ný lög um neytendavernd, kvörtunarþjónustu og fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar slíkra mála fyrir héraðsdómstólum. Ég hefði þó talið mér skylt að hlusta eftir áliti launþegasamtakanna um gildi úrbótanna, því að knýja fram breytingar á gildandi verðlagslögum í andstöðu við álit meiri hluta fólks í þeim röðum finnst mér óskynsamlegt, og nú stendur einmitt svo á, að eftir komandi kosningar er augljóst að ekki verður umflúið að gera mjög sársaukafullan uppskurð á efnahagsháttum okkar. Ef snúa skal frá villu okkar vegar, þá munu verðlagshömlur um tiltekið skeið hljóta að verða eitt af úrræðunum og því eðlilegra að skapa þá ný lög að nýjum háttum heldur en breyta nú, meðan enginn veit hver úrræði verða valin. Við þetta bætist og, að samkv. fskj. þessa frv. tjá forsvarsmenn stærstu launþegasamtakanna, ASÍ og BSRB, sig andvíga frv. þessu. Tel ég það ærna ástæðu til þess, að óskynsamlegt er að samþ. það nú. Á því leikur enginn vafi, að eigi íslenska þjóðin að komast þóknanlega frá þeirri efnahagsúlfakreppu, sem vanstjórn og óstjórn núv. og fyrrv. ríkisstj. hefur leitt hana í, þarf víðtæk samstaða að myndast eftir kosningar, þar sem launþegasamtökin hljóta að verða styrktarstoðin, ef vel á að rætast. Það er því óskynsamlegt að samþ. nú á síðustu dögum þings lög um mál sem launþegasamtökin hljóta að láta sig miklu varða, lög í þeirri mynd sem þau hafa ekki sannfæringu fyrir að horfi til heilla og munu ugglaust krefjast umtalsverðra breytinga á. Af þessum sökum og þessum sökum fyrst og fremst hef ég ákveðið að greiða atkv. gegn þessu frv.