26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3949 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir margt í þeirri ræðu sem hér var síðast flutt, ræðu sem var, þó að það sé kannske ekki fallegt að segja það fyrir okkur hina, óvenjulega vönduð og góð ræða. Margt í henni var mjög skynsamlegt, sem ég tek algjörlega undir, án þess að ég ætli að fara að skipta mér af bollaleggingum um það, hvaða ríkisstj. eigi að sitja eftir næstu kosningar.

Það er lítill tími til þess að virða þetta viðamikla frv. fyrir sér núna á síðustu dögum þings. Frv. varð óbeint umræðuefni okkar hér um daginn, þegar til umr. var frv. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni. Það er ástæðulaust að vera að endurtaka það sem þá var sagt í þessum ræðustól.

Það er vitnað í það og má telja eðlilegt, að á sínum tíma eða 1969 hafi verið flutt frv. mjög svipaðs eðlis. Hefur verið bent á að þá hafi sá hæstv. ráðh., sem nú mælir fyrir þessu frv., kannske verið um margt á öndverðri skoðun við það sem hann er nú. Ég ætla ekki að fara að endurspegla umr. í Nd., sem voru víst mjög fróðlegar og jafnframt skemmtilegar, varðandi mismunandi ræður og ræðustíl annars vegar í framsögu fyrir þessu frv. og hins vegar í andmælum gegn öðru líku eða svipuðu áður. Hins vegar fannst mér að framsöguræða hæstv. ráðh. áðan væri þó einhvern veginn á þann veg, að um nokkra afsökun væri að ræða. Einhvern veginn fannst mér það, þó að rétt sé að geta þess, að þessi hæstv. ráðh. mælir ávallt fyrir frv. sínum af sanngirni, en ekki af offorsi, og ber að meta það, að skini í gegnum ræðu hans viss vantrú á því, að hér væri í rétta átt stefnt. Einhvern veginn var það svo, að undir ræðu hans skaut þessari gamalkunnu setningu æ ofan í æ upp í huga mínum: Góð meining enga gjörir stoð.

Ég sem sagt efast ekki um að hæstv. viðskrh. hafi vandlega ígrundað þetta mál áður en hann lagði það hér fram. Ég þykist einnig vita hverjir hafi mest á eftir rekið því, að þetta frv. er fram komið. Ég geri mér hins vegar ekki vonir um að það verði eins með þetta frv. og það frv., sem flutt var 1969 og þá var stöðvað af stjórnarþm. í Ed., sem er ekki viðstaddur núna, fylgismanni þáv. stjórnar. Ég reikna með því, að búið sé að tryggja meiri hl. stjórnarflokkanna, þann hinn stóra og mikla sem þeir hafa, fyrir því að þetta frv. nái óbreytt fram að ganga með þeim breyt. sem í Nd. voru á því gerðar.

Ég hlýt að lýsa yfir andstöðu minni við þetta frv. Ég hef ekki trú á því, að aðhald neytendanna í okkar verðbólgu allri verði það sem menn vilja vera láta. Ég held að fyrst þurfi að snúa hjólinu við, áður en hægt er að tala um að neytendur hafi möguleika á því í raun og veru að átta sig nægilega á þessu, svo brenglað er orðið verðskyn neytendanna almennt í hinum öru verðbreytingum. Og þrátt fyrir alla þá galla, sem við höfum horft upp á varðandi verðlagslöggjöf okkar, varðandi verðlagshömlur okkar, þá hefur þar þó verið, eins og hv. þm. Bragi Sigurjónsson tók fram áðan, helst haldreipi launþegasamtakanna og neytendanna almennt til þess að leita réttar síns. Varðandi þær vörur, þar sem allt hefur verið frjálst, þá hefur ekki verið til neins að leita og verðbreytingar það örar og sviptingar það miklar, m. a. gengisfellingar með þeim skyndilegu afleiðingum sem gengisfellingar hafa á verðlag allt, að neytendur hafa í raun og veru ekkert aðhald getað gefið og þeir munu ekki geta gefið það nema snúið verði við blaðinu.

