02.11.1977
Neðri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

7. mál, hlutafélög

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég verð nú að segja eins og er, að ég vonaðist eftir því að hv. 3, þm. Reykv. mundi taka þessu máli betur en hann gerði. (MK: Ég tók því ákaflega jákvætt.) Ég vona að flokksbræður hans séu honum fremri í því, þessum hv. þm., að ganga til liðs við þetta mál án tillits til þess hverjir flytja það. Ég man eftir því, að í umr., sem urðu í fyrra í hv. Sþ., sagði einn af flokksmönnum hans um annað mál, sem við Alþfl: menn fluttum, að þetta væri að sjálfsögðu mjög gott mál og þarft, en hann vildi aldrei greiða því atkv., vegna þess að það væru Alþfl: mennirnir sem flyttu það. Ég vona að hv. 3. þm. Reykv. láti ekki svona sjónarmið blinda sig þegar um jafnmikilvægt mál og hér um ræðir er að tefla. A.m.k. á ég þess von, að kjósendur hans hér í Reykjavík og kjósendur flokks hans víða um landið mundu vonast til þess, beinlínis ætlast til þess af hv. þm. Alþb. að þeir veittu máli eins og hér um ræðir stuðning.

Í sambandi við lausatök, sem hv. þm. ræddi um varðandi flutning á þessum frv., þá tók ég það fram í framsöguræðu minni að fyrir einu ári fluttum við þm. Alþfl. mál um sömu efnisatriði í sérstöku einu frv., í frv. til l. um atvinnulýðræði. Það frv. var í mörgum köflum og gerði ráð fyrir því, að gerðar yrðu margar sjálfstæðar breytingar á sérstökum lagabálkum. Sú ábending kom fram þá, m.a. frá virðulegum forseta þessarar d., að það væri réttari málsmeðferðferð að flytja þessi efnisatriði sem sérstök þingmál, en ekki sem kafla í einu og sama málinu, sem bandorm, eins og þm. kalla oft slík mál. Að vísu gerði ríkisstj. sig oft seka um slíkan málatilbúnað, en mig minnir að virðulegur forseti hafi beint þeirri ósk til óbreyttra þm., að þeir tækju ekki ríkisstj. sér til fyrirmyndar í þeim efnum.

Um hvernig eigi að skilgreina atvinnulýðræði getum við hv. 3, þm. Reykv. auðvitað rifist langan daginn. Sama máli gegnir um atvinnulýðræði og skilgreiningu á því eins og pólitískt lýðræði og skilgreiningu á því. Það er gamalt orð, pólitískt lýðræði, bæði í íslensku og öðrum tungumálum, og ég veit a.m.k. enn jafnvel og hv. 3. þm. Reykv. að menn eru ekki aldeilis búnir að koma sér saman um skilgreininguna á því, hvað þá heldur skilgreiningu á hvað er atvinnulýðræði, sem er miklu yngra hugtak. T.d. man ég eftir því, að ég las það í blaði ekki alls fyrir löngu þar sem var verið að skýra frá hinni nýju stjórnarskrá sem var verið að setja í Sovétríkjunum og væri mikil lýðræðisframför þar í landi, að borist hefðu ýmsar ábendingar frá hinum og þessum Jónum Jónssonum og Jónsdætrum úti um Sovétríkin. M.a. hefði borist ábending frá einhverri leikkonu um að nauðsynlegt væri að það væri sett í stjórnarskrá Sovétríkjanna að íbúar Sovétlýðveldanna ættu að ganga almennilega um íbúðir ríkisins. Það þurfi að koma ákvæði í stjórnarskránna um að leigunautar ríkisins í Sovétríkjunum ættu að annast viðhald á íbúðum ríkisins betur en þeir gerðu hingað til. Það var sérstaklega tekið fram, að undir þessar ábendingar sovésku leikkonunnar hefði verið tekið og stjórnarskrá Sovétríkjanna væri nú þannig úr garði gerð, að mönnum væri þar upp á lagt að ganga vel um íbúðir í eigu ríkisins, og væri það að sjálfsögðu mikil lýðræðisleg betrumbót í stjórnarskrá Sovétríkjanna frá því sem áður hefði verið. En ég er ansi hræddur um að jafnvel á hinu pólitíska lýðræði séu margar skilgreiningar á lofti, því að ég efast um að við hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, séum sammála þeim Sovétmönnum um það — þó er það náttúrlega aldrei að vita — séum sammála þeim Sovétmönnum um að brýna nauðsyn beri til lýðræðisins vegna að taka slík ákvæði í stjórnarskrá ríkja eins og ég lýsti hér áðan.

