26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta misskilning sem mér fannst koma fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Hann talaði um að embættismönnum væri falið ákvörðunarvald í þessum efnum, en það held ég að standist ekki. Það er einmitt gert ráð fyrir því, að tilteknir aðilar tilnefni fulltrúa í verðlagsráðið og þeir fulltrúar, sem þeir tilnefna, eru ekki færri en sex. Það eru engar líkur til þess, að þeir tilnefni neina embættismenn. Ekki hafa þessir aðilar tilnefnt embættismenn til þessa sem fulltrúa sína. Og það er náttúrlega ekkert vitað um það heldur, að þessir tveir menn, sem Hæstiréttur tilnefnir, verði embættismenn. Þeir eiga að hafa vissa sérþekkingu og sérþekking ætti ekki að skaða í þessum efnum. Þannig eru ekki neinar sérstakar líkur fyrir því, að það verði nema þá níundi maðurinn sem verður embættismaður, en viðskrh. á að skipa hann sem formann.

Nú er það svo, að viðskrh. er alls ekki bundinn við það að skipa neinn úr viðskrn. eða skipa yfirleitt embættismann sem formann. Hann er alveg frjáls að því, þó það hafi verið svo að undanförnu. Ég held þess vegna, að það sé misskilningur hjá hv. þm. að tala um embættismannavald í þessu sambandi. Þarna eru einmitt fulltrúar stórra hagsmunahópa, sem eiga að fara með ákvörðunarvaldið. Og ég held að það sé algjör misskilningur hjá honum, að þetta ímyndaða embættismannavald, sem hann talar um, sé aukið frá því sem nú er. Það væri fremur að hægt væri að tala um embættismannavald núna af því, eins og stundum hefur komið fyrir, að fulltrúarnir skiptast í verðlagsráði í fjóra og fjóra, þ. e. a. s. gagnstæðar fylkingar eftir því hvaða aðili hefur staðið að tilnefningu þeirra, en þá er það aftur á móti oddamaður, sem skipaður er, má segja, af embættisvaldi, þ. e. a. s. viðskrh., sem ræður úrslitum. Ég tel því, að eins og fyrirkomulagið er núna sé í raun og veru frekar hægt að tala um að það sé embættissjónarmið sem mundi ráða úrslitum, en þarna væru þó a. m. k. þrír oddamenn tilnefndir af aðilum sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta. Ég held því að þetta sé á nokkrum misskilningi byggt hjá hv. 12. þm. Reykv.

Ég get sem sagt alls ekki fallist á það, burtséð frá því hvort þessi skipun ráðsins er skynsamleg eða ekki eða hvort önnur væri heppilegri, að það sé þarna um neitt embættismannavald að ræða. Ég get ekki heldur fallist á þá skoðun hv. þm., að Alþ. sé með þessu frv. að afsala sér meira valdi í verðlagsmálum en það hefur gert með núgildandi löggjöf. Verðlagsnefnd hefur þetta vald nú. Alþ. gripur ekki inn t um einstakar verðákvarðanir. Verðlagsnefnd getur bæði ákveðið og hefur ákveðið hámarksálagningu og hámarksverð. Ég veit varla hvort það er hægt að segja að Alþ. hafi afsalað sér valdi til þess. Ég mundi ekki, held ég vilja sitja á Alþ., ef Alþ. ætti að fara að ákveða hámarksálagningu og hámarksverð á vörum. Það held ég að verði nokkuð tafsamt verk. Ég held því að aldrei verði komist hjá því að fela einhverjum aðilum ákvörðunarvald í þessum efnum, ef þetta á á annað borð ekki að vera frjálst. Við getum sagt að það sé hið æskilega markmið, sem stefnt er að með þessu frv., að frjálsræði ríki í þessum efnum þegar skilyrði eru fyrir hendi. Og ég er sannfærður um að það er það æskilega fyrirkomulag. Það er auðvitað engin tilviljun, að allar nágrannaþjóðir okkar hafa stefnt í þá átt að reyna að gefa eins mikið frelsi í þessum efnum og unnt er. Ég held þó að þær hafi allar einhverja hemla sem þær geta beitt, sem þær geta gripið til ef á þarf að halda.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það sem fram kom. Það er að sjálfsögðu svo, að menn hafa mismunandi skoðanir á þessu. Við því er ekkert að segja. Auðvitað athugar n. þetta, og ef henni finnst ástæða til að gera brtt., þá tek ég því ekki illa að slíkt sé athugað.