Ég ætla ekki að fara út í að ræða um það, að hér sé í raun og veru verið að gefa, eins og mig grunar, kaupsýslustéttinni enn meiri möguleika á því að komast yfir aukinn gróða, á sama tíma og hæstv. ríkisstj. er nýbúin að koma á þeirri kaupskerðingu sem hún hefur gert að sinni. Ég vil engu spá ákveðið um þetta. Mér dettur hins vegar ekki í hug að sá mikli þrýstingur, sem hefur verið frá kaupsýslustéttinni, óskir um rýmkun á þessari löggjöf um aukið frelsi, stafi af því, að aðalstefnumið þeirra sé að lækka vöruverð. Mér hefur ekki komið það til hugar og ég get varla ímyndað mér að mönnum detti í hug, að sá mikli þrýstingur, sú mikla gagnrýni, sem hefur komið fram frá þeim á verðlagshömlur allar, stafi af því, að þeir ætli sér að nota nýjar reglur og frjálslegri til þess að lækka vöruverð og gera það neytendum í hag. Það er hins vegar ekkert furðulegt þó að kaupsýslumönnum þyki ekki með þessu frv. nóg að gert, því vissulega eru í frv. ýmsar takmarkanir varðandi verðákvarðanir sem þeir vilja ekki hafa. Þeir vilja ekki hafa þær neinar og vilja láta þá samkeppni ráða sem þeir hafa svo mjög á orði, en sem mér sýnist í öllu að sé miklu fremur samtrygging, og því miður hefur félagsverslunin einnig lent í þessari samtryggingu. Því miður, segi ég, því að auðvitað er það félagsverslunarinnar að sjá svo um, að einkaaðilarnir geti ekki komist upp með að okra á hinum almenna neytanda.

Ég veit vel um ýmsa erfiðleika félagsverslunar í þessu efni og þá alveg sérstaklega samvinnuverslunarinnar. Ég veit vel að samvinnuhreyfingin er ekki bara á verslunarsviðinu. Ég veit að hún fæst víða úti á landsbyggðinni við viðamikil viðfangsefni sem kalla á mikið fjármagn og jafnframt skapa atvinnuöryggi fyrir íbúana þar, og ég veit einnig um þá erfiðu aðstöðu, sem þeir glíma við varðandi það að hafa tiltækar vörur af svo fjölbreyttu tagi sem þeim er nauðsynlegt, og eins hvað velta þeirra er auðvitað miklu hægari en verslana á þessu svæði hér. En engu að síður hlýt ég að segja að ég hefði kosið að félagsverslunin í landinu hefði veitt einkaversluninni meiri og verðskuldaðri samkeppni en hún hefur þó gert.

Ég ætla ekki að fara að ítreka það nánar, sem ég sagði um daginn t. d. varðandi Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis og afslátt þess til félagsmanna og afslátt ýmissa kaupfélaga einnig. Þó er það kannske helst, að ef af þessari verslun þeirra verður gróði, þá rennur hann fyrst og fremst til félagsmannanna sjálfra í einhverju formi. Það skiptir þar auðvitað meginsköpum. En engu að síður hlýtur það að vera áfram keppikefli samvinnufélaganna, eins og það var þeim í árdaga, að tryggja neytendum ávallt á hverjum tíma eins hagstætt vöruverð og kostur er, og að því ber samvinnuhreyfingunni vissulega að stefna.

Ég hlýt að taka, eins og hv. þm. Bragi Sigurjónsson, ákaflega mikið mark á því sem launþegasamtökin láta frá sér fara um frv. af þessu tagi. Og með tilvísan til þess einmitt vísa ég til álits þeirra, sem hér fylgir með og ekki sakar að vitna til, með leyfi hæstv. forseta. En í sinni umsögn segir Alþýðusambandið:

Eftir að hafa kynnt sér frumvarpsdrögin allítarlega, er það mat Alþýðusambands Íslands, að þau komi á engan máta til móts við hinar margítrekuðu kröfur sambandsins um breytt fyrirkomulag verðlagsmála.