Þá vil ég einnig taka fram, að það er mesti misskilningur að sú lausn, sem lögð er til t.d. í þessu frv. til l. um breyt. á l. um hlutafélög, sé einhver fljótaskrift okkar þm. Alþfl. Ég tók það fram, og það kemur líka fram í grg. með þessu frv. og kom mjög greinilega fram þegar við fluttum sama mál á síðasta Alþ., að þér byggjum við á miklum athugunum og rannsóknum annarra og aðhæfum þær íslenskum aðstæðum. Við byggjum hér á norskri lagasetningu sem átti sér talsvert langan aðdraganda, og Norðmenn hafa haft reynslu af ýmsum skipunum í sambandi við atvinnulýðræði allt frá árinu 1912, þannig að þegar þeir árið 1972 gera breytingar á sínum hlutafélagalögum, sambærilegar og hér er lagt til að gerðar verði á íslenskum hlutafélagalögum, þá byggja þeir á langri reynslu og miklum athugunum. Við tökum í þessu frv., sem hér um ræðir, þessa vinnu Norðmanna, hinna norsku lagasmiða, mjög til fyrirmyndar og notfærum okkur þeirra reynslu og þeirra rannsóknir og á gildandi lögum í Noregi byggjast þessar till. okkar. Að vísu aðlögum við þær íslenskum aðstæðum, t.d. fellum við algerlega niður í okkar frv. þann þátt í norsku lögunum um sambærilegt efni sem fjallar um hvernig þessum málum skuli fyrir komið hjá fyrirtækjum sem hafa 200 starfsmenn eða fleiri á sínum snærum. Af mjög eðlilegum orsökum fellum við þetta niður, þannig að það er alrangt að halda því fram að hér sé byggt á einhverjum lausum grunni, síður en svo.

Þá er það einnig rangt að ekki sé tekið fram hvaða verkefni stjórnarmenn, sem kjörnir eru af starfsmönnum hlutafélags, ættu að hafa með höndum. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að þeir hafi með höndum sama verkefni og aðrir stjórnarmenn að öllu leyti, auk þess viðbótarverkefnis, sem fram kemur í 41. gr. frv. þessa, á bls. 2, að þeir skuli ekki sjaldnar en tvísvar á ári halda reglulega fundi með starfsfólki fyrirtækisins um málefni hlutafélagsins. Að sjálfsögðu er til þess ætlast að þarna sé um náið daglegt samráð að ræða, þó að ekki sé tekið fram sérstaklega í frv., enda býst ég varla við því, þegar kjörið er á eins árs fresti í stjórnir hlutafélaga, að fulltrúar starfsmanna, sem ekki hafa sinnt þeirri einföldu skyldu að hafa samráð við sína kjósendur, yrðu endurkjörnir eftir árið.

Það er því mesti misskilningur, að ekki sé ákvæði í þessu frv. um verkefni stjórnarmanna sem kjörnir eru af starfsfólki. Og það má auðvitað lengi halda því fram, að eitthvert mál sé ekki nógu gott. Það hefur oft verið viðbáran þegar mál af þessu tagi hefur borið á góma á Alþ., að ekki borgi sig að samþykkja þetta vegna þess að það sé ekki nógu gott, og síðan er ekkert gert. En er ekki margfalt betra að samþykkja þá breytingu, sem hér er lögð til, heldur en hafa ástandið óbreytt frá því sem nú er? Það sem Norðmenn, sem hafa reynslu allt aftur til ársins 1912, telja nógu gott fyrir sig með sína miklu forsögu í þessum málum, er það ekki nógu gott fyrir okkur, a.m.k. til að byrja með? Sambærileg ákvæði og hér eru lögð til eru búin að vera í hlutafélagalögum í Noregi frá 1972. Mér finnst full ástæða til þess og mundi þykja það myndarlegt skref, ef Alþingi Íslendinga, eftir allt sinnuleysið og allan doðann undanfarna áratugi, tæki sig nú til á því herrans ári 1977 og setti hér á Íslandi sambærileg lög um aðild starfsmanna að stjórn hlutafélaga og búin eru að gilda í Noregi síðan 1972.