Í fyrsta lagi hefur Alþýðusambandið krafist þess, að verðákvarðanir verði samræmdar. Í dag er kerfið sundurleitt og án samhengis, og frumvarpsdrögin stefna greinilega að því, að svo verði áfram. Eðlilegt er, að verðákvarðanir á hinum ýmsu sviðum séu teknar út frá samræmdum rekstrarforsendum. Þó það sé gert er fullkomlega mögulegt að taka tillit til séraðstæðna, t. d. þannig að opinberir aðilar niðurgreiði vöru eða þjónustu eða skattleggi sérstaklega.

Í öðru lagi hefur Alþýðusambandið krafist samræmdrar stjórnar á verðákvörðunum og verðgæslu. Alþýðusambandið hefur margsinnis ítrekað nauðsyn þess, að verðlagseftirliti verði hagað öðruvísi en tíðkast hefur og t. d. aukin áhersla lögð á öflun gagna um verðlag erlendis. Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir því, að kerfið greinist í þrennt: verðlagsráð, samkeppnisnefnd og verðlagsstofnun. Þessi aðgreining er óheppileg. Frumvarpsdrögin virðast raunar gera ráð fyrir því, að samkeppnisnefndin, sem aðilum vinnumarkaðarins er ekki ætluð aðild að, geti orðið nokkur samræmingaraðili í þessu tilliti. Skipan þeirrar nefndar er hins vegar í fullkominni andstöðu við óskir Alþýðusambandsins um aukin áhrif á verðlagskerfið, og samræming í höndum þeirrar nefndar yrði því ekki til hins betra. Á það verður ekki fallist, að áhrifaaðstaða verkalýðssamtakanna verði skert og jafnvel aðstaða þeirra til þess að fylgjast með þróun mála.

Í þriðja lagi vantar í frumvarpsdrögin ákvæði, sem tryggja aukna virkni neytenda og aðhald af þeirra hálfu.

Þá eru ákvæði frumvarpsdraganna mörg það óljós, að ekki verður séð hver framkvæmdin muni verða. Þar eð frumvarpsdrögin ganga í meginatriðum í berhögg við kröfur Alþýðusambandsins, teljum við rétt að óska þess, að viðskrh. skipi nefnd, sem fái það verkefni að endurskoða núgildandi löggjöf í samræmi við þau grundvallarsjónarmið, sem hér eru sett fram.“

Neytendasamtökin nefndu hæstv. ráðh. áðan réttilega, þau hefðu sent álit sitt og verið um margt jákvæð. En í fskj. frá þeim er engu að síður tekið glöggt fram, að í löggjöf um neytendavernd þurfi auk þess að koma sérstaklega fram nokkur atriði. Síðan kemur upptalning í 10 atriðum, mörg hver atriðin mjög mikilvæg, sem Neytendasamtökin telja nauðsynlegt að komið sé á til þess að þau geti sætt sig við löggjöf af þessu tagi.

Það, sem kom mér aðallega til að standa hér upp, var þó ekki að lýsa yfir andstöðu minni við þetta frv., því það held ég að hafi nokkurn veginn legið í hlutarins eðli, ekki síst eftir umr. hér á dögunum um mál svipaðs eðlis. Annað kom til. Ég hafði flutt hér á þingi þáltill. um ákveðnari ákvæði um auglýsingar og takmörkunum við þeim, og ég sé að einmitt er að því vikið sérstaklega í áliti frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, en þeir segja einmitt um V. kaflann, um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd, með leyfi hæstv. forseta:

5. kafli . . . er að mestu stílfæring á lögum frá 1933. Hlýtur það að valda vonbrigðum hvað þessi kafli er takmarkaður ... Athygli vekur, hvað lítið er fjallað um auglýsingar, minna en í lögunum frá 1933. Verður það að teljast aldeilis furðulegt. Ekki er að vikið í frv. að setja skuli reglugerð um auglýsingar. Rétt er að taka fram, að sú nýjung fór ekki fram hjá BSRB að samkeppnisnefnd á að geta bannað t. d. ólöglegar auglýsingar samstundis og síðan verði málsaðilar að hnekkja banninu fyrir dómstólum. Þetta er að sjálfsögðu nokkur bót frá því sem nú er.“

Þetta sá ég einnig, þegar ég leit yfir þetta frv., að þetta var sú eina bót sem ég fann varðandi auglýsingarnar. En í þjóðfélagi okkar eru auglýsingarnar orðnar ansi fyrirferðarmiklar. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að um þær séu settar miklu ákveðnari reglur. Ég hlýt að treysta því, að þetta verði ekki látið gilda eitt, sem hér segir í lögunum, að um þetta verði sett ákveðin reglugerð, t. d. um auglýsingar, sem eru beinlínis rangar, gefa rangar upplýsingar og geta verið skaðsamlegar hreinlega á þann hátt, — um það höfum við dæmi — og auglýsingar sem höfða til, að maður getur sagt, lægstu hvata mannskepnunnar. Nóg er nú samt. Ég sem sagt treysti því, að um þetta mál verði ekki aðeins látið gilda það, sem hér segir í frv., heldur verði ítarleg reglugerð sett um þetta.

Ég hef fyrir mér orð mjög mætra manna, sem höfðu við mig samband eftir að ég flutti þessa þáltill., mjög mætra manna sem ég met mikils. Þeim blöskrar, hvernig auglýsingar okkar eru orðnar, hve þær eru skrumkenndar og rangar, en gefi hins vegar litlar — þ. e. vöruauglýsingar — raunverulegar upplýsingar, að ekki sé nú talað um verðupplýsingar eða raunverulegar gæðaupplýsingar sem byggðar séu á ákveðnum gæðaprófum.

En annars er það að segja um álit BSRB að BSRB segir ákveðið — með leyfi forseta — í lok álitsgerðar sinnar:

„Af þessari ástæðu“ — sem þeir hafa nefnt þarna áður og ég sé ekki ástæðu til þess að rekja því það fer að nokkru inn á álit Alþýðusambandsins — „og þeirri, að með frv. virðist stefnt að því, að frjáls verðlagning verði regla, en ekki undantekning, lýsir stjórn BSRB sig andsnúna því, að þetta frv. verði að lögum, eins það liggur fyrir.“

Ég verð að segja alveg eins og er, að ég hef haft ýmsar aths. að gera við verðlagslöggjöf okkar, en þær hafa verið á þann veg, að mér hefur ekki þótt henni vera nægilega vel framfylgt. Ég verð einnig að segja, að ég leit með töluverðri bjartsýni á það þegar nýr verðlagsstjóri var ráðinn. Hann virtist taka á ýmsum vandamálum á nokkuð ferskan hátt, og olli það því, að ég áleit að hann gæti e. t. v. kippt þessum málum í eitthvað betra lag en verið hefur, því óneitanlega hefur þarna verið um misbrest að ræða. Ég hef ekki breytt þessari skoðun minni varðandi núverandi verðlagsstjóra. Ég álit að hann sé hinn mætasti maður og vilji mjög vel gera í þessum efnum, enda hefur hann sýnt það í einstaka tilfellum að hann hefur tekið röggsamlega á málum og gert vel. En þrátt fyrir að ég hafi séð gallana, þá hefði ég talið meiri nauðsyn á því og miklu betur sæmandi flokki eins og þeim flokki, sem hæstv. viðskrh. er foringi fyrir, að koma með frv. til laga, sem bætti úr því fyrirkomulagi og gerði það betra og öruggara fyrir neytendur, heldur en — eins og BSRB segir réttilega — að það verði undantekning að hömlur verði nokkrar á verðlagi, reglan verði sú, að verðlag verði gefið frjálst. Og miðað við ástandið í þjóðfélagi okkar, þá skil ég hreint ekki þær forsendur sem eru fyrir þessu frv., nema einvörðungu sé verið að tryggja kaupsýslumönnum aukinn gróða.