Það mun hafa verið talsvert tíðkað af fyrsta formanni Alþfl. og Alþýðusambands Íslands, Jóni Baldvinssyni, þegar hann átti að mæta svipaðri andstöðu, byggðri á svipuðum grunni og nú er hjá hv. 3. þm. Reykv., að segja sögu af því þegar hann var að læra prentiðn í æsku sinni. Þá sagði hann frá því að hann ræki minni til þess að eitt sinn hefði hann verið að setja matreiðslubók fyrir heldri manna konur. Þá hefði jafnan verið getið í uppskriftum, að taka ætti svona og svona margar silfurskeiðar af því sem nota átti í baksturinn. Nú getur það rétt verið að það megi kvarta mjög undan því, að íslenskur almenningur eigi ekki silfurskeiðar. En spurningin er hvort menn eigi þá að leggja baksturinn niður.

Það getur vel verið, að ýmislegt megi finna ábótavant við þetta frv. og þær hugmyndir um lausn, sem þar koma fram, ýmislegt sem betur mætti fara, þar séu ekki silfurskeiðarnar margar. Spurningin, sem hlýtur að vaka fyrir okkur, er: Jafnvel þó við eigum ekki þessar silfurskeiðar til, eigum við þá að hverfa frá verkinu? Það held ég ekki. Ég held að talsvert sé áunnið, ef við getum náð saman um einhverjar breytingar á hlutafélagalögunum í þá átt sem þetta frv. gerir ráð fyrir, kannske ekki alveg nákvæmlega eins og þar er sett fram, því að alltaf sjá augu betur en auga, og vera má að við athugun í n. þingsins komist menn að raun um að annar háttur sé betri, en það er ekki það sem er meginatriðið, heldur hitt, að Alþ. láti ekki lengur standa upp á sig — ja, ég vil segja skömmina í þessu máli, en reyni að aðhafast eitthvað svo að við a.m.k. þurfum ekki að bera kinnroða gagnvart frændum okkar á Norðurlöndum fyrir það, hvernig komið er áhrifum íslenskra launþega á atvinnurekstur fyrirtækja sem þeir starfa hjá.

Ég vil einnig taka það fram hv. 3. þm. Reykv. til fróðleiks, að við flm. þessa frv. erum búnir að safna að okkur talsvert miklum gögnum um ástand þessara mála í nálægum löndum, ekki aðeins í Vestur-Evrópulöndum, heldur í Júgóslavíu líka. Ætli þessir bæklingar og dreifirit, sem við höfum safnað að okkur á undanförnum árum, skipti ekki orðið nokkrum tugum? Við höfum einnig í höndunum norsku lögin sérprentuð, sem sett voru 1972, og enn fremur sænsku lögin, sem borin voru fram 1975–1976, sérprentuð í fallegri rauðri bókarkápu, lögin sem hv. þm. minntist á hér áðan og var að vekja athygli okkar á. Það er alveg sjálfsagt að ljá hv. 3. þm. Reykv. þennan fallega bækling til aflestrar, ef hann hefur áhuga á því. En við skulum ekki láta það fæla okkur frá því að afgreiða svona mál, þó að misjafn sé framkvæmdahátturinn sem valinn hefur verið í hinum einstöku löndum. Eins og ég lýsti hér áðan er eitt skipulag í gildi í meginlandsríkjunum, sem tilheyra Efnahagsbandalaginu, einkum þó V.-Þýskalandi, annað fyrirkomulag í Júgóslavíu, enn annað í Svíþjóð, það fjórða í Noregi, fimmta í Danmörku og till. um sjötta fyrirkomulagið hefur verið borin upp af stjórnskipaðri nefnd í Bretlandi. Aðalatriðið er það, að við reynum að koma hér einhvers konar kerfi um áhrif starfsmanna á stjórnun fyrirtækja, sem henta vel sérstökum aðstæðum hér á Íslandi, og umfram allt að Alþ. fari nú að taka svolitla rögg á sig og taka einhverja afstöðu í slíku máli, hver svo sem sú afstaða verður.